Óbyggðasetrið hlýtur Nýsköpunarverðlaun SAF
Óbyggðasetrið í Fljótsdal hlaut nýsköpunarverðlaun Samtaka ferðaþjónustunnar árið 2016. Verðlaunin voru afhent af Guðna Th. Jóhannessyni forseta Íslands á föstudag, 11. nóvember 2016, við hátíðlega athöfn. Markmið verðlaunanna er að hvetja fyrirtæki og frumkvöðla til nýsköpunar og vöruþróunar.
Óbyggðasetrið er staðsett í Norðurdal í Fljótsdal, við jaðar stærstu óbyggða Norður-Evrópu, og er hugarfóstur hjónanna Steingríms Karlssonar, kvikmyndagerðarmanns, og Örnu Bjargar Bjarnadóttur, sagnfræðings. Ýmis afþreying er í boði á Óbyggðasetrinu, meðal annars reiðtúrar, gönguferðir með leiðsögn auk veitingasölu og safns. Gistimöguleikarnir sem boðið er upp á eru einstakir, en hægt er að velja á milli þess að gista í gamalli baðstofu eða uppgerðu íbúðarhúsi frá 1940. Að sögn hjónanna var hugmyndin að baki Óbyggðasetrinu fyrst og fremst sú að dvölin verði „upplifun og ævintýri“ fyrir gestina.
Í umsögn dómnefndar um Óbyggðasetur Íslands segir að sterk upplifun gegni lykilhlutverki í ferðaþjónustu samtímans og að mikilvægt sé að skapa stemningu sem fangi athygli gestsins.
Þetta er í þrettánda sinn sem nýsköpunarverðlaun SAF eru afhent, en verðlaunahafar til þessa hafa meðal annars verið Into the Glacier, Gestastofan Þorvaldseyri, Pink Iceland, Kex hostel og Norðursigling á Húsavík.