Sjóarinn síkáti í Grindavík
Sjómanna- og fjölskylduhátíðin Sjóarinn síkáti í Grindavík verður að vanda haldin sjómannadagshelgina 5.-7. júní í til heiðurs íslenska sjómanninum og fjölskyldu hans. Hátíðin hefur fest sig í sessi sem ein fjölbreyttasta bæjarhátíð landsins og árlega sækja hana 20 til 25 þúsund manns.
Boðið er upp á fjölbreytta dagskrá alla helgina og er mikið lagt upp úr vandaðri barnadagskrá. Líkt og undanfarin ár verður bænum skipt upp í fjögur litahverfi.
Skonrokk og sjávardýr
Sjóarinn síkáti verður með ýmsar nýjungar í ár, t.d. Skonrokkstónleika í íþróttahúsinu, fiskasafn með lifandi sjávardýrum í fiskabúrum á bryggjukantinum við hátíðarsviðið, keppnina sterkasti víkingur heims og körfuboltamót fyrir yngri iðkendur, en leiktæki verða einnig á bryggjuballinu á föstudagskvöldið, Sjóara síkátahlaupið og síðdegistónleika á hátíðarsviðinu.
Á sunnudagskvöldið verða Vísissystkinin með minningartónleika í Grindavíkurkirkju um foreldra sína, Palla og Möggu eins og þau Páll H. Pálsson frá Þingeyri, stofnandi Vísis, og Margrét Sighvatsdóttir voru jafnan kölluð. Í tilefni af 50 ára afmæli Vísis er bæjarbúum og gestum Sjóarans síkáta boðið að skoða fiskvinnslu fyrirtækisins undir leiðsögn eigenda.
Sjómaðurinn síkáti býður upp á margt fleira. Umsjón með hátíðahöldunum hefur Grindavíkurbær í samstarfi við Sjómanna- og vélstjórafélag Grindavíkur.
Morgunblaðið.