A A A
  • 1958 - Helga Sigurrós Bergsdóttir
  • 1976 - Gunnar Ragnar Hjartarson
  • 1993 - Karín Mist Kjerúlf
Núpur í Dýrafirði. Jón Gnarr og Bragi Guðmundsson.
Núpur í Dýrafirði. Jón Gnarr og Bragi Guðmundsson.
« 1 af 2 »

Jón Gnarr lýsir grófu ofbeldi af hendi nemenda og kennara sem viðgekkst í heimavistarskólanum Núpi í Dýrafirði árin 1981-83. Jón lýsir í nýrri bók, Útlaganum, kynferðislegri misnotkun af hendi kennara, hópnauðgun og grófum barsmíðum. Bragi Guðbrandsson, forstjóri Barnaverndarstofu, segir meðvitund um ofbeldi og misnotkun ekki hafa verið til á þessum árum.

„Það var eitthvað með Núp. Núpur var alræmdur. Fólki stóð stuggur af Núpurum. Og það var eitthvað meira en að vera í heimavistarskóla annars staðar, Núpari var eitthvað ferlegt,“ segir Jón Gnarr, sem gefur út síðustu bókina, Útlagann, í heildstæðu verki þriggja bóka. Bókin er líkt og fyrri bækurnar, Indjáninn og Sjóræninginn, byggð á ævi Jóns fram að fullorðinsárum. Í Útlaganum segir meðal annars frá miklu ofbeldi sem viðgekkst á Núpi í Dýrafirði þá tvo vetur, 1981-83, sem Jón var þar við nám. Þar lýsir hann algjöru afskiptaleysi af börnum sem þar dvöldu, vöntun á umhyggju af hendi fullorðinna sem unnu við skólann og undarlegum og grimmum veruleika sem varð til í þessum skóla vestur á fjörðum – þar sem gjaldmiðillinn var áfengi, hass og barsmíðar.

„Ég var þarna í tvo vetur. Fyrri veturinn minn var hræðilegur. Ég held einhverra hluta vegna að Núpur hafi verið sérstaklega hræðilegur staður á því ári. Ég heyrði ekkert í foreldrum mínum eiginlega á meðan ég var þarna. Krakkarnir sem áttu heima í nágrenninu fengu að fara heim til sín aðra hverja helgi eða eitthvað svoleiðis. Við hin fórum heim á jólum, páskum og í sumarfrí. Ég man að það var sími á vistinni, en það var aldrei neinn sem hringdi. Ég veit ekkert um hvort einhverjir hafi átt í uppbyggilegum og reglulegum samskiptum við foreldra sína, en ég man allavega ekki eftir slíku. Þú varst bara þarna og engar bréfaskriftir eða neitt. Mamma sendi mér sígarettur.“

Eftir að hafa átt erfitt uppdráttar í skóla í borginni var Jónsi Pönk, eins og hann var kallaður, sendur til útlegðar í heimavistarskólann Núp í Dýrafirði. Þar var honum komið fyrir í herbergi með rimlum fyrir glugganum, með herbergisfélaga sem hann hafði aldrei hitt fyrr. Fjórtán ára ásamt hópi annarra barna og unglinga. Á Núp voru sendir vandræðaunglingar úr Reykjavík, krakkarnir af bæjum í kring, börn sem áttu erfitt með nám og hefðu sennilega fengið einhverjar greiningar í dag, ADHD og einhverfu, eins og Lena, eða komu af heimilum þar sem var erfitt.

Börnin voru samsek
Í kaflabrotinu sem hér er birt lýsir Jón hópnauðgun sem á sér stað á vistinni, þegar drengirnir taka sig saman og „ríða Lenu til hamingju með afmælið.“


KAFLABROT ÚR ÚTLAGANUM

Stundum gerast óvæntir hlutir sem breyta lífi manns. Atvik sem marka mann fyrir lífstíð. Afmæli Lenu var eitt þeirra. Það er sagt að heilinn hafi þann hæfileika að geta látið mann gleyma öllu hræði­legu. En sumt er svo hræðilegt að maður getur ekki gleymt því.

