A A A
  • 1958 - Helga Sigurrós Bergsdóttir
  • 1976 - Gunnar Ragnar Hjartarson
  • 1993 - Karín Mist Kjerúlf
„Kolbeinn“ kapteinn undir stýri. Eins og klipptur út úr Tinnabókunum. Vantar bara Tinna sjálfan og Tobba! Ljósmynd: Sigþór Gunnarsson.
„Kolbeinn“ kapteinn undir stýri. Eins og klipptur út úr Tinnabókunum. Vantar bara Tinna sjálfan og Tobba! Ljósmynd: Sigþór Gunnarsson.
« 1 af 2 »

Laugardaginn 17. ágúst bauð Rauðakrossdeild Dýrafjarðar heiðursfélögum í firðinum í ferðalag í Perluna Vigur í Ísafjarðardjúpi. Alls voru þetta 32 borgarar og spekingar miklir sem fóru í umrædda ferð. Farið var í stórri hvítri rútu sem Ástþór Ágústsson, fyrrum bóndi í Múla, stýrði styrkri hendi. Jónína Símonardóttir, formaður Dýrafjarðardeildarinnar ávarpaði liðið og bauð borgarana velkomna. Skipaði hún öllum í bílbeltin og að vera stilltir og prúðir á leiðinni. Bergur Torfason og Þorbjörg Gunnarsdóttir stóðu  svo heldur betur við hlið hennar í fararstjórninni ásamt fleirum. Fór ekkert úrskeiðis, enda undirbúningur allur eins og hjá fagfólki. Bergur las svo nokkrar gamansögur á leiðinni norður úr bókinni sem hann var með. Þar sagði meðal annars frá bóndanum hér fyrir vestan sem seldi sóffann, frekar en að reka vinnumanninn og skilja við konuna. Förum ekki nánar út í það. 

 

Skipstjórinn var húfulaus

Þegar norður kom tóku þau hjónin Hafsteinn og Kiddý á móti ferðalöngunum í smábátahöfninni á Ísafirði og var farið í þessum flotta bát þeirra út í Paradísareyjuna. Hafa þau hjón stundað þessa þjónustu í um 30 ár við vaxandi vinsældir. Skipstjórinn á því skipi er heldur betur réttur maður á réttum stað, viðræðugóður og öllu vanur. Var samt húfulaus en með skipstjórastrípurnar á öxlum. Tvær stórmyndarlegar skipsjómfrúr sáu svo um að leiðbeina liðinu um borð, önnur á íslensku, hin á útlensku, en nokkrir erlendir ferðamenn voru með í för. Hvar björgunarbeltin væru og svona. Voru þær kattliðugar að fara um skipið í hlutverki háseta. 

Smá ylgja var á Sundunum en hægara inn Djúp. Öll kennileiti á sínum stað frá sjónum að sjá. Hnífsdalur, Snæfjallaströnd með snjósköflum sínum, ört minnkandi. Fyrstu veggöng á Íslandi í gegnum Arnardalshamar og kallast Arnarnesgöng, eru þarna enn, 30 metra löng. Fram kom, að einn ferðalangurinn er jafngamall göngunum. Jæja. Súðavík og Kofrinn. Og Folafótur undir Hesti blasir við uppi á ströndinni frá Vigur. Þar bjó svokallað þurrabúðarfólk með einhverja grasnyt. Byggði afkomu sína á sjósókn. 1910 eru þar 101 íbúi á skrá. Nú enginn og hefur svo verið lengi. En áfram með ferðasöguna.


Glöggt er gests augað
Þegar út í eyju kom, tók Salvar Baldursson bóndi á móti endanum og borgurunum á bryggjunni. Er hann heldur betur góður fulltrúi Vigurættarinnar á staðnum ásamt frú sinni Hugrúnu Magnúsdóttur. Þau hjón eru hógvær og lítillát, með glettnisbros á vör. Bjóða af sér góðan vestfirskan þokka. Slíkir eiginleikar eru bráðnauðsynlegir á svona sögustað. Þar er tekið á móti 7-10 þúsund ferðamönnum af öllum þjóðernum á hverju sumri. Staðarins frú átti þó nokkra frændur í borgarahópnum. Fagnaðarfundur.

Gestirnir gengu um eyna og var hún skoðuð í krók og kring. Önnur skipsjómfrúin, Lísa Marý hans Viðars tannlæknis, var leiðsögumaður með léttleika og gleði, enda gjörþekkir hún viðfangsefnið. Drottning hópsins og aldursforseti, Rannveig Guðjónsdóttir, var í stuði og gekk marga þá yngri af sér.

Í Vigur hefurt tekist að varðveita gömul og upprunaleg híbýli. Stórt heimili í sveit. Massatúrismi hefur enn ekki lagt leið sína í Vigur sem betur fer. Á eynni Mallorca í Miðjarðarhafi segja sumir heimamenn í dag: Tourists go home! Vonandi verður það aldrei sagt í Vigur eða á Vestfjörðum almennt.

Í stuttu máli:

Skipið Vigur-Breiður er hafður á heiðursstað á fjörukambinum í Vigur. Hann er af mörgum talinn elsti bátur landsins, smíðaður um 1800. Í honum eru þó ekki margar spýtur upprunalegar, ef nokkrar. Hann telst stór áttæringur að gömlu máli. Vigurmenn fluttu fé sitt á honum til Folafótar á afrétt allt framundir síðustu aldamót. Farnar voru oft fjórar ferðir með fé og svo fimm til baka um haustið af eðlilegum ástæðum. Ekki er vitað til að hann hafi verið notaður í hákarlalegur segir Salvar bóndi. Var fyrst og fremst notaður til flutninga í togi annars báts.

Fallegt er Viktoríuhúsið sem var smíðað í kringum 1860 af Sumarliða Sumarliðasyni gullsmið. Í Vigur er minnsta pósthús á Íslandi og eina varðveitta kornmyllan úr timbri á landinu. Vatnsbólið er merkilegt. Sagt er að vatn þrjóti aldrei í Vigur.

Engir ferfætlingar eru nú í eynni nema músin. Ær, kýr og hestar ganga þar ekki lengur til beitar og tófa og minkur eru fjarri góðu gamni sem betur fer.

Krían var enn í Vigur og var greinilega að hópa sig saman. En 18. ágúst er nefnilega kríudagur að gamalla manna mati hér vestra. Þá leggur hún af stað til Suðurskautsins sögðu þeir. Lengsta flug farfugls á jörðinni, 35 þús. km tvisvar á ári! Æðarfuglinn í eyjunni gefur af sér 50-60 kg af dún eftir því hversu árar. Og lundinn var á sínum stað og fimm æðarungar, komnir vel á legg, spókuðu sig um hlaðið. Og auðvitað fjöldinn allur af öðrum fuglum. Konungur fuglanna kom í heimsókn í vor, sagði Salvar bóndi. Gerði þó engan óskunda. Eyjan er 2 km löng og 400 m breið. Svona má lengi telja skemmtilegheitin í Perlu Djúpsins. 

Heimsókninni lauk með veislukaffi hjá frú Hugrúnu og frammistöðudömum hennar í fjósinu. Þar voru áður 14 mjólkandi kýr. Nú notalegur veitingasalur sem tekur 70-80 manns í sæti. Allt meðlæti heimabakað. Svakalega flott og smakkaðist afbragsvel. Síðan til Ísafjarðar með Kolbeini kafteini og co og í Dýrafjörð aftur með Múlabóndanum á hvítu rútunni. Allir ánægðir eftir því sem best er vitað.

 
« Janúar »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31