A A A
  • 1949 - Guðberg Kristján Gunnarsson
  • 1962 - Unnur Cornette Bjarnadóttir
01.04.2015 - 06:29 | Stórfrétt að sunnan:

Nýjar tillögur um viðreisn á Vestfjörðum: Upp með Vestfirði!

Vestfirðir og hið magnaða Ísland.
Vestfirðir og hið magnaða Ísland.

Tíðindamaður okkar í Reykjavík símar eftirfarandi stórfrétt:
Alþingi og ríkisstjórn hafa nú þjappað sér saman um aðgerðir sem ganga út á að Vestfirðir verði áfram í byggð. Grunnhugmyndin er að Vestfirðingar fái að bjarga sér sem mest sjálfir. Þessar byltingarkenndu tillögur ganga undir nafninu Upp með Vestfirði. Þeir sem til þekkja, segja að það verði engar skýrslur gerðar um þetta mál sem síðan verði fleygt. Nú eigi að láta verkin tala.

   Hér á eftir verður getið um helstu aðgerðir sem löggjafar-og framkvæmdavaldið munu leggja til grundvallar viðreisn Vestfjarða. Skulu þær koma til framkvæmda á 5 árum.

Sjávarútvegur

Úthlutað verði 20000 tonna frumbyggjarétti í ýmsum tegundum til minni báta og vertíðarbáta sem gerðir eru út í hinu gamla Vestfjarðakjördæmi. Verður þetta tekið úr sameiginlegum aflaheimildum þjóðarinnar næsta haust og gildir sú úthlutun næstu 25 árin. Verkalýðs- og sjómannafélög á svæðinu sjái um og beri ábyrgð á úthlutun heimildanna. Vestfirðir verði tvö  löndunarsvæði, norður- og suðursvæði. Ekki skiptir máli hvar fiskinum verður landað innan hvors löndunarsvæðis. Aflaheimildirnar mega aldrei fara út af svæðunum.

 

Landbúnaður

    Ríkisjarðir á Vestfjörðum sem ekki eru nýttar í dag verða auglýstar lausar til ábúðar eða notkunar í ýmsu atvinnuskyni. Stjórnvöld munu beita sér ákveðið fyrir því að jarðir í einkaeign, sem ekki eru í notkun, verði nýttar á ýmsan markvissan hátt, svo sem til fiskeldis og  bændagistingar. 

   Allir þeir sem vilja koma upp bændagistingu í sveitum Vestfjarða, Hornstrandir þar með taldar, skulu fá 10 milljóna kr. óafturkræft framlag úr ríkissjóði. Miða skal við 100 aðila næstu 5 árin. Fróðir menn telja að þessir fjármunir, 1 milljarður króna,  muni skila sér aftur í ríkiskassann í formi gjalda innan örfárra ár.

   Beingreiðslur í sauðfjárrækt verði færðar til Vestfjarða frá viðkvæmustu svæðum landsins, þar sem ofbeit er mikið vandamál að dómi Landgræðslunnar.  

   Allir einstaklingar sem lögheimili eiga í sveitum Vestfjarða, fái helmings afslátt af opinberum gjöldum í ríkissjóð næstu 5 árin.

 

Vestfjarðasjóðurinn

Settur verði á laggirnar trygginga- og fjárfestingasjóður, Vestfjarðasjóðurinn, með allt að 20 milljarða kr. stofnfé. Markmið sjóðsins er að styðja fólk til sjálfshjálpar.

Hvers konar sjóður?  

  1. 1.    Vestfjarðasjóðurinn hafi það hlutverk að tryggja og styðja  við atvinnurekstur á Vestfjörðum, hverju nafni sem nefnist, stóran sem smáan.  Lögð verður sérstök áhersla á lítil fjölskyldufyrirtæki sem allsstaðar hafa verið til gæfu fyrir þjóðlöndin. Samið verður við lífeyrissjóði landsins um að fjármagna sjóðinn með skuldabréfalánum, í hlutfalli við stærð. Einnig geta bankar orðið lánveitendur ef þeir sækjast eftir því.  Í lífeyrissjóðunum voru 2,920 milljarðar króna í árslok 2014.
  1. 2.    Sjóðurinn veitir lán með veði í eignum viðkomandi fyrirtækja. Heimilt er að veita lán til smáfyrirtækja jafnvel þó þau hafi engin veð önnur en frumkvæði, kjark og þor. Bannað verði að veita lán út á íbúðarhús viðkomandi.
  1. 3.    Lánin verði veitt til eins margra ára og þurfa þykir. Lántakendur hafi val um hvort lán þeirra eru verðtryggð eða óverðtryggð. Eins hafi þeir nokkurt val um það hvenær afborganir hefjast.

 

Umboðsmaður Vestfjarða

Ríkissjórnin skipar sérstakan umboðsmann Vestfjarða til 5 ára með aðsetur vestra. Hefur hann yfirumsjón með viðreisninni undir stjórn forsætisráðherra. Fær hann víðtæk völd og vinnur í samráði og samstarfi við heimamenn. Auglýsa skal starfið og skýrt frá nöfnum umsækjenda. Æskilegt er að umboðsmaðurinn sé sjálfboðaliði sem á nóga peninga. Hann skal kappkosta að hafa heildaryfirsýn yfir málefni Vestfjarða. Hér duga ekki smáskammtalækningar, heldur markviss vinnubrögð. Umboðsmaður Vestfjarða verður að hafa brennandi áhuga á málefnum landsfjórðungsins. Hann skal leggja mikla áherslu á að kynna fyrir öðrum landsmönnum hvað Vestfirðir verða íbúavænir eftir viðreisnina.

   Kostnaður við Umboðsmann Vestfjarða skiptist til helminga á milli ríkissjóðs og sveitarfélaga á Vestfjörðum.
« Mars »
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31