Saga dagsins: - Stjórafærið
Jón Pálsson var fósturfaðir Kristjáns Jakobssonar bónda í Höfn, sem sagt var frá hér um daginn á Þingeyrarvefnum. Jón var eins og fleiri á þeim árum, mikið til sjós. Þeir voru eitt sinn á skútu austur í Húnabugt, lágu þar við stjóra. Svo fóru þeir að draga upp stjórann. Þá var Jón Pálsson sendur niður í lest og honum sagt að hann eigi að hringa niður stjórafærið, eftir því sem hinir draga. Jú, jú. Karlinn tekur það að sér, en kallar upp til þeirra:
"Hvernig á ég að hringa niður færið?"
"Nú, auðvitað með sól", segja þeir sem uppi voru.
Þá segir Jón Pálsson:
"Hvurnig í andskotanum á ég að vita hvernig sólin gengur hér niðri í lest og austur í Bugt?".
(Úr viðtali við Guðmund Sören Magnússon, Mannlíf og saga, 7. hefti)