A A A
  • 1950 - Árni Ásbjörn Jónsson
  • 1962 - Siggeir Stefánsson
05.11.2016 - 07:22 | Vestfirska forlagið,Magnús Ólafsson,Komedia

Örbirgð, einsemd, einelti

Magnús Ólafsson frá Sveinsstöðum.
Magnús Ólafsson frá Sveinsstöðum.
« 1 af 3 »

Áhrifamikil sýning í Félagsheimilinu á Blönduósi þann 2. nóvember 2016,-  einleikurinn Gísli á Uppsölum. 

Frábær og hnitmiðaður flutningur, góðar umræður eftir sýninguna um örlög þessa einstaklings Gísla á Uppsölum, sem lenti í einelti strax í barnaskóla, missti af ástinni, fannst hann ekki geta brugðist móður sinni, lifði í vernduðu umhverfi allt sitt líf, lét hverjum degi nægja sína þjáningu, og lifði alla ævi í einsemd án nokkurra lífsgæða.

Spurning hlýtur að vakna af hverju hans lífshlaup varð svona. Hvað voru orsakir og hvað afleiðingar. Það leiddi eitt af öðru. Þetta var maður sem missti föður sinn þá hann var 9 ára gamall, ólst upp hjá móður sem af dugnaði kom drengjunum sínum fjórum á legg í sárri fátækt. Svo fóru bræðurnir og hann lokaðist inni, fannst hann ekki geta yfirgefið móðurina. Svo dó hún og fólkinu fækkaði í sveitinni. Hann var einn. Raunar vissu fáir af hans lífi þarna, ekki einu sinni þeir sem bjuggu í næstu sveitum. Hjá Gísla var allt í föstu fari, hann var með kindurnar sínar í húsi langt frá bænum, það voru hans fjárhús, ekki fjárhúsið sem stóð nær því á bæjarhlaðinu. Það var hús bróðir hans, það notaði Gísli ekki þó bróðirinn væri löngu farinn. Útvarpið bilaði, það var ekki endurnýjað, fæðið einhæft, lifði á því sem landið og kindurnar hans gáfu honum. Svo fékk hann kaffi, mola og stundum rjóma sendan úr næsta þorpi.

Þannig leið tíminn hjá Gísla á Uppsölum, hann áreitti enga og fáir vissu af honum. Svo varð hann allt í einu þjóðareign með áhrifamiklum sjónvarpsþætti Ómars Ragnarssonar. Með jólasteikinni fékk þjóðin allt í einu að kynnast þessum manni, sem alls hafði farið á mis við í lífinu. Það var áhrifamikið, og hún var það líka sýning drengjanna frá Bíldudal, einleikurinn Gísli á Uppsölum í leikstjórn Þrastar og flutningi Elvars Loga, en þessir listamenn eru báðir uppaldir á Bíldudal. Þá var umræðan á eftir sýningunni ekki síður áhugaverð.

Hvað eru margir í okkar þjóðfélagi sem af einhverjum ástæðum lenda í öngstræti líkt og Gísli? Sumir lenda í einelti sem ekki næst að vinna úr. Aðrir eru allt lífið á rangri hillu vegna þess að þeim finnst þeir ekki geta farið neitt eða yfirgefið þær aðstæður sem þeir lifa í. Mörgum er farið líkt og Gísla, sem fannst hann ekki geta yfirgefið móður sína, móður sem barist hafði fyrir því að koma drengjunum sínum á legg í afskekktum dal. Hún þekkti ekkert annað líf en að vera þar. Hann hugsaði hvað yrði um hana í deyjandi byggð ef hann færi. Síðan dó hún en hann varð einn eftir. Hann fór ekki neitt, fór ekki einu sinni í jarðaför móður sinnar. Hann hafði einu sinni komið á Bíldudal, það var þegar hann náði í orgelið, að öðru leiti fór hann í raun aldrei út fyrir sitt nánasta umhverfi.

Svona einstæðingar geta verið allt í kringum okkur. Fáir á Bíldudal, sem er þó ekki nema í innan við 40 km fjarlægð, vissu af Gísla á Uppsölum fyrr en hann birtist fólki í sjónvarpinu. Svona einstæðingar geta verið í blokk í Reykjavík eða litlu húsi í einhverju þorpi eða út í sveit. Vonandi eru þó fáir sem búa þurfa við jafn hrikaleg kjör og Gísli lifði, en það eru margir sem ná ekki að þroskast eins og þeir hafa hæfileika til vegna þeirra aðstæðna sem þeir lenda í. Gísli reyndi eitt sinn að biðja sér konu. Hún vildi hann ekki, þá var það ekki reynt aftur, kannske ekkert tækifæri til þess. Hvað eru margir sem lokast sálarlega inni ef stúlka hafnar þeim og lifa í einsemd og ástleysi allt sitt líf. Þegar útvarpið hans Gísla bilaði var því ekki breytt. Hann keypti ekki nýtt, kanske af þráhyggju, kannske af því efnin voru engin. Kannske af því hann fór aldrei í búð. Hvað vitum við um það og þannig getur verið farið hjá sumum okkar meðbræðra. Gísli fór sérhvern vetur bæði að morgni og kveldi og gaf kindunum sínum þar til voraði á ný. Þær voru hans líf og yndi, þær voru hans lífsbjörg. Hann heyjaði um sumarið á sama hátt og hann hafði gert frá barnæsku. Þetta var hans líf.

Leikurinn var frumsýndur á söguslóðum í Selárdal og hefur síðan farið víða við einstaklega góðar viðtökur. Gísli á Uppsölum er einstakt leikverk um einstakan mann. Einn stærsti viðburður íslenskrar sjónvarpssögu er Stikluþáttur Ómars Ragnarssonar um einbúann Gísla Oktavíus Gíslason. Enn er Gísli landanum kær og hugleikinn.

Hér er á ferðinni áhrifamikil sýning sem hefur hrifið áhorfendur líkt og saga söguhetjunnar. Leikari er Elfar Logi Hannesson sem er jafnframt höfundur ásamt leikstjóranum Þresti Leó Gunnarssyni. Höfundur tónlistar er Svavar Knútur.

Magnús Ólafsson


« Desember »
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31