22.03.2016 - 08:53 | Vestfirska forlagið,mbl.is
Ný jarðgöng fyrir austan og vestan
Lagt er til í þingsályktunartillögu að samgönguáætlun 2015-2018 að framkvæmdir við jarðgöng á milli Arnarfjarðar og Dýrafjarðar verði boðnar út seint á þessu ári.
Framkvæmdir við jarðgöngin hefjist eftir mitt ár 2017 og að þeim ljúki árið 2020.
Áætlað er að Dýrafjarðargöng muni kosta um 9,2 milljarða króna. Jarðgöngin munu stytta Vestfjarðaveg um 27 kílómetra.
Þá er gert ráð fyrir því að vinna að jarðfræðirannsóknum í væntanlegu gangastæði Seyðisfjarðarganga fari fram á árunum 2015-2018.
Framkvæmdir við Norðfjarðargöng hófust árið 2013 og þeim mun væntanlega ljúka á næsta ári. Jarðgöngin munu kosta um 12,5 milljarða króna, samkvæmt jarðgangaáætlun.