A A A
  • 1920 - Jón Þ Sigurðsson
  • 1940 - Edda Arnholtz
  • 1992 - Ólöf Guðbjörg Jónasdóttir
  • 2006 - Jóhann Króknes Torfason
  • 2006 - Sigríður Króknes Torfadóttir
09.01.2017 - 08:32 | Morgunblaðið,Björn Ingi Bjarnason,Vestfirska forlagið

Ólafur J. Proppé, prófessor emeritus og fyrrv. rektor KHÍ – 75 ára

« 1 af 2 »

Menntun kennara og störf björgunarsveita

Ólafur J. Proppé fæddist í Reykjavík 9.1. 1942 og ólst þar upp til 12 ára aldurs en síðan í Garðahreppi (nú Garðabæ). Hann lauk kennaraprófi frá KÍ 1964, stundaði nám við framhaldsdeild KHÍ 1972-73, lauk MS-prófi í uppeldissálarfræði frá University of Illinois 1976, doktorsprófi (PhD) í uppeldis- og menntunarfræði frá sama háskóla 1983 og hefur sótt fjölda námskeiða í uppeldis-, menntunar- og kennslufræðum.

Ólafur var kennari við Hlíðaskóla í Reykjavík 1964-65, Heimavistarskólann á Jaðri 1964-65, Öldutúnsskóla í Hafnarfirði 1965-74, var barnaverndarfulltrúi Hafnarfjarðar 1964-66, sérfræðingur hjá menntamálaráðuneytinu 1975-83, stundakennari við KHÍ 1975-83 og við HÍ 1977-84 og sérfræðingur í mati á skólastarfi fyrir menntamálaráðuneytið á Möltu, á vegum UNESCO, haustið 1983, og við mat á þróunarstarfi Þróunarsamvinnustofnunar Íslands í Malaví sumarið 1996.

Ólafur var lektor við KHÍ 1983-90, dósent 1990-92, prófessor frá 1992, kennslustjóri 1987-89, aðstoðarrektor 1991-99, starfandi rektor á haustmisseri 1997 og rektor KHÍ 2000-2008, en hann baðst lausnar eftir að sameiningu KHÍ og HÍ var formlega lokið 2008. Hann hefur síðan unnið ýmis verkefni fyrir menntamálaráðuneytið, Alþingi og HÍ.

Ólafur hefur tekið þátt í og verið formaður fjölmargra starfshópa og opinberra nefnda um uppeldis- og menntamál.

Ólafur gekk ungur í Skátafélagið Hraunbúa í Hafnarfirði, sinnti þar ýmsum trúnaðarstörfum og fyrir Bandlag íslenskra skáta, lauk leiðtogaþjálfun fyrir fullorðna skáta, m.a. frá Gilwell Park í London, hefur verið stjórnandi fjölmargra námskeiða fyrir skátaforingja, félaga í hjálparsveitum skáta og annað björgunarsveitafólk frá 1960, var fyrsti formaður Gilwell-hringsins, 1963, situr í stjórn Bandalags íslenskra skáta frá 2011, formaður fræðsluráðs Bandalags íslenskra skáta frá 2011, var formaður Hjálparsveitar skáta í Hafnarfirði í 11 ár, formaður Landssambands hjálparsveita skáta (LHS) 1971-73 og 1989-91, formaður Landsbjargar, landssambands björgunarsveita, 1991-99 (eftir sameiningu Landssambands hjálparsveita skáta og Landssambands flugbjörgunarsveita), formaður Slysavarnafélagsins Landsbjargar (eftir sameiningu Landsbjargar og Slysavarnafélags Íslands) 1999-2000, stjórnaði aðgerðum björgunarsveita í Vestmannaeyjum fyrstu 10 daga gossins 1973, starfaði í starfshópum og opinberum nefndum um almannavarna- og björgunarmál og sat í Almannavarnaráði ríkisins 1996-2000.

Ólafur var formaður Samtaka íslenskra kennaranema 1963-65, sat í stjórn Samtaka norrænna kennaranema 1963-65 og Félags barnakennara á Reykjanesi 1972-74, var ritstjóri Foringjans 1961-63, Fjarðarfrétta 1969-73 og Menntamála 1974-75, formaður Samtaka áhugafólks um uppeldis- og menntamál (SÁUM) 1982-83, sat í bæjarstjórn Hafnarfjarðar 1986-90, var formaður skólanefndar Álftaness 2006-2010, var einn af stofnendum Hraunavina og sat í stjórn félagsins í sex ár, formaður Almannaheilla – samtaka þriðja geirans 2013-2015, hefur setið í nefnd um málefni aldraðra í Garðabæ frá 2014 og í stjórn Félags áhugafólks um sögu Bessastaðaskóla frá 2015.

Ólafur hefur verið sæmdur fjölda heiðursmerkja af skátahreyfingunni, var sæmdur riddarakrossi íslensku fálkaorðunnar 1995 fyrir störf að björgunarmálum, Gullmerki Slysavarnafélags Íslands 1999, heiðursskildi Slysavarnafélagsins Landsbjargar 2008 og Skátakveðjunni úr gulli 2014.

 

Fjölskylda

Eiginkona Ólafs er Pétrún Pétursdóttir, f. 26.8. 1942, fyrrv. forstöðumaður Hafnarborgar. Foreldrar hennar voru Pétur Árnason, f. 18.6. 1905, d. 8.6. 1942, skipstjóri í Reykjavík, og Maríanna Elíasdóttir, f. 13.6. 1916, d. 10.8. 1991, húsfreyja í Hafnarfirði. Fósturfaðir Pétrúnar var Jón Björnsson, f. 16.10. 1909, d. 22.3. 1996, vélstjóri í Hafnarfirði.

Börn Ólafs og Pétrúnar eru Jón Sverrir Proppé, f. 20.2. 1962, heimspekingur og listfræðingur í Reykjavík, en kona hans er Guðrún Björk Kristjánsdóttir íslenskufræðingur; Óttarr Ólafur Proppé, f. 7.11. 1968, alþingismaður í Reykjavík, en kona hans er Svanborg Þórdís Sigurðardóttir bóksali, og Ragnheiður Hulda Proppé, f. 23.1. 1971, mannfræðingur í Reykjavík.

Ólafur og Pétrún eiga þrjú barnabörn, Ólöfu Öndru (dóttir Jóns), og Ævar og Krumma (synir Huldu).

Systkini Ólafs: Óttar Proppé, f. 25.3. 1944, d. 11.9. 1993, m.a. ritstjóri Þjóðviljans, bæjarstjóri á Siglufirði og síðast fjármálastjóri Hafnarfjarðarhafnar; Friðbjörg Proppé, f. 5.2. 1950, starfar á Hrafnistu í Hafnarfirði; Hrafnhildur Proppé, f. 20.6. 1952, flugfreyja í Garðabæ.

Foreldrar Ólafs voru Óttarr Proppé, f. 19.2. 1916, d. 6.12. 2007, forstjóri í Reykjavík, og Guðrún Hulda Proppé, f. 28.8. 1917, d. 27.12. 1980.

 

Morgunblaðið 9. janúar 2017.

 

 

« Janúar »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31