Sigrún Guðmundsdóttir - Fædd 2. júní 1920 - Dáin 14. september 2017 - Minning
Foreldrar hennar voru Guðmundur G. Kristjánsson frá Meiri-Garði í Dýrafirði, f. 23. janúar 1893, d. 4. nóvember 1975, og Lára Ingibjörg Magnúsdóttir frá Sauðárkróki, f. 19. júlí 1894, d. 15. júlí 1990.
Sigrún var eina stúlkan í hópi sjö bræðra: Magnús, 1916-1918, Ólafur, 1918-1982, Magnús, 1920-1941, Kristján Sigurður, 1922-2003, Páll Steinar, 1926-2015, Haraldur, 1928-1935, og Lárus Þorvaldur, f. 1933, sem einn lifir systur sína.
Sigrún giftist Hallgrími F. Árnasyni bifreiðastjóra, f. 12. september 1918, d. 18. desember 2001. Sigrún og Hallgrímur gengu í hjónaband 30. október 1954. Þau bjuggu í Hafnarfirði allan sinn búskap en Sigrún fluttist til Reykjavíkur árið 2003 eftir lát Hallgríms.
Sigrún og Hallgrímur eignuðust þrjú börn:
1) Árni, f. 2. apríl 1956. Hans börn með Emilíu G. Magnúsdóttur, f. 1957: a) Védís, f. 1977, eiginmaður Gunnar Jóhannesson, f. 1977, búsett í Noregi, þau eiga fjögur börn, þau eru Sölvi, Snorri, Hugi og Hildur; b) Hallgrímur, f. 1988, búsettur í Austurríki. Dóttir Árna og Unnar Ágústsdóttur, f. 1955, er c) Katrín, f. 2000.
2) Lára Ingibjörg, f. 14. apríl 1957, gift Símoni Reyni Unndórssyni, f. 1956. Þeirra börn: a) Ásdís Eir, f. 1984, sambýlismaður Sigurður Páll Guðbjartsson, f. 1979, þau eiga tvo syni: Styrmi Frey og Kára Hrafn; b) Óttar, f. 1993.
3) Rósa Sigríður, f. 6. júlí 1959, d. 21. júlí 1961.
Sigrún útskrifaðist 1949 sem fóstra frá Uppeldisskóla Sumargjafar í Reykjavík og vann á leikskólum í Reykjavík allt þar til hún giftist 1954. Hún tók upp þráðinn á ný árið 1972 og vann sem leikskólakennari við leikskóla í Garðabæ og Reykjavík. Hún var leikskólastjóri í Hlíðaborg við Eskihlíð í Reykjavík frá 1974 þar til hún lét af störfum af heilsufarsástæðum árið 1982.
Útför Sigrúnar fór fram frá Fríkirkjunni í Hafnarfirði í gær, 22. september 2017.
____________________________________________________________________
Minningaorð séra Lárusar Þorvaldar Guðmundssonar.
Sigrún systir mín var orðvör og hógvær kona. Ég minnist ekki að hún hafi hnjóðað í nokkurn mann eða lagt til illt orð, aðeins stundi hún við, leit svo upp á við og því næst niður, ef aðstæður kröfðu hana álits á einhverjum, sem henni fannst miður til um.
Hún ól mig upp frá frumbernsku, því við vorum yngst í stórum bræðrahópi og móðir okkar hafði í mörg horn að líta á fjölmennu og gestgjöfulu heimili.
Margs er að minnast frá róstusömum og ærslafullum æskuárum. Þjóðfélagsmál og pólitík bar oft á góma innan veggja á hinum ýmsu þroskastigum þeirra er þar áttu skjól og „hygge“.
Fljótt blöstu við stórum augum og litlum kollum ýmsar spurningar; m.a. um rétt og rangt og hvers vegna allir hefðu ekki nóg að borða eða nytu réttlætis og jafnréttis. – Lítil hjörtu hafa næma og óspjallaða réttlætiskennd og vilja jafnframt vita um stöðu sína og öryggi í heimi, sem sinnir ekki þeim þörfum sem skyldi.
Sigrún hafði nýlokið við að lesa fyrir mig rammpólitíska ævintýrið um litlu stúlkuna með eldspýturnar.
Lítill snáði sat hnugginn og sorgbitinn og spurði „alviskuna“, stóru systur: Erum við fátæk? Lítill hlýr lófi var lagður á þáverandi ljóshærðan koll: „Nei, Lilli minn, við höfum að minnsta kosti nóg fyrir okkur.“
Árin liðu, enn í dag minnist ég hlýjunnar og öryggisins, sem þessi litli hlýi lófi þrýsti inn í áhyggjufullt hjarta.
Bernskan leið og dó vegna aldurs, eins og eðli hennar er. Önnur þroskastig tóku við og önnur heilabrot, önnur vandamál. Þroskinn jókst með árunum.
Fram á fullorðinsár átti ég því láni að fagna að eiga athvarf og pláss í stóru hjarta systur minnar fyrir vandamál mín og spurningar.
Síðar, er fram liðu stundir, leystum við svo vanda, tap og sigra hvort annars í sameiningu.
Slík manneskja var Sigrún, ekki bara mér heldur þeim, sem henni var annt um og lét sig varða. Fjölmörg eru þau börn, sem nutu elsku hennar og umhyggju á löngum og farsælum leikskólastjórnarferli hennar í Reykjavík. Framtíð þeirra, farsæld og hamingja var henni hugstæð og ræddi gjarnan, nafnlaust.
Húsnæðislaus eitt haustið í skóla hér fyrir sunnan rýmdu hún og Hallgrímur, maður hennar, eitt herbergi íbúðar sinnar og léðu mér heilan vetur. Hjá þeim var gott að búa og munurinn mikill frá leigukjöllurum og heimavistum.
Síðustu ár aldraðrar móður okkar hugsaði Sigrún um hana eins og ungbarn og að leiðarlokum hennar lukti aftur augum hennar af sömu hlýju og nærfærni og henni var tamast.
Sigrún og Halli hennar voru trúaðar og samhentar manneskjur og öllum góð fyrirmynd, en eins og gengur slapp hún ekki við að á henni skyllu áföll, sum ofurþung eins og að missa yngstu dóttur sína í bernsku úr venjulegri botnlangabólu er virtist í fyrstu. Fleira ekki hér um að sinni.
Sigrún átti góð efri ár full hlýju, trúnaðartrausts og bjartsýni, ferðaðist bæði innanlands og utan og ætíð í góðu yfirlæti og umhyggju ástvina sinna.
Góður Guð geymi hana um tíma og í eilífð í náðarfaðmi sínum og blessi afkomendur þessa heims og annars.
Guðmundsson.
Morgunblaðið 22. september 2017.