A A A
  • 1958 - Helga Sigurrós Bergsdóttir
  • 1976 - Gunnar Ragnar Hjartarson
  • 1993 - Karín Mist Kjerúlf
12.11.2015 - 16:22 | BIB,bb.is

Riddarinn á heiðinni

Gunar Sigurðsson. Ljósm.: bb.is
Gunar Sigurðsson. Ljósm.: bb.is
« 1 af 2 »

Tíðindakona Bæjarins besta brá sér suður yfir Gemlufallsheiði í leit að fórnarlambi í opnuviðtal. Bráðin var að þessu sinni Gunnar nokkur Sigurðsson vélakall á Þingeyri og tók hann góðfúslega á móti tíðindakonunni, svona rétt á milli karlakórsæfinga. Gunnar býr í ljómandi fallegu og rúmgóðu raðhúsi á Þingeyri, „á besta stað” segir hann „hjúkrunarheimilið, kirkjan og kirkjugarðurinn í túnfætinum svo það er aldrei langt að fara”. Á hlaðinu standa voldugir bílar og greinilegt að húsráðandi á þessum bæ ferðast ekki um á slyddujeppum eða smábílum. Það er heimilislegt innandyra og veggirnir þaktir fjölskyldu- og barnamyndum, grunur leikur á að pilturinn sé ekki einn í heiminum. Það kom líka á daginn, þegar Gunnar fæddist foreldrum sínum, þeim Sigurði Friðfinnssyni og Björnfríði Magnúsdóttur í maí 1950 voru þegar fædd þau Þórður (1946), Líni (1947) og Guðfinna (1949). Sigurður og Björnfríður létu ekki staðar numið við þetta fjórða barn heldur héldu ótrauð áfram við að fjölga Dýrfirðingum og þegar yfir lauk voru komin 17 börn og í þetta verkefni tóku þau 23 ár, rétt að geta þess að aldrei var svindlað og tveimur skotið í hana veröld í einu. 

Björnfríður á ættir að rekja í Dali, fæddist í Stóra-Galtardal á Fellsströnd í desember 1926 en örsmá fluttist hún með foreldrum sínum að Hvammi í Dýrafirði en stöldruðu þar stutt við því ári seinna fóru þau að Ketilseyri þar sem hún bjó alla tíð eftir það, fyrir utan 2 ár á Þingeyri 1943-1945. Sigurður fæddist á Kjaranstöðum í Dýrafirði 1916 og bjó alla sína tíð í firðinum fagra, hann útskrifaðist sem búfræðingur frá Bændaskólanum á Hólum árið 1942 og hóf svo búskap með Björnfríði konu sinni á Ketilseyri árið 1945. „Það var reyndar hann Þórður, bróðir hans pabba, sem keypti Ketilseyri og ætlaði að búa þar. Pabbi tók við búinu tímabundið meðan Þórður var í öðrum störfum en svo fórst Þórður og úr varð að pabbi og mútta tóku við” 

Það hefur verið eitthvað í að líta á stóru heimili hjá hjónunum á Ketilseyri og allir þurftu að leggja sitt af mörkum. Þar var hefðbundinn sauðfjárbúskapur og kýr „svona til heimanota” segir Gunnar. Aldrei skortur á neinum nauðsynjum, aldrei neinn svangur og öllum var hlýtt, „við vorum alin upp í kærleika” segir hann, „og ég held við höfum verið hamingjusamir krakkar”. Húsakynnin á Ketilseyri voru alveg þokkaleg og ekki vandamál þó það væru svona 5 – 6 í hverju herbergi, það voru aldrei allir heima því þessi elstu voru farin að heima þegar yngstu fæddust. „jú, ég held við höfum verið heilsuhraust öll, man þó að við fengum mislinga” Í minningu Gunnars var samkomulag systkinanna gott þó auðvitað hafi stundum slest upp á vinskapinn og þau reyna að hittast reglulega á fullorðinsárum, helst að minnsta kosti annað hvert ár. En hópurinn er stór og dreifður, Guðfinna elsta systirin lést í vor en að öðru leyti eru þau hraust. 

„Ég man ekki eftir miklum gestagangi, ég held að foreldrar mínir hafi verið frekar félagslyndir en auðvitað var mikið að gera á stóru heimili. Mútta var kirkjukórnum og svo var hún mjög hög, hún prjónaði og saumaði og söng svo vel fallega að það jafnvel stóð til að senda hana í söngnám”. En ef taka má mark á minningagrein sem rituð var um Sigurð, föður Gunnars, var mikill gestagangur og í eldhúsinu oft fjörugar umræður um landsins gagn og nauðsynjar. Sigurður var mikill áhugamaður um atvinnumál og bar hag fjarðarins mjög fyrir brjósti, hann var félagsmaður í Búnaðarfélagi Þingeyrarhrepps í 63 ár. 