Það var sunnudagur og ég var inni í herberginu mínu. Ég lá uppi í rúmi og var að lesa. Þannig var það yfirleitt þegar ekki var skóli. Þá hékk ég aðallega inni í herberginu mínu og las en skrapp þó annað slagið inn í Smók til að fá mér að reykja og kjafta við einhverja. Þar bullaði ég eitthvað, hló aðeins og fór svo aftur inn í herbergi að hangsa og lesa.

Ég lærði fljótt að ganga aldrei með sígarettupakka á mér. Þá fóru allir sjálfkrafa að sníkja af manni sígaretturnar. Eins og það var nú gaman að vera með heilan sígarettupakka og að vera þar af leiðandi dálítill kall, var það einfaldlega of dýrt. Allir vildu fá „lánaðar“ sígar-ettur.

– Geturðu lánað mér sígarettu, Jónsi?

– Uhh …

Mér fannst ég ekki geta sagt nei og þegar ég rétti fólki pakkann þá tók það jafnvel tvær.

– Eina núna og eina í nesti.

Ég gleymdi svo alltaf jafnóðum hverjum ég hafði lánað sígarettur. Og þó að ég væri viljugur að lána, voru ekki allir alltaf jafn viljugir að lána mér. Ég þóttist því alltaf vera sígarettulaus jafnvel þótt ég ætti fullt af sígarettum. Ég losaði gólflista á sökklinum undir fata­skápnum í herberginu mínu og faldi sígarettupakkana mína þar. Ég sagði ekki einu sinni Purrki frá því. Hann var svo samviskulaus að hann hefði stolið pökkunum frá mér, selt þá og þrætt svo fyrir að hafa gert það. Ég laumaðist svo reglulega á felustaðinn, náði mér í eina og fór niður í Smók. Allar sígarettur voru síðasta sígarettan mín. Fólk gat ekki einu sinni fengið smók hjá mér.

Þessi sunnudagur var ekkert öðruvísi. Ég losaði gólffjölina, náði mér í eina sígarettu, opnaði dyrnar og ætlaði niður í Smók. Um leið og ég kom fram á gang fann ég að andrúmsloftið var rafmagnað. Það var eitthvað í gangi. Óvenjumargir strákar voru á ganginum. Þeir hvísluðust á flissandi og laumulegir. Ég leit framan í einn og úr andliti hans skein einhver áður óþekkt gleði og spenna. Það var engu líkara en kominn væri sirkus á Núp. Það var allavega eitthvað ofboðslega skemmtilegt og óvænt í gangi. Eitthvað sem allir hefðu áhuga á. Ég hikaði.

– Hvað? Hvað er í gangi?

Strákarnir litu hver á annan og flissuðu. Villi, sem var í þarnæsta herbergi við mig, labbaði til mín og hvíslaði lágt: 

– Varstu ekki bú­inn að heyra það?

Villi brosti spenntur og klemmdi saman varirnar.

– Hvað?

Ég horfði á hina strákana í kringum mig Hvað var eiginlega í gangi á Núpi þar sem aldrei gerðist neitt? Hvað var svona stórkost­legt? Var kannski komin hljómsveit á svæðið? Voru Utangarðsmenn mættir? Sat Bubbi Morthens kannski niðri í matsal að drekka kaffi?

– Hvað?

Ég krafðist svara.

– Varstu í alvöru ekki búinn að frétta það?!

– Neihh, hvað? Hvað er í gangi?

Ég var að springa úr forvitni og spennu.

– Lena á afmæli, hvíslaði Villi lágt í eyrað á mér á milli herptra varanna. Ég horfði í augun á honum.

– Og?

Hann hallaði sér aftur upp að eyranu á mér.

– Það eru allir að ríða henni til hamingju með afmælið.

– Í alvörunni?

Ég hvíslaði ósjálfrátt.

„Ríða henni til hamingju með afmælið?“ Bara orðið „ríða“ átti strax alla mína athygli óskipta. Hvernig var hægt að ríða Lenu til hamingju með afmælið? Mátti það? Var það virkilega hægt? Er þetta kannski þannig? Leyfa stelpur strákum að ríða sér ef þær eiga af­mæli? Er það gert? Ef það er einhverskonar siður eða eitthvað sem allir gera þá var það stórkostlegt. Það hafði algerlega farið framhjá mér. Ég varð að fara að fylgjast betur með því hvenær stelpurnar áttu afmæli. Ætti ég alltaf þegar einhver stelpa átti afmæli að labba upp að henni og segja:

– Neihh sko, til hamingju með afmælið. Á ég ekki að ríða þér til hamingju með daginn?

