A A A
  • 2009 - Sigmundur Logi Þórðarsson
06.03.2017 - 21:23 | Vestfirska forlagið,Hallgrímur Sveinsson,Guðmundur Ingvarsson,Bjarni Georg Einarsson

Ný sýn í byggðamálum: - Landsbankinn fyrir landsbyggðina!

F.v.: Hallgrímur Sveinsson, Bjarni G. Einarsson og Guðmundur Ingvarsson.
F.v.: Hallgrímur Sveinsson, Bjarni G. Einarsson og Guðmundur Ingvarsson.

Fyrir nokkru talaði Þóra Arnórsdóttir í Kastljósi við ungan erlendan sérfræðing í bankamálum, Rob Galasky. Þessi ágæti maður sagði m. a. eitthvað á þessa leið:

   Sigurvegararnir í bankamálum verða þeir sem vinna út frá viðskiptavininum. Sá tími getur verið skammt undan að gjaldkerinn í stúkunni í útibúinu fái hærri laun en þeir sem nú stimpla sig inn í bönkunum og hirða hæstu launin.

Sparisjóðirnir voru þrautreynt fyrirkomulag

Sparisjóðirnir voru akkeri byggðanna. Þeir voru nokkurs konar heimabankar eða samfélagsbankar ef leyfist að nota það orð. Þar stjórnuðu heimamenn öllu innan stokks. Aðalfundur einu sinni á ári. Spilin lögð á borðið. Þegar ekki var hægt að fá fimmeyring í stóru bönkunum, þá lánuðu sparisjóðirnir sínu heimafólki. Til dæmis þegar menn voru að koma sér upp þaki yfir höfuðið og voru að bíða eftir húsnæðis-og lífeyrissjóðslánum. Peningar fólksins sjálfs voru í vinnu heimafyrir. Það var ekki um að tala að stóru bankarnir vildu lána fólki út á íbúðarhús í einhverjum krummaskuðum. Þetta er okkur minnisstætt.

Allur hagnaður sparisjóðanna fór í uppbyggingu í heimahéraði. Erum að bíta úr nálinni með það þessi misserin að við glopruðum þeim niður í krakkinu mikla. Nýlega skrifaði Gunnar Skúli Ármannsson, læknir, grein um Samfélagsbanka Norður Dakota í Bandaríkjunu í það merkilega blað, Bændablaðið. Þar segir að íbúar N-Dakota elski bankann sinn því hann sé vinur þeirra! Hér á landi þótti mörgum vænt um sparisjóðinn sinn. Hvernig skyldi því háttað í dag með bankana okkar?

   Landsbankinn verði fyrst og fremst landsbyggðarbanki

   Ekki vitum við betur en flestir Íslendingar vilji jafnvægi í byggð landsins. En þetta útþvælda og misskilda hugtak þarf að endurskoða. Því miður hefur svokölluð byggðastefna stjórnvalda mistekist að ýmsu leyti. Þarf ekki annað en benda á Vestfirði í því efni.  Upplagt er að Landsbankinn komi af fullum þunga inn í það sér verkefni að snúa þeirri þróun við, ef það er á annað borð hægt. Bankinn verði skilgreindur  sem landsbyggðarbanki fyrst og fremst. Erlendis eru nægar fyrirmyndir slíkra fjármálastofnana sem við Íslendingar getum lært af. Bankinn verði einfaldlega gerður ábyrgur gagnvart landsbyggðinni með því að hjálpa mönnum til sjálfshjálpar og komi þannig í stað hinna glötuðu sparisjóða. Og laði fólkið þar að sér með skynsamlegum og mannlegum hætti. Með því móti yrði miklu oki létt af Alþingi og ríkisstjórn. Og auðvitað ætti hann að vera 100% í eigu ríkisins.

Byggðastofnun verði deild í Landsbankanum

   Svo leggjum við til að skoðað verði hvort Byggðastofnun ætti ekki að vera deild í Landsbankanum og ráðgefandi aðili fyrir hann. Þá verða hæg heimatökin og menn munu líta á þessi blessuðu byggðamál öðrum augum en gert hefur verið. En er þá ekki hætta á að bankinn fari að gefa vondu köllunum úti á landi fullt af peningum? Sumir segja að Landsbankinn hafi gefið landsbyggðinni mikla fjármuni með afskriftum lána og slíku. Við spyrjum: Er það raunin? Hefur ekki bankinn afskrifað og gefið til dæmis Reykvíkingum miklu meiri fjármuni heldur en þessum rugludöllum á landsbyggðinni? Hefur farið fram könnun á því hjá hverjum Landsbankinn hefur verið að afskrifa í gegnum tíðina?

   Landsbankinn verði skilgreindur sem banki landsbyggðarinnar í eigu okkar allra eins og áður segir. En auðvitað yrði starfssvæði hans allt landið og miðin eins og verið hefur frá upphafi bankans. Nokkurs konar nýr sparisjóður þeirra sem á landsbyggðinni vilja búa. Hann vinni út frá viðskiptvininum og fyrir hann fyrst og fremst. Eins og bankamaðurinn Rob Galasky nefnir. Allur hagnaður bankans færi til uppbyggingar annars staðar á landinu en á suðvesturhorninu. Ljóst er að fjöldinn allur af erlendum bönkum starfa að ákveðnum verkefnum. Þar höfum við alls konar fyrirmyndir sem áður segir.

Eru viðskiptavinirnir til fyrir bankana?

     Vel má hugsa sér að yfirstjórn hins nýja Landsbanka, sem yrði áfram algjörlega í eigu okkar allra, verði að hluta til skipuð fulltrúum landsbyggðarkjördæmanna. Og að hinu leytinu fulltrúum starfsfólks bankans. Aukin áhrif starfsmanna á stjórn og stefnu bankans gætu orðið til mikilla bóta. Í dag virðast menn forðast það eins og heitan eldinn að starfsfólkið komi þar við sögu.

   „Nú er ný sala banka framund­an  og fjár­mála­kerfi framtíðar­inn­ar á Íslandi í mót­un, en umræðan er inni­halds­lít­il og heyr­ist varla.“ Svo seg­ir Kristrún Heimisdóttir í Mogganum og er umhugsunarefni. Undirritaðir hafa kannski ekki mikið vit á bankamálum frekar en margir aðrir. Og þó. Við þekktum sparisjóðakerfið nokkuð vel. Við vitum að almennilegur banki þarf að vinna fyrir viðskiptavini sína eins og þeir gerðu. Við bendum á að það þarf að skilgreina Landsbankann á svipaðan hátt. Við teljum að með þeim vendingum yrði til ný, áhrifarík byggðastefna.  
 

   Svo er allt í lagi að nefna, að upplagt væri að hinn nýi Landsbanki hefði forgöngu um að afnema bankaleynd  af vissum bankagjörningum. Allir mestu fjárglæframenn sögunnar hafa haft bankaleyndina fyrir skjöld og brynju. Er ekki tími til kominn að breyta þeirri vitleysu?

   Að lokum: Eru viðskiptavinirnir til fyrir bankana, eða eru bankarnir kannski til fyrir viðskiptavinina? 


« Janúar »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31