29.06.2012 - 14:06 | JÓH
Ný tíðni fyrir Bylgjuna á Þingeyri
Nýr Bylgjusendir fyrir Þingeyri og nágrenni var tekinn í gagnið í gær en hann er staðsettur á Sandafelli. Við uppsetningu á sendinum komu upp truflanir og því þurfti að fá nýja tíðniúthlutun fyrir Bylgjuna. Nýja tíðnin er 101,9 MHz og því verður ekki notast við tíðnina 91,7 MHz á Þingeyri eins og áætlað var. Vodafone færði einnig sjónvarpssendi Digital Ísland frá Höfðaodda upp á Sandafell í þeim tilgangi að bæta enn frekar sjónvarpsútsendingar á svæðinu. Ef einhverjir hafa orðið varir við slakari gæði sjónvarpsútsendingar síðan í gær, er þeim bent á að snúa sjónvarpsloftneti sínu upp að Sandafelli. Ekki þarf að breyta stillingum myndlykla vegna þessa.