– Jú, endilega!

Þetta væri þá einhver stórkostlegasti siður sem til væri á Íslandi. Og ég vissi ekki einu sinni af honum! Ég spenntist upp og upp­veðraðist allur við þessar góðu fréttir. „Ríða Lenu til hamingju með afmælið.“ Já, það er ekkert annað!

– Hvar er þetta sem allir eru að …?

Þetta varð ég að sjá.

– Niðri í herberginu hans Conans.

Ég beið ekki boðanna og Villi fylgdi í humátt á eftir mér. Við fór­um niður á hinn strákaganginn. Ég var í tilfinningalegu uppnámi og hugsanirnar snarsnerust í höfðinu á mér. Var ég hugsanlega að fara að missa sveindóminn? Var ég að fara að ríða Lenu? Ég hafði aldrei haft neinn sérstakan áhuga á henni. Hún var ekki beint sæt en heldur ekkert sérstaklega ljót. En hún var sveitastelpa og hún var ekki einu sinni með sítt hár. Hárið á henni var knallstutt, eiginlega eins og drengjakollur. En hún var samt stelpa og hún var með brjóst og píku. Ég fór ekki fram á mikið meira. Ég var ótrúlega spenntur. Fyrir utan herbergi Conans stóð hellingur af strákum. Conan stóð sjálfur fyrir dyrunum eins og dyravörður. Ég tók eftir því að stráka­hrúgan myndaði biðröð. Allir geisluðu af einlægri gleði og eftir­væntingu. Eins og rétt áður en hleypt er inn á frumsýningu á frá­bærri bíómynd. Ég tróð mér upp að Conan.

– Er þetta satt? 

„Það varð til einhver heimur, sem var utan við aðra heima. Þarna gengust allir undir viðurnefnum og ég var lengi að finna út hvað allt þetta fólk heitir í alvörunni. Þarna voru Sprelli, Purrkur og Korpa – svo einhverjir séu nefndir. Ég veit ekkert hvaðan þessi nöfn komu, eða hver úthlutaði þeim, en þetta var hluti af því að vilja fjarlægja sig frá því sem var að gerast. Svona eins og þegar fólk leikur í klámmyndum eða er í vændi, og er með svona viðurnefni,“ útskýrir Jón.

Hann segir ofbeldið og eineltið hafa verið alls staðar, en að á köflum hafi verið gaman á Núpi. „En það var allt notað, afskiptaleysi, einangrun, niðurlægjandi athugasemdir og framkoma og svoleiðis. Svo var rosalega mikill munur á stráka- og stelpnavistinni. Þetta voru gjörólíkir heimar. Við vorum öll í sameiginlegu rými á daginn, en síðan fóru allir inn á sína vist og við vorum læst inni. Þá var nýr heimur og nýjar leikreglur. Þetta var samt ekki alltaf vont – það var líka gaman. Og þarna varð til vinátta. Það var eins og við værum samsek á einhvern hátt – einhver órjúfanleg tengsl urðu til.

Jón segir híerarkíu á vistinni hafa mótast eftir félagslegum og líkamlegum styrk. „Og það var á kostnað þeirra sem voru hvorki líkamlega né félagslega sterkir – þeir enduðu neðst. Ég var félagslega sterkur á einhvern einkennilegan hátt, og lenti á milli. Ég hef aldrei fyrr eða síðar orðið vitni að svona miklu líkamlegu ofbeldi eins og var á Núpi og þetta voru bara unglingar að berja hver annan.“

Meira en hann réði við
Jón hóf að sækja tíma hjá sálfræðingi þegar hann byrjaði að skrifa Útlagann.

