A A A
  • 1958 - Helga Sigurrós Bergsdóttir
  • 1976 - Gunnar Ragnar Hjartarson
  • 1993 - Karín Mist Kjerúlf
27.11.2016 - 07:07 | Morgunblaðið,Vestfirska forlagið

Sextíu ár frá silfrinu í Melbourne

Heimkoman - Vilhjálmur Einarsson með foreldrum sínum, Sigríði Vilhjálmsdóttur og Einari Stefánssyni, við heimkomuna frá Melbourne.
Heimkoman - Vilhjálmur Einarsson með foreldrum sínum, Sigríði Vilhjálmsdóttur og Einari Stefánssyni, við heimkomuna frá Melbourne.

• Vilhjálmur Einarsson komst fyrstur Íslendinga á verðlaunapall á Ólympíuleikum 27. nóvember 1956 • Íslandsmetið í þrístökki frá 1960 stendur enn • Hefði dugað til áttunda sætis í Ríó í sumar

Vilhjálmur Einarsson vann fyrstur Íslendinga til verðlauna á Ólympíuleikum árið 1956 þegar leikarnir voru haldnir í Melbourne í Ástralíu. Í dag, , sunnudaginn 27. nóvember 2016, eru nákvæmlega sextíu ár liðin frá þessu sögulega afreki Vilhjálms sem þá fékk silfurverðlaunin í þrístökki á leikunum.

Vilhjálmur, sem þá var 22 ára gamall, setti ólympíumet í öðru stökki sínu þegar hann sveif 16,26 metra. Þar með náði hann forystunni í stökkkeppninni og hélt henni í tvo klukkutíma, eða þar til Adhemar Da Silva, 29 ára gamall Brasilíumaður og heimsmethafi í greininni, sem átti ólympíutitil að verja frá leikunum í Helsinki fjórum árum áður, stökk 16,35 metra í sinni fjórðu tilraun og náði gullverðlaununum og ólympíumetinu af Vilhjálmi.

 

Áfram í fremstu röð

Þetta afrek var að vonum það stærsta á ferli Vilhjálms sem var samt áfram í fremstu röð næstu sex árin. Hann fékk bronsverðlaun á Evrópumótinu 1958, varð fimmti á Ólympíuleikunum í Róm árið 1960 og sjötti á Evrópumótinu 1962.

Vilhjálmur bætti Íslandsmetið í þrístökki árið 1960 þegar hann stökk 16,70 metra og það stendur enn. Enginn Íslendingur hefur komist með tærnar þar sem Vilhjálmur hefur hælana, og ríflega það, því næstbesti árangur Íslendings í þrístökki er 15,29 metrar en Friðrik Þór Óskarsson náði þeim árangri árið 1979. Á þessari öld hefur Jónas Hlynur Hallgrímsson stokkið lengst Íslendinga, 15,27 metra árið 2003.

Svo ótrúlegt sem það kann að virðast, þá hefði Íslandsmet Vilhjálms frá árinu 1960 dugað til að koma honum í úrslit í þrístökkinu á Ólympíuleikunum í Ríó í sumar, 56 árum síðar. Hann hefði orðið tíundi í undankeppninni og komist nokkuð örugglega áfram, og hefði síðan hafnað í 8. sæti í úrslitakeppninni. Þetta segir meira en mörg orð um stöðu Vilhjálms og árangur hans fyrir 55-60 árum.

Vilhjálmur er 82 ára gamall og er búsettur á Egilsstöðum þar sem hann var skólastóri Menntaskólans á Egilsstöðum um árabil. Hann hefur oftast allra verið kjörinn íþróttamaður ársins, eða fimm sinnum á árunum 1956 til 1961.

 

Morgunblaðið

« Janúar »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31