A A A
  • 1950 - Árni Ásbjörn Jónsson
  • 1962 - Siggeir Stefánsson
10.05.2017 - 08:01 | Björn Ingi Bjarnason,ruv.is,Vestfirska forlagið

Sjávarþorp þurfi svigrúm til að þróast áfram

Um helgina fór fram á Flateyri málþing um framtíð sjávarþorpa. Mynd: Halla Ólafsdóttir  -  RÚV
Um helgina fór fram á Flateyri málþing um framtíð sjávarþorpa. Mynd: Halla Ólafsdóttir - RÚV

Sjávarþorp eiga það sameiginlegt að búa við stöðugu óvissu um að missa stoðirnar undan atvinnulífinu. Þetta segir prófessor í félagsfræði. Þorpin hafa verið í sífelldri þróun frá því að þau byrjuðu að myndast og því telur hann mikilvægt að sjávarþorpin fái svigrúm til að halda áfram að breytast og þróast.

„Í umræðum um sjávarútveg er talað um rétt þjóðarinnar til að njóta auðlindarinnar, talað um rétt sjárvarútvegsins til að vera með arðbæran rekstur, gott og vel, þá getum við spurt: Byggðalög sem byggðust upp við sjávarútveg, og eiga ekki að öðru að hverfa, eiga þau einhvern sjálfstæðan rétt til að halda áfram?“ 

 

Spyr Þóroddur Bjarnason, prófessor í félagsfræði við Háskólann á Akureyri. Hann var meðal fyrirlesara á málþingi um stöðu sjávarþorpa sem fram fór á Flateyri um helgina. Sé það almannaálit að byggðarlög hafi ekki sjálfstæðan rétt þá sé ekki ástæða til að halda úti sjávarþorpum en sé svarið já, þá þurfi að finna jafnvægi.



„Og þá er það spurningin. Erum við að finna jafnvægi milli hagsmuna ríkissjóðs og útgerðar. Eða horfum við á sjávarbyggðirnar sem sjálfstæðan aðila og að það þurfi að taka til þeirra hagsmuna líka,“

 

spyr Þóroddur.

 

Breytt hlutverk íslenskra sjávarþorpa

Flateyri hefur, eins og önnur sjávarþorp, átt undir högg að sækja eftir að stærstur hluti aflaheimilda þorpsins var seldur á brott. Hnignun sjávarþorpanna er þó einnig rakin til örra breytinga á hlutverki þeirra. Sjávarþorpin byggðust upp í byrjun 20. aldarinnar með vélvæðingu sjávarútvegarins en sem hluti af sveitasamfélaginu. Sjávarþorpin voru samgöngumiðstöðvar, þau tengdu sveitasamfélögin við umheiminn þar sem samgöngur fóru helst fram á sjó, og voru þjónustumiðstöðvar fyrir sveitir og sjávarútveg. Þegar mest var bjuggu 7000 manns í sveitum Vestfjarða en nú búa þar um 700 manns.

 

„Þegar líður á 20. oldina þá smám saman fækkar hlutverkum þeirra. Þegar samgöngur færast á land, þá dettur þetta samgönguhlutverk út. Þegar samgöngur batna. Verslun þjappast saman. Þjónusta við landbúnað þjappast saman. Það smám saman reiða þau sig meira á sjávarútveginn. Það eru færri stoðir undir þeim. Þannig að þegar kvótakerfið kemur inn, þegar tæknivæðinging fer á flug, þessi samþjöppun í sjávarútveginum byrjar og það fjarar undan sjávarútvegnum. Þá má segja að þau hafi ekki haft að miklu öðru að hverfa,“

 

segir Þóroddur.  Það sé því þar sem vandi sjávarþorpanna liggur. Þóroddur segir að sjávarþorp með færri en 500 íbúa hafi sérstaklega átt undir högg að sækja með tilkomu kvótakerfisins og aukinnar tæknivæðingar í sjávarútvegi. Svokölluð blaut störf, eins og í vinnslu, eru oft í þorpum og hefur þeim fækkað mikið á meðan tæknitengdum störfum hefur fjölgað. Þau séu jafnan í stærri bæjum og borgum.

 

Sjávarþorp búa við stöðuga óvissu

Flateyri hefur gengið í gegnum miklar breytingar á undanförnum aldarfjórðungi. Árið 1995 varð þar mannskætt snjóflóð, árið 1996 sameinaðist Flateyri Ísafirði og öðrum sveitarfélögum á norðanverðum Vestfjörðum, Vestfjarðagöng opnuðu sama ár og árið 2007 var stærstur hluti aflaheimilda þorpsins seldur á brott. Fyrir þessar breytingar voru íbúar um 350 en eru nú um 180. Þótt saga Flateyrar sé sérstök þá eru mörg sjávarþorp í svipaðri stöðu.

 

„Öll sjávarþorp hafa búið við þessa óvissu. Það er ekki það að þau hafi endilega misst aflaheimildir sína heldur búa við þá óvissu að geta misst aflaheimilidir sínar hvenær sem er.“

 

Þóroddur segir óvissuna draga máttinn úr samfélögum. Letji fólk til að kaupa sér hús og til dæmis stofna verslun. Það eigi á hættu á að undirstöðuatvinnugrein þorpsins geti horfið á hverri stundu.

Áskorunin felst í breyttu umhverfi

Þóroddur segir breytt hlutverk sjávarþorpa vera áskorun þeirra. Þau hafi verið í stöðugri þróun frá því að þau tóku að myndast í upphafi 20. aldar og komi til með að halda áfram að þróast.

 

„Heilt yfir þá getum við sagt að það sem þarf fyrst og fremst að gera er að tryggja það að byggðarlög hafi svigrúm til að breytast og þróast í stað þess að fólk búi í einhverju áratuga gömlu umhverfi.“

 

Breytt hlutverk Flateyrar er áskorun sem íbúar á Flateyri hafa, margir hverjir, tekið. Þar er nú til dæmis stefnt að því að stofna lýðháskóla sem nýtir sér sérstöðu staðarins með tilliti til umhverfis og náttúru, kvikmyndamenningar þorpsins og öflugs tónlistarlífs. Þóroddur segir rangnefni að segja að sjávarþorp eins og Flateyri búi við fólksflótta. Það sé eðlilegt að fólk flytji, það séu ávallt um 7 prósent fólks sem flytja í burtu, en verkefni þorpanna felist í því að búa þannig um garðinn að fólk geti hugsað sér að flytja í þorpin með fengna þekkingu og reynslu.

 

„Þessi hugmynd um það að vandamálið sé einhver fólksflótti sem þurfi að girða fyrir þá lokum við líka augunum fyrir tækifærunum sem felast í því að fólk er að flytja fram og til baka,“

 

segir Þóroddur Bjarnason.

 

 

RUV - Halla Ólafsdóttir á Ísafirði.


« Desember »
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31