„Ég gerði það þegar ég áttaði mig á því að þetta var meira en ég réð við. Mínar bækur eru skrifaðar í ákveðnum stíl, sem er einfaldur, einlægur og opinskár – svona persónuleg upplifun eða túlkun á aðstæðum. Án þess að dæma, en frekar sem áhorfandi og ég gat ekkert vikið frá því. Bækurnar mínar hafa gengið út á að gera grín að mér og mínum sársauka og þannig yfirstíga hann. En þarna varð það of mikið. Ég stóð frammi fyrir einhverju sem var svo miklu stærra en ég hafði gert mér grein fyrir, bæði svona atburðir sem gerðust og svo líka mínar eigin hugsanir. Ég er til dæmis að tala um kynþroskann og upplifun mína af því að taka hann út – og ég hugsaði, er þetta bara í lagi? Að einhver miðaldra karl sé að skrifa um unglingakynlíf? Er ég kominn yfir einhverja grensu?“

Jón sótti í dómgreind annarra til að spyrja þessara spurninga. „Oft kvenna sem standa mér nærri. Síðan var þetta erfitt á mörgum stigum þessa ferlis. Ég hataði þessa bók. Þegar ég var tæplega hálfnaður þá dauðsá ég eftir að hafa byrjað að skrifa hana og langaði til þess að bakka út. En ég gat það ekki. Samt hugsaði ég, af hverju ertu svona mikill fáviti? Af hverju ertu að búa til svona mikið vesen? Verða borgarstjóri, til hvers? Og nú þessi bók? Það les enginn bækur – það eru engir peningar í þessu. Þú ert að niðurlægja þig, þú átt eftir að þurfa að þola sleggjudóma og að fara að vekja upp drauga.“

En áfram hélt Jón að skrifa. „Ég fór í gegnum svo margt – eins og með Lenu. Ég er búinn að gráta svo mikið út af þessu. Allir þessir krakkar sem hafa ekki átt neinn séns, einhverra hluta vegna. Þegar ég var borgarstjóri þá hitti ég konu sem er útigangskona og ég man eftir henni þegar hún var bara stelpa á Núpi. Við fórum að tala saman og vorum að tala um Konukot og gistiskýlið, og hún sagði að ég yrði að halda áfram og vera borgarstjóri og ég sagði, nei ég ætla ekki að gera það. Þetta var í kringum þann tíma sem ég var að hætta. En ég sagði henni að ég ætlaði að skrifa bók um Núp. Ég sagði henni að mér þætti það miklu merkilegra en að vera borgarstjóri og hún sagði, vá ætlarðu að gera það? Ætlarðu að segja frá öllu? Og hún var í rauninni að spyrja, ætlarðu að segja frá öllu sem enginn má tala um? Ég sagði já, og hún sagði, gott, þessi staður eyðilagði líf mitt.“


Kynferðisleg misnotkun
Jón rauf trúnaðinn um veruna á Núpi. „Ég er búinn að gráta svo mikið. Og pæla, af hverju gerði ég ekki eitthvað? Ég ásaka mig en um leið átta ég mig á því að ég var bara 14 ára. En ég er að brjóta trúnað – eins skelfilega ógeðslegt og það er, að einhver sem gerir eitthvað ljótt við þig þegar þú ert ósjálfbjarga og barn og þér finnst þú vera bundinn trúnaði um það. Þetta er hlutur sem fokkar manni upp – þetta er ástæðan fyrir því að fólk sér ekkert annað í stöðunni en að drepa sig.“

Hann verður klökkur þegar hann talar um félaga sína af Núpi. „Við vissum ekkert alltaf hvaða fólk var að koma og fara þarna, en við vorum hópur af sauðum og þangað leita úlfarnir. Það er allavega eitt dæmi sem mig grunar sterklega að hafa verið kynferðisleg misnotkun. Sprelli var einn vinur okkar og hann var seinþroska, ekki einu sinni byrjaður að drekka – sem var mælikvarði alls á þessum tíma. Svo kom nýr kennari og hann var töffari, hlustaði á pönk og vissi um tónlist og svona. Og hann bauð Sprella inn í kennaraíbúðina til sín til að drekka og hlusta á tónlist og spjalla. En svo vildi Sprelli aldrei tala um þetta og ég hugsaði eftir á, af hverju býður kennarinn mér ekki? Ég veit miklu meira en Sprelli. Ég var afbrýðissamur út í Sprella, og mér fannst þessi kennari vera í svo miklu rugli að hafa ekki boðið mér – ég drakk og vissi svo mikið um pönk. Það var ekki fyrr en ég skrifaði niður söguna hans Sprella, og ég er að verða fimmtugur, sem ég fattaði – auðvitað var verið að misnota hann inni í þessari kennaraíbúð.“

Fór illa fyrir mörgum
Jón tók viðtöl og talaði við skólafélagana í undirbúningi fyrir bókina. 

