Reistu sjóbúð í Súgandafirði
Fornminjafélag Súgandafjarðar hefur reist sjóbúð í Keravík í Súgandafirði undir leiðsögn hleðslumannsins Valdimars Össurarsonar úr Kollsvík og Guðmundar Stefáns Sigurðarsonar frá Minjastofnun.
Sjóbúðin hefur fengið nafnið Ársól og er byggð á rústum réttaskálans sem stóð forðum í Keravík og Kvenfélagið Ársól reisti og seldi kaffi í, samkvæmt tilkynningu.
Sjóbúðin er byggð í anda þeirra sem voru á þessum stað fyrr á öldum og hefur minjavörður Vestfjarða, Einar Ísaksson, lagt blessun sína yfir verkið. Hann gerði sér ferð í Súgandafjörðinn að eigin frumkvæði og ræddi við landeiganda og tók út svæðið með fulltrúa Fornminjafélags Súgandafjarðar.
Sjóbúðarveggirnir eru nú komnir upp og í næsta áfanga verður smíðuð grind og þakið tyrft.