Segja sýnileika auka nýtingu á almenningssamgöngum
Er það álit stjórnar samtakanna að í stað þess að draga úr þjónustunni megi með bættri þjónustu og auknum sýnileika auka nýtingu á ferðum. „Má þar nefna að laga ferðir að þjónustu heilsugæslu/sjúkrahúss s.s. blóðprufum, ungbarnaeftirliti og/eða endurhæfingu, ýmis konar félagsstarfi, þjónustu verslanna og átaksvinnu Vinnumálastofnunar. Eins og er þjóna almenningssamgöngur aðeins því að flytja fólk frá Þingeyri/Flateyri en ekki til þessara staða. Huga þarf að því hvernig haga megi sérleyfi til aksturs í tengslum við vetrarþjónustu. Dagsferðir um helgar og/eða að sumri er eitthvað sem hleypa myndi lífi í þorpin í nágrenni Ísafjarðar og auðga menningarlífið í heild."
Þá segja samtökin að tvær ferðir seinnipart dags séu lágmark þar sem svæðið sé eitt atvinnusvæði og almenningssamgöngur grundvöllur fyrir því að það borgi sig að stunda vinnu í öðrum byggðakjarna. Jafnframt benda samtökin á að hlutfall aldraðra er hátt á Þingeyri og þó nokkuð mál fyrir þann hóp að sækja ýmsa þjónustu til Ísafjarðar. „Það er ólíðandi fyrir eina blóðprufu, erindi á skrifstofur Ísafjarðarbæjar eða til að koma gleraugum í viðgerð þarf viðkomandi að fara frá Þingeyri kl. 7.00 og í raun ekki möguleiki á að komast heim fyrr en með rútu kl. 15.10 frá Ísafirði."
Bæjarráð Ísafjarðarbæjar tók erindi Átaks fyrir á síðasta fundi og lét þar bóka að miðað við þá tímatöflu sem í gildi er fyrir ferðir frá og til Þingeyrar-Flateyrar-Ísafjarðar, að verið sé að uppfylla megin ábendingar Íbúasamtakanna hvað almenningssamgöngur varðar.