Ný brú á Kirkjubólsá í Dýrafirði risin
Nú er komið að verklokum við nýju brúna á Kirkjubólsá í Dýrafirði. Við fórum og heimsóttum hina vösku brúarsmiði seinni partinn í dag. Að vísu var dottið á myrkur. Það er svo fljótt að detta á þessa dagana. En kom ekki að sök.
Brúarsmíðin hefur bara gengið vel að sögn brúarsmiða. Og það þrátt fyrir að veður hafi verið alls konar. Brúin er úr steinsteypu með stálbitum og timburgólfi. Að sögn fyrirliðans, Vilhjálms Arnórssonar, sem er yfirmaður á staðnum í fjarveru Sigurðar Halls Sigurðssonar brúarsmiðs, fóru 28 rúmmetrar af steypu í brúna. Er það svipað og í meðal íbúðarhús. Þetta er náttúrlega extra sterk steypa, en 400 kg af sementi fóru í rúmmetrann. Reiknað er með að jafnvel verði hægt að aka yfir brúna, fimmtudaginn 10. des.
Nú er bara spurningin hvort þessi brú fær nafn eins og Liljubrúin í Mosdal, sem var byggð af sömu köppum um daginn
Ljósmyndirnar tók H. S.