Sá milljónasti skilaði sér
• Um 1,1 milljón ferðamanna • 105 þúsund með 91 skipi
Milljónasti ferðamaðurinn skilaði sér til landsins og gott betur.
Heildarfjöldi erlendra ferðamanna til Íslands á árinu 2014 nálgast 1,1 milljón, samkvæmt samantekt sem Dýrfirðingurinn Ágúst Ágústsson, markaðsstjóri Faxaflóahafna, tók saman.
Inni í þessari tölu er fjöldi ferðamanna sem komu til landsins með skemmtiferðaskipum til Reykjavíkur og til Seyðisfjarðar með Norrænu. Samtals voru þeir 120.816 talsins árið 2014.
Ferðamálastofnun hafði gefið út að heildarfjöldi ferðamanna til landsins í nóvember árið 2014 væri 915 þúsund. Sú tala nær yfir þá sem komu til landsins í gegnum Leifsstöð frá janúar og út nóvembermánuð 2014. Í samtali við Morgunblaðið fyrr í vikunni sagði Oddný Þóra Óladóttir, rannsóknarstjóri hjá Ferðamálastofu, að hún teldi að sá milljónasti hefði ekki skilað sér á árinu 2014.
„Það var mikil umræða um að sá milljónasti hefði ekki skilað sér. Í þessum fjölda er ekki reiknað með ferðamönnum sem koma til landsins með skemmtiferðaskipum,“ segir Ágúst.
Hann segir að gera megi ráð fyrir að farþegar í desember um Leifsstöð hafi verið u.þ.b. 60.000 sem þýðir að samtals eru erlendir gestir með flugvélum og skipum til Íslands á seinastliðnu ári 1.095.816 og verður þá að reikna með viðeigandi skekkjumörkum.
Þess ber einnig að geta að inn í þessar tölur vantar umferð um Reykjavíkurflugvöll, Egilsstaði og Akureyri og einnig tölur um komur farþega um hafnir í Hafnarfirði og Keflavík.
Ferðamönnum með skemmtiferðaskipum til Reykjavíkur fjölgar. Árið 2013 voru þeir 92.412 talsins og komu með 80 skipum. Árið 2014 voru þeir 104.816 og komu með 91 skipi.
Morgunblaðið fimmtudagurinn 8. janúar 2015.