Sigurjón Samúelsson - Fæddur 6. febrúar 1936 - Dáinn 4. ágúst 2017 - Minning
Sigurjón var elsta barn hjónanna Samúels G. Guðmundssonar, bónda á Hrafnabjörgum, og Hildar Hjaltadóttur húsfreyju og ljósmóður á Hrafnabjörgum.
Synir Sigurjóns eru:
1. Samúel Guðmundur, f. 1966, vélstjóri í Reykjavík, giftur Ragnheiði I. Þórólfsdóttur, hann á með henni tvö börn og á að auki önnur tvö börn frá fyrra sambandi. 2. Kristinn Þorbergur, f. 1968, vöruflutningabílstjóri í Kanada, í sambandi með Martha Amelia Castillo frá Ecuador, þau eru barnlaus en Kristinn á tvö börn frá fyrra samandi.
Sigurjón ólst upp við hefðbundin sveitastörf auk starfa á jarðvinnutækjum búnaðarfélaga Ögur- og Reykjafjarðarhreppa, aðallega við túnræktun og vegagerð.
Sigurjón stundaði einnig sjómennsku um nokkurra ára skeið á vertíðum, aðallega frá Grindavík. Lengst af sem 2. vélstjóri á vélbátnum Guðjóni Einarssyni. Sigurjón tók við búi á Hrafnabjörgum eftir lát föður síns árið 1958 og bjó þar alla tíð síðan. Framan af með sauðfé og kýr en seinni árin eingöngu sauðfé.
Sigurjón var formaður Veiðifélags Laugdælinga um áratuga skeið, sat í hreppsnefnd Ögurhrepps og síðar Súðavíkurhrepps um ára bil. Hann var auk þess formaður búnaðarfélags Ögurhrepps um tíma og í stjórn Ræktunarsambands Ögur- og Reykjafjarðarhrepps.
Áhugamál Sigurjóns var söfnun og varðveisla gamalla hljómplatna og átti hann gríðarstórt plötusafn sem innihélt m.a. nánast allar íslenskar 78 snúninga plötur sem gefnar voru út.
Útför Sigurjóns verður frá Ögurkirkju, í dag, 12. ágúst 2017, kl. 14.
_____________________________________________________________
Minningarorð Þóru Karls
Sigurjón, sem ólst upp í stórum systkinahópi á Hrafnabjörgum, fór nokkuð ungur að árum til sjós. Gjarnan hefði hann kosið að eigin sögn, að gera sjómennskuna að ævistarfi og þá helst sem vélstjóri. En örlögin buðu Sigurjóni ekki upp á nám vélfræðum; þegar faðir hans lést, langt fyrir aldur fram, réttu þau honum hins vegar hlutverk bóndans á Hrafnabjörgum til næstu rúmlega fimmtíu áranna. Áhugi Sigurjóns og þekking á vélum nýttist þó bæði honum sjálfum og nágrönnum hans oft og vel í búskapnum.
Sigurjón var einkar greiðvikinn maður og þyrfti einhver á hjálp hans að halda var ekki spurt um dag eða klukku, hann var alltaf boðinn og búinn til að rétta hjálparhönd hverjum þeim sem á þurfti að halda, hver sem hann var og hvenær sem var.
Það hefur alltaf verið gott að koma að Hrafnabjörgum og þótti manni ekki leiðinlegt á æskuárunum að vera sendur þangað ýmissa erinda. Sigurjón og allt hans skyldulið höfðingjar heim að sækja, fólk sem gaf ævinlega af tíma sínum þótt í ýmsu væri að snúast. Stundum setti Sigurjón plötu á fóninn og þar var sannarlega af nógu að taka því eins og löngu er kunnugt, var Sigurjón þjóðþekktur plötusafnari sem vissi nákvæmlega allt sem vert var að vita um safnið sitt, höfunda laga og ljóða, flytjendur, útgáfuár, o.s.frv. Ég viðurkenni að sem krakka fannst mér þetta ekki sérlega áhugavert safn, – enda átti Sigurjón ekki mikið af plötum Bítlanna eða The Rolling Stones.
En með tímanum lærði ég að meta „gömlu lögin“ og mun endalaust dást að ótrúlegri vitneskju Sigurjóns um þær gersemar sem hann var með í höndunum og því hve ljúft honum var að miðla af þekkingu sinni til annarra. Sigurjón las mikið og hafði sérstakt dálæti á bókum Halldórs Laxness.
Hann kunni einnig reiðinnar býsn af ýmiss konar vísum og skemmtilegum sögum af mönnum og málefnum og hafði gaman af að segja frá, –góðar minningar um glaðværar sögustundir munu lengi geymast.
Þjóðlegan fróðleik mat Sigurjón mikils og einn er sá siður sem hann lagði öðru fólki fremur rækt við; að heilsa og kveðja ævinlega með handabandi, alla sína gesti, – og þeir voru margir, og sömuleiðis fólkið sem hann heimsótti. Skipti þá engu hvort í hlut áttu ungbörn eða gamalmenni og óhætt er um það að handtakið var bæði hlýtt og traust.
Afkomendur og venslafólk Birnustaðahjónanna, Guðrúnar Jónsdóttur og Karls Gunnlaugssonar, kveður Sigurjón á Hrafnabjörgum með söknuði og innilegri þökk fyrir samfylgdina. Sonum hans, öðrum ættingjum og vinum öllum, sendum við einlægar samúðarkveðjur.