A A A
  • 1950 - Árni Ásbjörn Jónsson
  • 1962 - Siggeir Stefánsson
12.12.2014 - 07:08 | Morgunblaðið,BIB

Sannar lygasögur og fleiri rit

Hallgrímur Sveinsson.
Hallgrímur Sveinsson.
« 1 af 3 »

• Hallgrímur og Vestfirska draga saman seglin

 

Hallgrímur Sveinsson hefur boðað að Vestfirska forlagið dragi nú saman seglin eftir að hafa gefið út nær 300 bækur um Vestfirði og Vestfirðinga undanfarin 20 ár.

Hjónin Hallgrímur Sveinsson og Guðrún Steinþórsdóttir bjuggu á Hrafnseyri í Arnarfirði frá 1964 til 2005. Þar hélt hann á lofti nafni og sögu Jóns Sigurðssonar forseta og úr varð að hann stofnaði Vestfirska forlagið á afmælisdegi forsetans 17. júní 1994. Um haustið kom síðan út fyrsta bók þess og að sjálfsögðu um einn merkasta mann Íslandssögunnar, bókin Jón Sigurðsson forseti: ævisaga í hnotskurn.

„Það er erfitt að standa í bókaútgáfu á Vestfjörðum og þegar ég byrjaði með þessa einu bók reiknaði ég ekki með að þetta yrði aðalforlagið við ysta haf,“ segir Hallgrímur. „Ég naut aðstoðar félaganna Harðar Kristjánssonar og Rögnvaldar Bjarnasonar í Ísprenti á Ísafirði. Þetta voru höfðingjar sem unnu við prentverk og komu mér á bragðið.“

 

Fjölbreytt útgáfa

Vestfirska forlagið hefur lagt áherslu á að halda frásögnum af mönnum og málefnum vestra til haga. Gamni og alvöru.

Flaggskip útgáfunnar er auðvitað fyrsta bókin, en þegar Hallgrímur lítur yfir farinn veg er hann ánægður með afraksturinn. Hann nefnir sérstaklega ritröðina Frá Bjargtöngum að Djúpi, en 17. bindið kom út á dögunum, Mannlíf og sögu fyrir vestan,alls 22 hefti, og allar vestfirsku ævisögurnar. „Þar halda oft á penna menn sem aldrei hafa gefið út staf eftir sig. Sumir þeirra ritfærir í besta lagi. Vestfirsku gamansögurnar kalla ég vestfirska miðlæga gagnagrunninn. Ég veit ekki um aðra landshluta sem eiga svona mikið safn af sönnum lygasögum um innbyggjarana, en við höfum gefið út um 15 bækur af þessu tagi til að létta mönnum í sinni.“

Nú bætast við tvær nýjar bækur, Vestfirskir sjómenn í blíðu og stríðu og Vestfirskir stjórnmálamenn í blíðu og stríðu. „Þetta er fyrir þá sem hafa gaman af því að brosa, hlæja og reka upp rokur einstaka sinnum. En Jón Sigurðsson hefur alltaf verið númer eitt hjá okkur og við höfum gefið út margar bækur um hann eftir að sú fyrsta kom út.“

Hallgrímur segir að hann hafi lengi lofað konunni að draga saman seglin. „Nú ætla ég að standa við það, en við eigum eftir að gefa út nokkrar Vestfjarðabækur í viðbót,“ segir hann.

 

Morgunblaðið föstudagurinn 12. desember 2014

« Desember »
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31