A A A
  • 1981 - Berglind Hrönn Hlynsdóttir
12.08.2017 - 09:13 | Vestfirska forlagið,Morgunblaðið,Hallgrímur Sveinsson,Björn Ingi Bjarnason

Sigurjón Samúelsson - Fæddur 6. febrúar 1936 - Dáinn 4. ágúst 2017 - Minning

Sigurjón Samúelsson (1936 - 2017).
Sigurjón Samúelsson (1936 - 2017).
Sig­ur­jón Samú­els­son, bóndi á Hrafna­björg­um í Ísa­fjarðar­djúpi, fædd­ist á Hrafna­björg­um 6. fe­brú­ar 1936. Hann andaðist eft­ir lang­vinn veik­indi á hjúkr­un­ar­heim­il­inu Eyri á Ísafirði 4. ág­úst 2017.

Sig­ur­jón var elsta barn hjón­anna Samú­els G. Guðmunds­son­ar, bónda á Hrafna­björg­um, og Hild­ar Hjalta­dótt­ur hús­freyju og ljós­móður á Hrafna­björg­um.

Syn­ir Sig­ur­jóns eru:

1. Samú­el Guðmund­ur, f. 1966, vél­stjóri í Reykja­vík, gift­ur Ragn­heiði I. Þórólfs­dótt­ur, hann á með henni tvö börn og á að auki önn­ur tvö börn frá fyrra sam­bandi. 2. Krist­inn Þor­berg­ur, f. 1968, vöru­flutn­inga­bíl­stjóri í Kan­ada, í sam­bandi með Martha Amelia Castillo frá Ecua­dor, þau eru barn­laus en Krist­inn á tvö börn frá fyrra sam­an­di.

Sig­ur­jón ólst upp við hefðbund­in sveita­störf auk starfa á jarðvinnu­tækj­um búnaðarfé­laga Ögur- og Reykja­fjarðar­hreppa, aðallega við tún­rækt­un og vega­gerð.

Sig­ur­jón stundaði einnig sjó­mennsku um nokk­urra ára skeið á vertíðum, aðallega frá Grinda­vík. Lengst af sem 2. vél­stjóri á vél­bátn­um Guðjóni Ein­ars­syni. Sig­ur­jón tók við búi á Hrafna­björg­um eft­ir lát föður síns árið 1958 og bjó þar alla tíð síðan. Fram­an af með sauðfé og kýr en seinni árin ein­göngu sauðfé.

Sig­ur­jón var formaður Veiðifé­lags Laug­dæl­inga um ára­tuga skeið, sat í hrepps­nefnd Ögur­hrepps og síðar Súðavík­ur­hrepps um ára bil. Hann var auk þess formaður búnaðarfé­lags Ögur­hrepps um tíma og í stjórn Rækt­un­ar­sam­bands Ögur- og Reykja­fjarðar­hrepps.

Áhuga­mál Sig­ur­jóns var söfn­un og varðveisla gam­alla hljóm­platna og átti hann gríðar­stórt plötusafn sem inni­hélt m.a. nán­ast all­ar ís­lensk­ar 78 snún­inga plöt­ur sem gefn­ar voru út.

Útför Sig­ur­jóns verður frá Ögur­kirkju, í dag, 12. ág­úst 2017, kl. 14.
_____________________________________________________________

Minningarorð Þóru Karls

 

Sig­ur­jón Samú­els­son, bóndi á Hrafna­björg­um, hef­ur haft vista­skipti. Að kvöldi föstu­dags­ins 4. ág­úst sl. lagði hann upp í ferðina sem allra bíður. Það kem­ur róti á huga og ýms­ar minn­ing­ar vakna þegar fólkið sem „alltaf hef­ur verið til“ kveður. Fjöl­skyld­urn­ar á ná­granna­bæj­un­um voru eðli­lega hluti af lífi barn­anna sem uxu upp í Laug­ar­dal á seinni hluta síðustu ald­ar og vegna bú­setu Sig­ur­jóns varð hann sá af Hrafna­bjarga­fjöl­skyld­unni sem börn­in okk­ar og barna­börn­in flest hafa verið svo hepp­in að ná að kynn­ast.