„Ég talaði við konu sem var þarna með mér, henni hefur gengið ágætlega að vinna sig frá þessu. Bróðir hennar sem er tveimur árum yngri, hún segir að hann muni aldrei jafna sig. Purrkur, herbergisfélaginn sem ég segi frá í bókinni, fyrirfór sér. Hann gekk í sjóinn við JL húsið – synti bara út. Það veit enginn af hverju. Það eru margir sem eru dánir. Maður þyrfti að tala við aðstandendur til að vita hvernig dauða þeirra bar að. En ég veit um nokkra sem hafa fyrirfarið sér eða hafa komið sér upp sjálfseyðandi lífsstíl – þá í fíkn og í umhyggjuleysi fyrir sjálfum sér. Ég veit ekki um Sprella, en mér skilst að hann sé útigangs­maður einhvers staðar í Evrópu. Það er enginn sem veit hvar hann er. Nokkrir eru í fangelsi. En síðan eru nokkrir sem hafa plummað sig ágætlega, eins og ég. Enda lenti ég ekkert í því versta sem viðgekkst. Ég naut einhvers konar friðhelgi, því ég var skemmtilegur,“ útskýrir Jón og heldur áfram.

„Eins og persóna í bókinni, Gaddi, sem öllum stóð stuggur af, hann gat alltaf vaðið í þig – og það skipti hann ekkert máli hver þú varst. En mér stóð aldrei stuggur af honum, honum líkaði vel við mig eða eitthvað. Svo skrýtið, því ég var svo óvenjulegur. En ég held að allir sem voru þarna, að minnsta kosti á meðan ég var þarna, beri einhver sár hversu greinileg sem þau eru.“

Núna, þegar bókin er að koma út, vonast Jón til þess að verða frjáls. „Svo er þetta eins og ákveðin leið fyrir mig að yfirvinna þetta, að Jón Gunnar er ekki til lengur, hann er dáinn. Og ég er ekki hann. Ég er Jón Gnarr. Þannig að ég hef getað fjarlægt mig frá honum, en ég lofaði honum að ég myndi segja frá þessu. Ég vonast til þess að þegar bókin kemur út og svona, þá verði ég frjáls. Off the hook. Þá geti ég snúið mér að öðru.“

 

Börnum í vanda var hrúgað í heimavistarskóla
Bragi Guðbrandsson, forstjóri Barnaverndarstofu, var félagsmálastjóri í Kópavogi, á þessum tíma.

„Í dag vitum við hvað gerist þegar börn á ólíkum aldri og úr ólíkum aðstæðum eru í mikilli nánd – eftirlit er takmarkað og umhyggja í garð þeirra kannski líka. Það er nánast regla að þau eldri beiti þau yngri einhvers konar ofbeldi eða kúgun. Þetta þekkjum við og þetta hefur verið margrannsakað um allan heim. Íslensku heimavistarskólarnir eru ekkert frábrugðnir þeim bresku til dæmis og það liggur fyrir mikið efni um það ofbeldi sem þar viðgekkst,“ segir Bragi Guðbrandsson, forstjóri Barnaverndarstofu. 

„Menn vissu bara ekki betur á þessum tíma. Í dag vitum við um þessi smitáhrif sem eiga sér stað inni á meðferðarstofnunum, þessi neikvæðu áhrif, samskiptin, jafnvel þótt það sé fullorðið fólk sem reynir að hafa eftirlit, þá ná menn aldrei utan um það. Börnin geta orðið fyrir ofbeldi, illri meðferð af sínum jafningahópi og jafnöldrum. Trú manna á stofnanameðferð í dag er mjög lítil almennt, og því úrræði er ekki beitt nema í algjörri neyð. En á þeim tíma sem Jón Gnarr er að alast upp hafa menn mikla trú á þessu, að senda börnin í sveit þar sem þau fá frið og ró til að stunda sitt nám og komast frá sollinum í borginni.“

