A A A
  • 1920 - Jón Þ Sigurðsson
  • 1940 - Edda Arnholtz
  • 1992 - Ólöf Guðbjörg Jónasdóttir
  • 2006 - Jóhann Króknes Torfason
  • 2006 - Sigríður Króknes Torfadóttir
14.05.2017 - 20:42 | Vestfirska forlagið,forseti.is,Björn Ingi Bjarnason

Ólafur Ragnar Grímsson er 74 ára í dag - 14. maí 2017

Ólafur Ragnar Grímsson, f.v. forseti Íslands.
Ólafur Ragnar Grímsson, f.v. forseti Íslands.
« 1 af 3 »

Fimmti forseti lýðveldisins, Ólafur Ragnar Grímsson, er fæddur á Ísafirði 14. maí 1943. Hann var forseti 1996 - 2016. Foreldrar hans voru Grímur Kristgeirsson og Svanhildur Ólafsdóttir Hjartar.

 

Ólafur Ragnar varð stúdent frá Menntaskólanum í Reykjavík árið 1962, lauk BA-prófi í hagfræði og stjórnmálafræði frá University of Manchester árið 1965 og doktorsprófi í stjórnmálafræði frá sama skóla árið 1970, fyrstur Íslendinga til að ljúka doktorsprófi í þeirri fræðigrein.

 

Ólafur Ragnar Grímsson var skipaður lektor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands 1970 og lagði grunn að kennslu í stjórnmálafræði, þá nýrri námsbraut við Háskóla Íslands. Árið 1973 var hann skipaður fyrsti prófessor við Háskóla Íslands í stjórnmálafræði. Á árunum 1970-1988 mótaði hann kennslu og stundaði rannsóknir í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands, einkum á íslenska stjórnkerfinu og tók þátt í alþjóðlegu vísindasamstarfi stjórnmálafræðinga.

 

Ólafur Ragnar Grímsson lét snemma að sér kveða á vettvangi íslenskra þjóðmála. Var hann m.a. stjórnandi útvarpsþátta og sjónvarpsþátta á árunum 1966-1971 sem vöktu þjóðarathygli og ruddu nýjar brautir í fjölmiðlun. Hann sat í stjórn Sambands ungra framsóknarmanna 1966-1973 og í framkvæmdastjórn Framsóknarflokksins 1971-1973.

 

Árið 1974 var Ólafur Ragnar Grímsson í framboði til Alþingis fyrir Samtök frjálslyndra og vinstri manna og sat á Alþingi sem varaþingmaður 1974 og 1975. Þá var hann formaður framkvæmdastjórnar Samtaka frjálslyndra og vinstri manna 1974-1975.

 

Á árunum 1978-1983 var Ólafur Ragnar Grímsson þingmaður Reykvíkinga fyrir Alþýðubandalagið og svo þingmaður Reyknesinga 1991-1995, varaþingmaður 1983-1991. Formaður þingflokks Alþýðubandalagsins var hann 1980-1983 og formaður framkvæmdastjórnar Alþýðubandalagsins 1983-1987. Hann starfaði sem ritstjóri Þjóðviljans 1983-1985 og var árið 1987 kjörinn formaður Alþýðubandalagsins og gegndi því embætti til ársins 1995. Á árunum 1988-1991 var hann fjármálaráðherra í ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar.

 

Ólafur Ragnar hefur sinnt ýmsum öðrum félags- og nefndarstörfum. Hann sat í hagráði 1966-1968, í útvarpsráði 1971-1975, var formaður milliþinganefndar um staðarval ríkisstofnana 1972-1975, formaður Félagsvísindafélags Íslands 1975, varaformaður Öryggismálanefndar 1979-1990, sat í stjórn Landsvirkjunar 1983-1988, sat þing Evrópuráðsins 1981-1984 og aftur 1995-1996, var formaður skipulagsnefndar þingmannaráðstefnu Evrópuráðsins um ráðstefnuna Norður-Suður: Hlutverk Evrópu 1982-1984 og var formaður og síðar forseti alþjóðlegu þingmannasamtakanna Parliamentarians for Global Action 1984-1990 og sat í stjórn samtakanna til ársins 1996. Fyrir störf sín á þessum vettvangi tók hann við Friðarverðlaunum Indiru Gandhi árið 1987 en auk þeirra hefur hann hlotið fjölda alþjóðlegra viðurkenninga, svo sem The Robert O. Anderson Sustainable Arctic Award frá Institute of the North í Alaska 2007, Jawaharlal Nehru Award for International Understanding sem forseti Indlands afhenti árið 2010, gullmerki American-Scandinavian Foundation 2014 og Walter J. Hickel orðuna 2015. Hann var í stjórn friðarfrumkvæðis sex þjóðarleiðtoga 1984-1989. Ólafur Ragnar var kjörinn heiðursdoktor frá háskólanum í Ås í Noregi 1997, háskólanum í Manchester 2001, Ríkisháskólanum í Ohio árið 2009, Laval háskólanum í Québec árið 2015 og Kookmin háskólanum í Seoul einnig árið 2015.

 

Ólafur Ragnar Grímsson er höfundur fjölda fræðigreina og ritgerða sem birst hafa bæði í íslenskum og erlendum tímaritum.

 

Ólafur Ragnar kvæntist hinn 14. nóvember 1974 Guðrúnu Katrínu Þorbergsdóttur framkvæmdastjóra. Hún var fædd 14. ágúst 1934 og lést 12. október 1998. Foreldrar hennar voru Þorbergur Friðriksson skipstjóri og Guðrún Bech. Tvíburadætur Ólafs og Guðrúnar eru Guðrún Tinna viðskiptafræðingur og Svanhildur Dalla stjórnmálafræðingur og lögfræðingur, fæddar 1975.

 

Hinn 14. maí 2003 kvæntist Ólafur Ragnar Dorrit Moussaieff skartgripahönnuði. Hún er fædd 12. janúar 1950. Foreldrar hennar eru Shlomo Moussaieff og Alisa Moussaieff.

« Janúar »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31