Samgönguráðherra vill vekja umræðu
Ekki vildi ráðherra þó nafngreina neina viðmælendur sína en sagði sjálfsagt að vekja um þetta umræður og ræða málið og þá sérstaklega á fjórðungsþingi en í samþykktum fjórðungssambandsins er hvergi minnst á göng milli Skutulsfjarðar og Álftafjarðar. Þá vildi Kristján minna á að vissulega hefðu margir sveitarstjórnarmenn hvatt hann til að hvika ekki frá gerðum áætlunum.
Óhætt er að segja aðnokkur hiti hefur hlaupið í þá umræðu sem með þessu hefur nú verið vakin og finnst mörgum sem verið sé að grafa undan þeirri samstöðu sem ríkt hefur um gerð jarðganga á milli Dýrafjarðar og Arnarfjarðar. Um þetta segir ráðherra að svo þurfi ekki að vera, heldur sé nauðsynlegt að sveitarstjórnarmenn á Vestfjörðum sem og aðrir ræði þessi mál í samhengi. Fram hafa komið hugmyndir um að vígja göng milli Dýrafjarðar og Arnarfjarðar á 200 ára ártíð Jóns Sigurðssonar sumarið 2011 og segir Kristján það góða hugmynd.