Sjálfstæðisflokkur tapar fylgi, Samfylking vex
Sjálfstæðisflokkurinn tapar þriðjungi þingmanna sinna samkvæmt nýrri skoðanakönnun Félagsvísindastofnunar fyrir Morgunblaðið dagana 2. til 4. október. Flokkurinn nýtur nú stuðnings tæplega 21% kjósenda og fengi 14 þingmenn kjörna í stað 21.
Vinstrihreyfingin – grænt framboð er langstærsti flokkurinn. Nýtur hún stuðnings 28,2% kjósenda, sem gefur 20 þingmenn. Þetta er veruleg fylgisaukning frá kosningunum 2016 þegar flokkurinn fékk tæp 16% atkvæða og 10 þingmenn. Fylgi flokksins hefur þó lítillega dalað frá síðustu könnun Félagsvísindastofnunar.
Þá sætir það tíðindum í könnuninni að Samfylkingin bætir við sig talsverðu fylgi og er orðin þriðji stærsti flokkurinn. Fengi hún um 11% atkvæða og sjö þingmenn, en hún hefur nú aðeins þrjá menn á þingi og fékk 7,5% atkvæða í kosningunum í fyrra.
Flokkur fólksins, Miðflokkurinn og Píratar eru nánast jafn stórir með um 9% fylgi og fengju hver sex þingmenn kjörna, að því er fram kemur í umfjöllun um könnunina í Morgunblaðinu í dag.