“Segirðu pass, Tómas?”
Það var hér á fyrstu starfsárum Bridgeklúbbsins Gosa á Þingeyri, sem mun vera einhver elsti og kunnasti bridgeklúbbur norðan Alpafjalla sem kunnugt er. Þá voru þeir að spila á Nesi innan Þingeyrar hjá Gunnari Jóhannessyni hreppstjóra og Ólafíu Jónasdóttur konu hans, makkerarnir Davíð H. Kristjánsson flugmarskálkur seinna og Tómas Jónsson, skólastjóri á Þingeyri en mótherjar þeirra voru Gunnlaugur Magnússon vörubifreiðarstjóri og Gunnar Þ. Einarsson sjómaður.
Þá gerist það fáheyrða að Davíð fær slík spil á hendi í einni rúbertunni, að hann þurfti til dæmis enga aðstoð makkers síns til að fá alslemm í grandi, en segir eitt hjarta. Mótherjarnir segja auðvitað ekki múkk, en Tómas segir pass.
Rís þá Davíð upp úr sæti sínu til hálfs og segir með sínum kunna áhersluþunga þegar honum er mikið niðri fyrir í spilamennskunni:
“Segirðu pass, Tómas?”
Tómas, sem var með kók í glasi, rétti Davíð glasið til að mýkja hann, svo segjandi:
“Púff, ég er með tóma hunda.”