Rífandi gangur í Koltru á Þingeyri
Handverkshópurinn Koltra á Þingeyri og Upplýsingamiðstöð ferðamanna eru nú til húsa í Salthúsinu á Þingeyri. Þar hefur verið mikil aðsókn það sem af er sumri. Rífandi gangur eins og maður segir.
Hægt er að kaupa alls konar handverk í Koltru sem dætur Dýrafjarðar hafa prjónað og saumað af smekkvísi sinni. Þar kennir margra grasa. Sumt bara ofboðslega fallegt, eins og sagt er. Og fjölbreytnin er mikil hjá þeim dýrfirsku. Nokkuð jöfn sala er í öllu prjónlesi. Margir, einkum útlendingar, kaupa sér ullarpeysur af ýmsu tagi, bæði venjulegar og hnepptar. Sumir kaupa sér húfur og sokka. Og allir kaupa sér vettlinga.
Svona má lengi telja.
Salthúsið er bjálkabyggt pakkhús 12x7,5 metrar að stærð. Það var reist 1778 af konungsversluninni síðari. Það er því eitt allra elsta hús á Íslandi og hefur nýlega verið endurgert. Svo segir í Kjartansbók.
Hallgrímur Sveinsson.