Á tímabilinu sem um ræðir sinnti Bragi starfi félagsmálastjóra í Kópavogi. „Þar komu mörg mál inn á mitt borð þar sem var verið að fjalla um börn með vanda, hegðunarvanda og annað slíkt. Svo börn sem bjuggu við mikla erfiðleika heima fyrir og þurftu einhver úrræði. Ég man alveg að þetta var rætt við foreldra á þessum tíma, sem leituðu ráðgjafar hjá félagsþjónustunni og hjá barnaverndinni, um það hvernig ætti að takast á við hegðunarvanda þessara barna. Ég man eftir því að það var farið yfir þessi mál með foreldrunum, og ákveðnir valkostir teiknaðir upp – hvaða leiðir var hægt að fara. Þá voru heimavistarskólarnir ákveðinn valkostur.“

Ekki barnaverndarúrræði
Bragi segir heimavistarskólana ekki beinlínis hafa verið barnaverndarúrræði. „Þó kann vel að vera að í einhverjum tilvikum hafi barnaverndin mælt með því við foreldra eða forráðamenn, en barnaverndin hafði engin formleg yfirráð yfir því hverjir færu í þessa heimavistarskóla úti á landi. Þess vegna höfum við ekkert yfirlit yfir það hvernig samsetningin var eða hversu margir voru í þessum skólum. En við þekktum mál barna sem höfðu verið í svona skólum, ég man eftir að hafa fengið inn á mitt borð mál þar sem barn hafði orðið fyrir mjög illri meðferð og ofbeldi í slíkum skóla.“

Bragi segir að annað sem hafi spilað inn í var að margir þessara skóla sem um ræðir hafi átt í vök að verjast. „Þeir voru reknir af ríkinu, á tímum þar sem miklir fólksflutningar voru úr dreifbýli í þéttbýli. Til þess að halda þessum skólum gangandi þurftu þessir heimavistarskólar úti á landi hreinlega á börnunum úr Reykjavík að halda. Þess vegna var oft mjög auðvelt að koma börnum fyrir og það þurfti mikið til að þeim væri vikið úr skóla. Þetta voru oft börn sem fúnkeruðu illa í borgarsamfélaginu, voru að mati foreldranna komin á glapstigu, áttu erfitt með að aðlagast sínum hverfisskóla og þar fram eftir götunum. Þá var þetta álitin lausn fyrir þessi börn, að senda þau á heimavistarskóla eins og Núp í Dýrafirði.“

Engin meðvitund um ofbeldi
„Í þessum skólum söfnuðust oft saman krakkar sem áttu við gríðarleg vandamál að stríða. Þessi börn voru að koma af erfiðum heimilum og annað þess háttar. Stundum var þetta líka neysluvandi og vandi unglinganna sjálfa. Þetta er fyrir tíð meðferðar í eiginlegum skilningi, meðferðarstofnanirnar sem þá voru til voru í raun og veru eins konar enduruppeldisstofnanir.“

Á þessu tímabili, upp úr 1980, var félagslegt umhverfi allt annað en er í dag.

„Meðvitund manna um ofbeldi og einelti barna hvers gegn öðru og ég tala nú ekki um hluti eins og kynferðislegt ofbeldi, það var algjör afneitun á því og það var aldrei rætt. Eineltishugtakið var ekki til einu sinni. Við þurfum að átta okkur á þegar við fjöllum um þetta að það var miklu takmarkaðri skilningur á kjörum og líðan barna og hugmyndir um rétt barnsins voru allt aðrar og minni en í dag.“

Hann segir að svona nokkuð myndi sem betur fer ekki koma upp með sama hætti í dag. 

„Núna er ekkert hægt að vista börn utan heimilis nema það fari í gegnum Barnaverndar­stofu og -nefndir. Þessir sveitaskólar eru alveg búnir, að vísu eru börn í fóstri um landið og þau ganga í sína hverfisskóla en þau búa þá hjá fjölskyldu sem heldur utan um þau og fylgist með þeim. Það gerir barnavernd líka og í einhverjum tilvikum kynforeldrarnir að einhverju leyti líka. Það er allt annar og betri skilningur á réttindum barna, þekking á meðal kennara, starfsliði skólanna vítt og breitt um landið. Þetta fyrirkomulag sem þarna ríkti, að hrúga börnum í vanda inn í heimavistarskóla – það er gjörsamlega liðin tíð. Sem betur fer.“

 

 

Fréttablaðið laugardagurinn 17. október 2015 - ÓLÖF SKAFTADÓTTIR SKRIFAR

« Janúar »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31