Saga úr Arnarfirði:
Afi og alnafni Jóns Sigurðssonar: Tveir pottar af brennivíni í mál!
Nú er rétt að segja frá því, að séra Jón Sigurðsson (1740-1821), prestur á Stað á Snæfjallaströnd, sem var bóndasonur frá Ásgarði í Grímsnesi, tók við stað og kirkju á Hrafnseyri vorið 1786.
Séra Jón Bjarnason, sem prestur var næst á undan nafna sínum, lýsir húsakynnum á prestssetrinu nokkru áður svo:
„Staðurinn er mikið forn og flest hús komin undir fall, hús öll í jörðu grafin og veggirnir ekki nema gilding að innan.“ Það er sem sagt köld aðkoman á höfuðbólinu. En skemmst er frá því að segja, að séra Jón Sigurðsson byggði nýjan bæ á staðnum
um 1800 og hefur sá bær nú verið endurbyggður, þó margt sé þar ólíkt innan stokks. Öll önnur hús endurreisti hann í embættistíð sinni með myndarlegum hætti.
Séra Jón var þríkvæntur. Fyrsta eiginkona hans var Ingibjörg, dóttir Ólafs lögsagnara Jónssonar á Eyri í Seyðisfirði og konu
hans, Guðrúnar Árnadóttur. Með henni eignaðist hann dóttur og þrjá syni sem upp komust. Séra Jón var hinn liprasti prestur, en nokkur drykkju-og skapdeildarmaður og fékk af því viðurnefnið Hrafnseyrar-Orri.
Séra Eggert Jónsson, sem prestur var á Álftamýri um skamma hríð, sagði svo frá, að stundum hefði Hrafnseyrar-Orri komið út að Álftamýri um helgar og drukkið þá tvo potta brennivíns á laugardagskvöldi, aðra tvo á sunnudagsmorgni fyrir messu og að afloknu embætti bætt á sig enn tveimur pottum og er ekki ólíklegt að nokkuð sé hér fært í stílinn.
(Vestfirska forlagið: Maður sem lánaðist)