02.09.2008 - 00:19 | bb.is
Ný leit að byggðamerki Ísafjarðarbæjar
Bæjarráð Ísafjarðarbæjar hefur falið bæjarstjóra að vinna áfram að því að finna nýtt byggðamerki fyrir sveitarfélagið. Þrátt fyrir opna samkeppni í vetur um nýtt byggðamerki fyrir sveitarfélagið féllst dómsnefnd ekki á að nein tillaga uppfyllti kröfur nefndarinnar. Einhverjir hugmyndasmiðir hafa náð í sínar tillögur en ekki er hægt að senda þær til baka þar sem þær voru sendar til keppni undir dulnefni. Bæjarstjóri hefur því stungið upp á því að auglýsa að það megi ná í tillögurnar á bæjarskrifstofuna. „Það þarf að ljúka þessu máli fá nýtt byggðamerki", segir Halldór Halldórsson bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar í bréfi til bæjarráðs þar sem hann leggur til að farið verði í samkeppni í samræmi við reglur um samkeppni um merki, en slíkar reglur hefur Félag íslenskra teiknara FÍT sett.