¬„Við lékum okkur mikið útivið, í vegavinnuleikjum og að sigla á tjörnum. Ég átti ekki skauta eða skíði en við systkinin tókum samt þátt í árlegum skíðagöngum, fengum bara lánuð skíði. Og þó ég mætti alltaf á Héraðsmótin þá man ég ekki eftir að hafa tekið þátt. Það voru mörg börn í firðinum en mest lékjum við okkur við krakkana frá Kjaransstöðu, þar bjó bróðir pabba. Við vorum ekkert mikið að fara á Þingeyri, fórum á jólaböllin en annars man ég ekki eftir að hafa farið á Þingeyri fyrr en ég var orðinn 10 ára gamall” 

Systkinin á Ketilseyri þurftu ekki að keyra langar leiðir til að sækja skóla því farskóli var í sveitinni og kom kennarinn að Ketilseyri og dvaldi þar í nokkrar vikur yfir veturinn og var kennslan ætluð fyrir börn 10 – 14 ára. Þar með er upptalin skólaganga Gunnars fyrir utan einn vetur sem hann var í Reykjanesi. Þau voru þrjú systkinin á sama tíma í Reykjanesi og hefur Gunnar ágætar minningar þaðan, þó rámar hann í einhver hrekkjusvín. Heldur voru þau systkin hvött en lött til að sækja sér meiri menntun, sem þau og gerðu nokkur, sérstaklega strákarnir en í hópnum eru trésmiðir, vélstjórar, búfræðingar og rafvirki. 

Ekki þurfti að jaga barnahópnum í sprautur eða árlegt eftirlit því læknirinn kom að Ketilseyri og sprautaði barnahópinn. Krakkarnir á Kjaransstöðum komu yfir á Ketilseyri til að fá sprautu. 

„Við áttum ekki bíl fyrir við fengum vörubíl árið 1964 eða 1965, við fórum bara á milli á traktor eða fengum far með einhverjum í sveitinni. Það þurfti stundum að fara í búð á Þingeyri sem fyrir mig var eins og fara í stórborg. Á Þingeyri var fullt af verslunum, þarna var Kaupfélagið, Sigmundarbúð, Natanelsbúð, Verslunarfélagið og svo þessi fína bókabúð. Það var reyndar mjög oft ófært inn á Þingeyri. Og, jú, ég man þegar mamma tók slátur, ókalonaðar vambir og það átti eftir að svíða hausana og lappirnar. Pabbi fylgdist vel með og við vorum frekar tæknivædd, rafmótor í smiðjunni á Kjaransstöðum svo við gátum sviðið hausana. Við vorum með þeim fyrstu til að fá traktor í firðinum og vélvæðast í heyskap. Þeir unnu þetta saman bræðurnir á Ketilseyri og Kjaransstöðum.” 

En hvernig var vélvæðingin innandyra? 

„Tja, við fengum ekki ísskáp fyrr en um 1960 en þvottavél finnst mér hafi alltaf verið til. Sjónvarpið fengum við sennilega 1968 en útsendingin hér í Dýrafirði var lengi mjög léleg” 

Pilturinn Gunnar var fljótt sjálfbjarga og 1968 reif hann upp úr rassvasanum 168.864 krónur og fékk í staðinn glænýjan bláan Moskvitch, beint úr kassanum. Númerið Í 1219 er greypt í minnið og stoltið örugglega líka. Reyndar voru þau systkinin flest komin á sína eigin bíla mjög snemma enda þurft að sækja vinnu um leið og þau höfðu aldur til. Svo var hægt að skella sér á sveitaball, hvort sem það var haldið á Birkimel, Barðaströnd eða Bolungarvík. Ferðin til Reykjavíkur til að sækja gripinn var hans fyrsta ferð til höfuðborgarinnar og sjaldan hefur hann staldrað þar lengi við. „Ég þurfti að fara þangað á þungavinnuvélanámskeið og var þá í nokkrar nætur, annars er ég ekki mikið í Reykjavík. Og aldrei kom til tals að fara til útlanda meðan ég var að alast upp, við fórum ekki einu til tannlæknis. En eftir að ég var fullorðin hef ég talsvert ferðast og hef gaman að því. Mig langar næst að fara í „Hurtigruten” í Noregi og svo hef ég aldrei farið til Danmerkur. Síðast fór ég með karlakórnum til Ítalíu og var það mjög vel heppnuð ferð” 

