Ný viðfangsefni og nokkrar staðreyndir
Standa verður við kosningaloforð og ná verður fram breytingu á stjórnarskrá landsins, þar sem þjóðin hafi aðkomu að erfiðustu úrlausnarefnunum, sem ekki hefur verið unnt að leysa með fulltrúalýðræði. Breyta verður lífeyrissjóðakerfi þar sem launþegar koma ekki að stjórn og láglaunafólk nýtur einskis, þótt greitt hafi í lífeyrissjóð allan starfstíma sinn. Fiskveiðistjórnunarmálum verður að breyta til að reyna að ná þar fram meiri sátt. Heilsugæslu og menntakerfi verður að breyta og styrkja. Og það verður að rétta hlut þeirra mörgu, sem búa við sára fátækt með mismunun og ofurskattlagningu. Svona mætti lengi telja.
Staðreyndir um mismunun
1. Enginn árangur hefur náðst í að leiðrétta skerðingar á kjörum eldri borgara og öryrkja frá 2009. Greiðslur TR hafa ekki fylgt hækkunum lægstu launa. Þar munar 60%-70% miðað við daginn í dag.
2. Á árinu 2015 hækkuðu lágmarkslaun verkafólks um 14,5% og byrjunarlaun fiskvinnufólks um 30% og annarra stétta mun meira. Greiðslutrygging TR til aldraðra og öryrkja hækkaði aðeins um 3%. Allir fengu þá greiddar afturvirkar hækkanir í samningum, mismunandi langan tíma, nema eldri borgarar og öryrkjar!
3. Í ársbyrjun 2016 hækkaði þessi lífeyrir um 9,7%. Lægstu launin hækkuðu þá um 15,9 %, með skilyrðum um að engin laun myndu hækka um minna en 15.000 kr. á mánuði. Mismun hækkana við eldri borgara með greiðslutryggingu frá TR við lægstu launin, sem kom eftir á, má áætla um 5%. Laun þingmanna hækkuðu í árslok um 45%, í krónum talið 400 til 500 þúsund á mánuði! Síðan hækkuðu laun margra embættismanna álíka! Hækkanir greiddar marga mánuði afturvirkt!
4. Í ársbyrjun 2017 höfðu breytingar á greiðslu TR hækkað; fimm þús. kr. fyrir fólk í sambúð og um 15 þús. fyrir einstæðing, eftir að hafa greitt skattinn, eða um 5,2%, þannig að þá náðist fram prósentuhækkunin frá 2016. Í krónum talið eftirfarandi: Einhleypur fær eftir að hafa greitt skatt um 230 þús. í veskið sitt til að lifa af! Fólk í sambúð fær eftir að hafa greitt skatt um 190 þús. Ekki má gleyma skerðingu á frítekjumarki úr 109 þús. á mánuði í 25 þús. á mánuði. Reglur um tekjur, sem þetta fólk mátti vinna fyrir, án þess að vera skert um 73%, tóku gildi um síðustu áramót.
5. 1. maí 2017 hækkuðu lágmarkslaun um 14,5%, en eldri borgarar með greiðslutryggingu frá TR hækkuðu um 0 kr.
6. 1. janúar 2018 eiga þessar lágmarksgreiðslur frá TR að hækka um 9,4 % miðað við þessar eftiráhækkanir, þannig að viðbótarhækkanir sem forsætisráðherra og fjármálaráðherra hafa boðað í óafgreiddu fjármálafrumvarpi er þessi viðbótarhækkun sem lægstu laun fengu 1. maí 2017 með líklegri viðbót um 12.000 á mánuði.
7. Ráðherrar hafa sagt að hækkun um 20 þús, á mánuði til þeirra sem fá lágmarkshækkun frá TR sé mikil hækkun!
8. Ekki er farið að lögum um tannlæknaþjónustu við eldri borgara og öryrkja og ekki er farið að lögum um hækkun skattleysismarka, sem taki mið af launavísitölu.
Ríkisstjórn kveður
Það er eðlilegt að sú ríkistjórn fari frá sem ekki leiðréttir svona mismunun, tekur ekki á vaxtaokri og afléttir ekki verðtryggingu á neytendalánum, stendur ekki vörð um byggðastefnu og horfist ekki í augu við hvað sé rétt og hvað rangt eða beinlínis siðlaust. Þessa ríkisstjórn hefur nefnilega frá byrjun skort skilning á kjörum almennings og vilja til þess að gjöra það sem rétt er.
Morgunblaðið 19. september 2017
Halldór Gunnarsson
Höfundur er fyrrverandi sóknarprestur í Holti undir Eyjafjöllum.
hgholt@simnet.is