A A A
  • 1950 - Árni Ásbjörn Jónsson
  • 1962 - Siggeir Stefánsson
17.05.2015 - 07:20 | Morgunblaðið,BIB

Sigla allt að tíu sinnum í kringum landið

Dýrfirðingurinn Ágúst Ágústsson.
Dýrfirðingurinn Ágúst Ágústsson.
« 1 af 3 »

• Von á ríflega 105 þúsund farþegum í sumar • Fyrsta skipið komið

Fyrstu skemmtiferðaskip sumarsins fara að streyma til landsins. Amadea kom fyrst að landi á Akureyri á föstudaginn og siglir síðan til Reykjavíkur þar sem áætluð koma er við Skarfabakka í dag sunnudag 17. maí 2015.

Þetta eru þó ekki fyrstu skip ársins en sem kunnugt er komu fjögur hingað í mars sl. í tengslum við sólmyrkvasiglingar með ferðamenn. Að þeim frátöldum eru 100 skipakomur áætlaðar til Reykjavíkur í sumar og haust, borið saman við 91 heimsókn í fyrra. Þar verða á ferðinni um 105 þúsund farþegar í 56 skipum, sem er aðeins meira en á síðustu vertíð.

Að sögn Dýrfirðingsins Ágústs Ágústssonar, markaðastjóra Faxaflóahafna, er meira um smærri skip en áður, sem sigla jafnvel nokkrar ferðir í kringum landið og hafa skipti á farþegum í Reykjavík, sem flogið er með til og frá landinu. Ágúst segir hafnir á landsbyggðinni njóta þess að smærri skipunum fjölgi, staðir eins og Grundarfjörður, Stykkishólmur, Ísafjörður, Siglufjörður, Akureyri, Grímsey, Djúpivogur og Vestmannaeyjar.

„Um borð í þessum skipum eru öðruvísi farþegar en í þeim stóru, sem sækjast eftir annars konar afþreyingu og upplifun. Þetta er mjög ánægjuleg þróun,“ segir Ágúst, en einnig er þeim skipum að fjölga sem stoppa hér yfir nótt, eða jafnvel tvær nætur.

Stærsta skip sumarsins verður MSC Splendida, sem er um 138 þúsund brúttótonn að stærð og kemur tvisvar til Reykjavíkur; 25. júní og 21. júlí. Af sögufrægum og stórum skipum má nefna Queen Elizabeth, sem kemur 19. júlí, og Disney Magic, sem kemur hingað 25. maí frá Flórída og er í eigu Disney-risans.

Ágúst segir tímabilið einnig vera að lengjast en síðasta skip ársins er áætlað í lok október. Vöxturinn í þessari ferðaþjónustu er mikill en könnun fyrir samtökin Cruise Iceland sýndi að skipin voru á síðasta ári að skapa um 6 milljarða króna, í beinar og óbeinar tekjur. Þá er greinin farin að skapa hátt í 240 heilsárstörf hér á landi.

Ágúst segir þetta ánægjulega þróun, og sér í lagi að Ísland haldi sjó á þessum markaði milli ára, sem annars sé að dragast saman í Evrópu vegna aukinnar eftirspurnar í Asíu. Eru evrópsk skipafélög í meira mæli að fara með skipin til Kína.

 

Morgunblaðið.

« Desember »
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31