Gunnar fór ungur að vinna og 1964 gróf hann þurrkskurði í Botni í Dýrafirði með Þórði bróðir sínum við afar erfiðar aðstæður. Sigurður var framsýnn athafnamaður og hafði fest kaup á gröfu sem hægt var að nota við svona verkefni. Þeir bræður lágu í tjaldi það sumarið og þurftu að bera alla olíu á vélina í brúsum. Ári seinna tók Gunnar við vélunum og hefur sinnt þeim síðan. Árið 1972 stofnaði hann Brautina ásamt föður sínum og Magnúsi bróðir sínum. Brautin er enn í fullum rekstri og þeir saman Gunnar og Magnús í rekstrinum. „Við eigum fullt af vélum, en samt of fáar! Við eigum tvær gröfur, hjólaskóflu og traktor. Þetta er svona upp og niður, stundum er lítið að gera, stundum mikið. Stundum vantar okkur aukamann en ég nenni ekki alltaf að bjóða í öll verk, vill fara aðeins að minnka vinnuna. Við erum með ágæta aðstöðu til viðgerða en svona seinni ár erum við búnir að vera með nýrri vélar, þá er þetta ekki alltaf að bila”. Gunnar færir bókhaldið sjálfur fyrir fyrirtækið og telur að það sé nauðsynlegt til að hafa yfirsýn yfir reksturinn. 

Gunnar hefur frá 1973 séð um mokstur á einum hættulegasta fjallvegi landsins, Hrafnseyrarheiðina og hefur marga fjöruna sopið ef svo má að orði komast. „Nei, ég er svo sem ekki hræddur en stundum er mér ekki sama. Ég hef tvisvar farið niður með snjóflóði, það var óþægilegt en í bæði skiptin gat ég keyrt útúr flóðinu og aftur upp á veg. En ég grét þegar ég kom á Flateyri eftir flóðið 1995. Það var mjög af bæjarbúum dregið fannst mér, það voru búnir að vera erfiðir vetur á undan og veturinn 1994-1995 var svo snjóþungur að ég fann að það var komin þreyta í fólk. Eftir flóðið í Súðavík tók það mig 2 daga að moka mig inn á Flateyri, svo mikið var fannfergið. Það höfðu fallið mörg snjóflóð á Hvilftarströndina og á milli Hvilftar og Sólbakka var að minnsta kosti 3ja metra hátt flóð”. 

Nú ertu búinn að vera á tækjunum í 50 ár, hefur þér aldrei dottið í hug að breyta til? 

„Nei, ég held bara ekki, vélavinnan er fjölbreytt og maður er alltaf að læra eitthvað nýtt. Þetta er gaman í góðu veðri, ég er komin á góðar vélar og dagarnir eru mjög fjölbreyttir. 

Þrátt fyrir að hafa alltaf búið einn, það er að segja eftir að Björnfríður móðir Gunnars lést árið 2006 er Gunnar félagslyndur maður og kannast ekki við að vera einmana. „Ég fer bara eitthvað í heimsókn ef mér leiðist” Gunnar hefur erft sönghæfileikana frá móður sinni og hefur um árabil sungið í kórum. Fyrst í kirkjukórnum, síðan karlakór Þingeyrar meðan hann var og hét og núna er hann annar bassi í karlakórnum Erni. „Við erum reyndar öll systkinin músíkölsk, meira að segja kötturinn”. Á gólfinu í stofunni stendur forláta harmonikka og viðurkennir Gunnar með semingi að hann spili eitthvað á hana, hann er stofnfélagi í harmonikkufélaginu en er sjálfmenntaður í spileríinu. „Það er svo erfitt að mæta á námskeið, allt í einu fer að snjóa og ég þarf að rjúka út að vinna” Og svona alveg okkar í milli og fer ekki lengra þá eru í skúffum einhver lög sem einhverjir eiga vonandi eftir að heyra. 

Gunnari eru samgöngumál hugleikin og hann hefur áhyggjur af andvaraleysi fólks og finnst að samgöngur hafi versnað með árunum. Um leið og vegir urðu betri hættu skipaferðir, flugvöllum fækkaði og nú er svo komið að landleiðin er sú eina sem er fær. „Ef hér koma snjóþungir vetur, eins gerði svo oft hér í eina tíð, þá er fólki allar bjargir bannaðar. Hér geta auðveldlega allir vegir lokast í marga daga og hvað gerist þá. Eru fjölskyldur viðbúnar því að komast ekki verslun í marga daga. Sem betur fer er varaafl á Þingeyri, en samt sem áður má alltaf búast við rafmagn getir farið í nokkra klukkutíma, jafnvel daga.” Gunnar er við öllu búinn og er með gashellu við höndina ef á þarf að halda 

Og nú þarf Gunnar að rjúka, framundan er æfing hjá karlakórnum fyrir styrktartónleika Katrínar Bjarkar sem halda á í Ísafjarðarkirkju sunnudaginn 8. nóvember. 

 

BB fimmtudaginn 12. nóvember 2015

« Janúar »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31