Sig­ur­jón, sem ólst upp í stór­um systkina­hópi á Hrafna­björg­um, fór nokkuð ung­ur að árum til sjós. Gjarn­an hefði hann kosið að eig­in sögn, að gera sjó­mennsk­una að ævi­starfi og þá helst sem vél­stjóri. En ör­lög­in buðu Sig­ur­jóni ekki upp á nám vélfræðum; þegar faðir hans lést, langt fyr­ir ald­ur fram, réttu þau hon­um hins veg­ar hlut­verk bónd­ans á Hrafna­björg­um til næstu rúm­lega fimm­tíu ár­anna. Áhugi Sig­ur­jóns og þekk­ing á vél­um nýtt­ist þó bæði hon­um sjálf­um og ná­grönn­um hans oft og vel í bú­skapn­um.

Sig­ur­jón var einkar greiðvik­inn maður og þyrfti ein­hver á hjálp hans að halda var ekki spurt um dag eða klukku, hann var alltaf boðinn og bú­inn til að rétta hjálp­ar­hönd hverj­um þeim sem á þurfti að halda, hver sem hann var og hvenær sem var.

Það hef­ur alltaf verið gott að koma að Hrafna­björg­um og þótti manni ekki leiðin­legt á æsku­ár­un­um að vera send­ur þangað ým­issa er­inda. Sig­ur­jón og allt hans skyldulið höfðingj­ar heim að sækja, fólk sem gaf æv­in­lega af tíma sín­um þótt í ýmsu væri að snú­ast. Stund­um setti Sig­ur­jón plötu á fón­inn og þar var sann­ar­lega af nógu að taka því eins og löngu er kunn­ugt, var Sig­ur­jón þjóðþekkt­ur plötusafn­ari sem vissi ná­kvæm­lega allt sem vert var að vita um safnið sitt, höf­unda laga og ljóða, flytj­end­ur, út­gáfu­ár, o.s.frv. Ég viður­kenni að sem krakka fannst mér þetta ekki sér­lega áhuga­vert safn, – enda átti Sig­ur­jón ekki mikið af plöt­um Bítl­anna eða The Roll­ing Stones.

En með tím­an­um lærði ég að meta „gömlu lög­in“ og mun enda­laust dást að ótrú­legri vitn­eskju Sig­ur­jóns um þær ger­sem­ar sem hann var með í hönd­un­um og því hve ljúft hon­um var að miðla af þekk­ingu sinni til annarra. Sig­ur­jón las mikið og hafði sér­stakt dá­læti á bók­um Hall­dórs Lax­ness.

Hann kunni einnig reiðinn­ar býsn af ým­iss kon­ar vís­um og skemmti­leg­um sög­um af mönn­um og mál­efn­um og hafði gam­an af að segja frá, –góðar minn­ing­ar um glaðvær­ar sögu­stund­ir munu lengi geym­ast.

Þjóðleg­an fróðleik mat Sig­ur­jón mik­ils og einn er sá siður sem hann lagði öðru fólki frem­ur rækt við; að heilsa og kveðja æv­in­lega með handa­bandi, alla sína gesti, – og þeir voru marg­ir, og sömu­leiðis fólkið sem hann heim­sótti. Skipti þá engu hvort í hlut áttu ung­börn eða gam­al­menni og óhætt er um það að hand­takið var bæði hlýtt og traust.

Af­kom­end­ur og vensla­fólk Birn­ustaðahjón­anna, Guðrún­ar Jóns­dótt­ur og Karls Gunn­laugs­son­ar, kveður Sig­ur­jón á Hrafna­björg­um með söknuði og inni­legri þökk fyr­ir sam­fylgd­ina. Son­um hans, öðrum ætt­ingj­um og vin­um öll­um, send­um við ein­læg­ar samúðarkveðjur.

 

Þóra Karls.
 
Morgunblaðið laugardagurinn 12. ágúst 2017.


« Apríl »
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30