Reynslan er oft á við margra ára háskólanám!
Það á að greiða laun eftir menntun segja sérfræðingarnir.
Fyrri grein.
Menntun er bráðnauðsynleg. Stórkostlegt er hvað margir hafa getað gengið hinn svokallaða menntaveg og orðið þjóðinni til heilla. Þó er það alltof algengt að þeir sem gengið hafa þennan veg eru ekki með á nótunum hvernig þjóðfélagsapparatið virkar. Stundum heyrist að þeir viti ekkert, kunni ekkert og geti ekkert. Því miður er nokkuð til í þessari alhæfingu. Það vantar reynsluna sem oft er á við margra ára háskólanám.
En hvað er menntun? Sá sem hefur gengið í skóla, kannski 20-30 ár, telst menntamaður. En getur maður ekki öðlast menntun án þess að ganga í hefðbundna skóla? Fiskvinnslukonan, sem unnið hefur í frystihúsi í 20 – 30 ár, er menntuð kona að okkar mati. Starf hennar er mjög sérhæft og erfitt. Hún er sérfræðingur í fiskvinnslu. Auk þess vinnur hún við að skapa beinharðan gjaldeyri. Sama má segja um verkamanninn í frystihúsinu sem búinn er að vinna þar sérhæfð störf í 20-30 ár. Hann er sérfræðingur í fiskvinnslu. Og sjómaðurinn. Er hann ekki sérfræðingur í sjósókn og fiskveiðum og gjaldeyrisskapandi vinnu þó hann hafi kannski aldrei gengið í háskóla?
Og það sem meira er: Þessar stéttir hafa lagt á borð með sér gífurlegar upphæðir til að samborgarar þeirra geti gengið í skóla og fengið námslán. En sumt af því liði hefur aldrei dýft hendi í kalt vatn og skilur ekki hvar peningarnir verða til. Halda jafnvel að verðmætin verði til í bönkunum!
Það hefði maður nú haldið.
Hallgrímur Sveinsson