A A A
  • 1920 - Jón Þ Sigurðsson
  • 1940 - Edda Arnholtz
  • 1992 - Ólöf Guðbjörg Jónasdóttir
  • 2006 - Jóhann Króknes Torfason
  • 2006 - Sigríður Króknes Torfadóttir
22.05.2015 - 20:43 | Morgunblaðið,BIB

Perlur úr fjörunni

Systur.  Kristín Þórunn Helgadóttir vinnur skartgripi úr klóþangi og Matthildur Jónu- og Helgadóttir er rekstrar- og viðburðarstjóri í Edinborgarhúsinu á Ísafirði. Báðar þjónusta þær ferðamenn sem koma vestur á firði, þó með ólíku hætti sé. Ljósm.: Mbl.
Systur. Kristín Þórunn Helgadóttir vinnur skartgripi úr klóþangi og Matthildur Jónu- og Helgadóttir er rekstrar- og viðburðarstjóri í Edinborgarhúsinu á Ísafirði. Báðar þjónusta þær ferðamenn sem koma vestur á firði, þó með ólíku hætti sé. Ljósm.: Mbl.
Hafi fólk hugmyndaflug og handlagni er hægt að búa til fallega gripi úr því sem aðrir sjá ekki nema sem hluta af náttúrunni.

Kristín Þórunn Helgadóttir hefur búið á Þingeyri í þrjátíu ár, hún vinnur í banka hálfan daginn en notar flestallar frístundir til þess að vinna skartgripi úr klóþangi sem hún þurrkar og slípar. Hún hefur hlotið verðlaun fyrir hugkvæmni sína og listilega gerða skartgripi, auk þess sem hún heggur út hluti úr rekaviði.

 

»Ég kom fyrst fram með þessa framleiðslu mína, Fjöruperlur, á handverkssýningu í Ráðhúsi Reykjavíkur árið 2010. Fjöruperlurnar eru þurrkaðar þarabólur, eru mjög léttar og því þægilegt að bera þær sem skartgripi. Ég nota flotholtin í þaranum, þetta eru loftbólurnar sem ég hirði, þurrka og bora í gegnum þær til þess að geta búið til úr þeim skartgripi,« segir Kristín Þórunn Helgadóttir og sýnir fallegt armband, þurrkaðar þarabólur, vandlega slípaðar og þræddar upp á mjóa, glæra teygju.

 

»Ég þurrka þarabólurnar hægt og pússa þær svo, það er mikið verk. Ég held á hverri kúlu, pússa hana og bora svo í gegnum hana í næstu umferð, þetta er mikið handverk og þó nokkuð erfitt stundum. Engar tvær kúlur eru eins og ég þarf að velja þær saman sem líkastar eru. Þær sem ég tek ferskar verða ljósgrænar eða gulleitar þegar ég hef þurrkað þær. En þarabólur sem hafa fengið að þorna úti í náttúrunni verða svartar. Þær þarf að pússa ennþá meira en hinar.«

 

Verðlaunahugmynd

 

Hvernig datt þér þetta í hug?

 

»Ég er oft á ferli í fjörunni, ég hegg út í rekavið og sæki mér efni í fjöruna. Mér fannst þarinn fallegur og var gjarnan með hann milli handanna. Mig langaði svo að gera mér eitthvað úr þessum efnivið. Ég byrjaði á að taka eina þarabólu, þurrka hana og þræddi hana upp á festi. Svo sá Georg Hollanders mig með þessa festi um hálsinn og sagði mér að þetta væri verðlaunahugmynd. Það reyndist rétt hjá honum. Enginn hefði gert þetta áður svo vitað væri. Ég hef fengið frumkvöðlaverðlaun Ísafjarðarbæjar fyrir þetta starf mitt og á Hrafnagili í fyrr fékk ég viðurkenningu sem handverksmaður ársins. Það var mjög gott ár hjá mér í fyrra,« segir Kristín og hlær.

 

Hvað gerir þú úr rekaviðnum?

 

»Ég hegg út stóra skúlptúra. En ég hef lítinn tíma haft upp á síðkastið til þeirrar iðju, skartgripirnir úr þurrkuðu þarabólunum hafa orðið svo vinsælir að ég má hafa mig alla við að sinna eftirspurn eftir þeim. Ég fer víða til að finna mér heppilegar þarabólur til að vinna úr. Þær mega ekki vera of litlar, þá er erfiðara að slípa þær og bora. Ég þarf því að vera »á veiðum« til að finna heppilegan efnivið.«

 

Selur armbönd, hálsfestar og eyrnalokka

 

Kaupa ferðamenn þessa framleiðslu þína?

 

»Já, þeir gera það. Fyrir ekki svo löngu komu til dæmis tvær japanskar konur og keyptu heilmikið af skartgripum úr fjöruperlum. En þær vildu bara svartar.

 

Ég sel framleiðslu mína í Kraumi í Aðalstræti í Reykjavík, í handverkshúsinu á Þingeyri og á Ísafirði og á netinu. Ég sel armbönd, hálsfestar og eyrnalokka. Hálsfestarnar eru ýmist með einni kúlu eða fleirum, þræddum upp á leðurreim. Skartgripir mínir úr þarabólum eru mjög vinsælir til gjafa, fólk sendir þetta út um allan heim. Þetta er svo létt og rammíslenskt. En það eru ekki bara ferðamenn sem hafa áhuga á þessari framleiðslu minni. Margar íslenskar konur kaupa af mér skartgripi sem þær bera sjálfar.«

 

Ertu að velta fyrir þér að hætta alveg í bankanum?

 

»Ég gæti það hugsanlega, en mér finnst fínt að hafa þetta eins og það er. Ég hef mikla ánægju af handverkinu, ég er mjög tengd náttúrunni, enda alin upp í sveit, í Alviðru í Dýrafirði. Ég þarf að hafa mikið fyrir þessari framleiðslu minni, finna þarabólurnar, þurrka þær og bora, velja þær saman og búa til úr þeim skartgripi. En þetta veitir mér mikla ánægju.«

 

Morgunblaðið föstudagurinn 22. maí 2015

« Janúar »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31