A A A
  • 1950 - Árni Ásbjörn Jónsson
  • 1962 - Siggeir Stefánsson
17.03.2017 - 21:55 | bb.is,Björn Ingi Bjarnason,Vestfirska forlagið

SAMNINGUR UM -BLÁBANKA- Á ÞINGEYRI SAMÞYKKTUR

Blábankinn á Þingeyri.
Blábankinn á Þingeyri.

Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar samþykkti á fundi sínum síðast liðinn fimmtudag, samning um uppbyggingu samfélagsmiðstöðvarinnar Blábanka á Þingeyri. Undanfarna mánuði hefur verið unnið að stofnun samfélagsmiðstöðvar á Þingeyri, með það að markmiði að veita og laða að þjónustu sem nýtast mun nærsamfélaginu og gestum þess.

Í fréttatilkynningu frá Ísafjarðarbæ kemur fram að þjónusta á Þingeyri hafi minnkað undanfarin ár. Í kjölfar þess að Pósturinn og Landsbankinn drógu úr sinni þjónustu á Þingeyri árið 2015 hafði Nýsköpunarmiðstöð samband við Ísafjarðarbæ og lagði til að þróaður yrði þjónustukjarni eða samfélagsmiðstöð á Þingeyri sem gæti verið fyrirmynd samskonar kjarna í öðrum þorpum á landsbyggðinni. Um er að ræða tilraunaverkefni sem getur orðið brautryðjandi verkefni í byggðamálum á Íslandi.

Kynningarfundir verða haldnir á næstu vikum.

 

Fréttatilkynning Ísafjarðarbæjar:

Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar samþykkti á fundi sínum í gær, 16. mars 2017, samning um uppbyggingu samfélagsmiðstöðvarinnar Blábanka á Þingeyri, sem er byltingarkennt þróunarverkefni í byggðamálum á Íslandi. Undanfarna mánuði hefur verið unnið að stofnun samfélagsmiðstöðvar á Þingeyri, með það að markmiði að veita og laða að þjónustu sem nýtast mun nærsamfélaginu og gestum þess. Nafn verkefnisins, Blábanki, er dregið af lit Landsbankahússins í miðbæ Þingeyrar, en er jafnframt tilvísun í bláa hagkerfið.

Þjónusta á Þingeyri hefur minnkað undanfarin ár. Í kjölfar þess að Pósturinn og Landsbankinn drógu úr sinni þjónustu á Þingeyri árið 2015 hafði Nýsköpunarmiðstöð samband við Ísafjarðarbæ og lagði til að þróaður yrði þjónustukjarni eða samfélagsmiðstöð á Þingeyri sem gæti verið fyrirmynd samskonar kjarna í öðrum þorpum á landsbyggðinni. Um er að ræða tilraunaverkefni sem getur orðið brautryðjandi verkefni í byggðamálum á Íslandi.

Leitast verður við að þróa þjónustuna í Blábankanum í samvinnu einkaaðila, opinberra aðila og íbúa á Þingeyri, þannig að þarfir Íslendinga nútímans fyrir þjónustu verði hægt að uppfylla á Þingeyri.  Ísafjarðarbær mun m.a. leggja áherslu á að gera opinbera þjónustu aðgengilegri, samskipti milli íbúa og opinberra stofnana skilvirkari, sem og að skapa grundvöll að félags- og efnahagslegri nýsköpun. Vinnan er nú vel á veg komin.

Árið 2020 verður Þingeyri við Dýrafjörð orðinn miðpunktur Vestfjarða, m.t.t. samgangna, þegar Dýrafjarðargöng verða opnuð. Aðstandendur verkefnisins telja nauðsynlegt að nota tækifærið og gera þorpið að þjónustumiðstöð þar sem ýmis atvinnustarfsemi, ferðamannaiðnaður, menning og mannlíf geta stutt hvað annað og að laða að þjónustu sem nýst getur nærsamfélagi og gestum.

Aðstandendur verkefnisins eru Nýsköpunarmiðstöð Íslands, Ísafjarðarbær, innanríkisráðuneytið, Landsbankinn, Simbahöllin og Vestinvest. Verkefnið var hluti af Vestfjarðaskýrslunni og var ákveðið að veita verkefninu stofnframlag og rekstrarframlag næstu þrjú árin frá ráðuneytinu. Stofnuð verður sjálfseignarstofnun utan um verkefnið og verður auglýst eftir stofnfélögum frá 13. apríl til 1. september nk. Blábankaverkefnið verður ekki rekið út frá hagnaðarsjónarmiði, heldur verður eingöngu leitast við að ná inn tekjum fyrir kostnaði.

Starfsemi Blábankans verður margvísleg, en verkefnið er unnið í samræmi við niðurstöður úr samtölum við íbúa, um þá þætti sem þeim þykja mikilvægir fyrir Þingeyri. Má þar helst nefna póst- og bankaþjónustu, námskeið, fræðslufundi og dægradvöl fyrir börn að loknum skóladegi. Í Blábankanum verður nútíma útgáfa af bókasafni, með hefðbundnu bókaláni, en einnig aðstaða og aðstoð í tölvum. Í Blábankanum verður opið og sveigjanlegt vinnurými, þar sem hægt er að leigja vinnuaðstöðu til lengri eða skemmri tíma. Leitast verður við að hafa aðstöðuna hlýlega með góðri nettengingu, kaffiaðstöðu, nútímalegri fundaraðstöðu með fjarfundarbúnaði, auk stakra vinnustöðva. Blábankanum er ekki ætlað að hýsa veitingastaði, gistirými eða matvöruverslun. Sköpunarþorpið Þingeyri er einnig framtíðarsýn sem aðstandendur verkefnisins vilja innleiða, m.a. með því að setja upp sjálfstætt FabLab í Blábanka með stuðningi Nýsköpunarmiðstöðvar og samstarfi við Vélsmiðjuna á Þingeyri. Vonast er til að starfsemi Blábankans muni gefa fólki tækifæri til að hittast, læra hvert af öðru og stofna til samstarfs, t.d. listamannabúða og skapandi námskeiða.

 Auglýst verður eftir starfsmönnum í tvö 50% stöðugildi, annars vegar starf forstöðumanns, sem hefur umsjón með starfsemi, rekstri og markaðsstarfi miðstöðvarinnar, og hins vegar í starf staðgengils forstöðumanns, sem hefur umsjón með vinnurými, sinnir almennri afgreiðslu og þjónustu.

Kynningarfundir verða haldnir á næstu vikum, m.a. fimmtudaginn 13. apríl kl. 18:00 á Þingeyri.

« Desember »
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31