Reru frá Noregi til Orkneyja, Færeyja og Íslands
Eyþór Eðvarðsson, stjórnendaþjálfari og ráðgjafi – 50 ára.
Eyþór Eðvarðsson fæddist á Suðureyri við Súgandafjörð 11. september 1967 og ólst þar upp. Hann byrjaði ungur í fiskvinnslu, stundaði sjómennsku og almenn verkamannastörf.
Eyþór gekk í grunnskólann á Suðureyri, sótti 9. bekkinn á Núp í Dýrafirði, fór í Fjölbrautaskólann á Sauðárkróki en útskrifaðist frá Fjölbraut í Breiðholti 1988. Hann lauk BA-prófi í sálfræði frá HÍ 1993 og MA-prófi í vinnusálfræði frá Vrije Universiteit í Amsterdam árið 1996.
Eyþór var búsettur í Hollandi á árunum 1993-99, starfaði hjá De Baak, stjórnunarskóla hollenska vinnuveitendasambandsins, 1996-99 og var ritstjóri tímaritanna Baakberichten og Managementwijzers.
Eftir að Eyþór var kominn heim stofnuðu hann og eiginkona hans, Ingrid Kuhlman, fyrirtækið Þekkingarmiðlun árið 2002 og hafa þau starfrækt það síðan.
Eyþór sat í stjórn og var formaður Súgfirðingafélagsins 2011-2015 og er formaður Fornminjafélags Súgandafjarðar frá stofnun 2014, en félagið byggði sjóbúð að þúsund ára gamalli fyrirmynd í sumar. Þá er hann einn af stofnendum París 1,5 baráttuhóps um aðgerðir í loftslagsmálum.
Eyþór hefur miklar áhyggjur af loftslagsbreytingum af manna völdum og umhverfismálum almennt. Hann er mikill áhugamaður um Íslandssögu, sögu Noregs, Hjaltlandseyja og Orkneyja, þjóðhætti og þjóðtrú í þessum löndum og tengsl þeirra við Ísland. Hann hefur unnið að verndun strandminja og er afskaplega veikur fyrir örnefnum og leyndarmálum þeirra: „Ég er með heiftarlega örnefnadellu og hef haft hana lengi. Örnefni eru merkimiðar á kennimörk manna í náttúrunni og skiptu mjög miklu máli hér áður fyrr. Ég get velt því fyrir mér endalaust hvernig örnefni urðu til og hvaða merking liggur að baki þeim. Dæmi um örnefni sem ég hef hugsað mikið um er fjallið Öskubakur í Súgandafirði, sem er líklega sænskt og merkir eyja og sker.
Eyþór vann það þrekvirki, ásamt þremur félögum sínum, að róa frá Noregi til Orkneyja og þaðan til Færeyja, en næsta sumar luku félagar hans ferðinni með því að róa frá Færeyjum til Íslands:
„Þetta hafði nokkrum sinnum verið reynt en aldrei heppnast fyrr, eftir því sem best er vitað. Báturinn var með lokað rými í skut þar sem tveir gátu sofið í einu, og smá lokuðu rými í stafni. Við lögðum af stað frá Stafangri í Noregi á þjóðhátíðardegi Norðmanna, 17. maí, á svokölluðum opnum úthafsróðrabáti og lukum fyrri áfanganum í Færeyjum í ágústmánuði.
Ekkert skip fylgdi okkur en við vorum með vandaðan björgunarbúnað og staðsetningartæki og vorum stöðugt í góðu fjarskiptasambandi, auk þess sem veðurfræðingur var hafður með í ráðum. Ferðin vakti ekki mikla athygli hér á landi en þeim mun meiri athygli í Noregi og á Hjaltlandseyjum. Hún var tvö ár í undirbúningi, var kostnaðarsöm og krafðist geysilegrar líkamlegrar áreynslu í langan tíma. En hún var eftirminnileg og það er virkilega gaman að hafa tekið þátt í þessu ævintýri.“
Fjölskylda
Eiginkona Eyþórs er Ingrid Kuhlman, f. 3.5. 1968, framkvæmdastjóri Þekkingarmiðlunar. Foreldrar hennar: Els Kuhlman, f. 7.8. 1944, verslunarmaður í Hollandi, og Anton Kuhlman, f. 4.1. 1938, d. 11.4. 2002, Els er í sambúð með Kees Smit prentara.
Börn Eyþórs og Ingrid eru Gunnar Eyþórsson, f. 15.10. 1992, bifvélavirki, en unnusta hans er Bergrós Ýr Ólafsdóttir, og Íris Aníta Eyþórsdóttir, f. 31.7. 1994, nemi í sálfræði við HÍ, en unnusti hennar er Alex W. Cregten.
Systkini Eyþórs eru Erla Eðvarðsdóttir, 15.4. 1963, skrifstofumaður, búsett í Hafnarfirði; Sturla Gunnar Eðvarðsson, f. 16.10. 1964, framkvæmdastjóri, búsettur í Kópavogi; Sigrún Edda Eðvarðsdóttir, f. 20.7. 1971, verkefnastjóri, búsett á Álftanesi; Elsa Eðvarðsdóttir, f. 5.7. 1978, framkvæmdastjóri, búsett í Garðabæ, og Karl Einarsson, f. 21.2. 1963, sölumaður, búsettur í Reykjavík.
Foreldrar Eyþórs eru hjónin Eðvarð Sturluson, f. 23.3. 1937, bifreiðastjóri, og Arnbjörg Bjarnadóttir, f. 4.10. 1943, húsfreyja. Þau eru búsett í Hafnarfirði.
Morgunblaðið.