A A A
  • 1954 - Fríður Jónsdóttir
  • 1957 - Sigurður Rúnar Jónsson
27.12.2011 - 22:25 | JÓH

Ný bók um þjóðhetjuna úr Arnarfirði

Arfleið Jóns Sigurðssonar er rakin með nýstárlegum hætti.
Arfleið Jóns Sigurðssonar er rakin með nýstárlegum hætti.
« 1 af 2 »
Páll Björnsson, sagnfræðingur og dósent í nútímafræði við Háskólann á Akureyri, skrifaði nýverið bók um Jón Sigurðsson sem ber heitið Jón forseti allur? Táknmyndir þjóðhetju frá andláti til samtíðar. Páll er meðal annars ættaður úr Arnarfirði og í bókinni kemur Hrafnseyri talsvert við sögu. Bókin fjallar um Jón Sigurðsson og arfleifð hans með nýstárlegum hætti því að saga hans er rakin frá því hann lést í Kaupmannahöfn árið 1879 og til 200 ára afmælis hans á þessu ári. Bók Páls er tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna 2011 í flokki fræðibóka og rita almenns efnis en verðlaunahafar verða valdir um mánaðarmótin janúar/febrúar á komandi ári.

Jón Sigurðsson hefur oftsinnis verið vegsamaður frá því hann lést. Honum hefur verið líkt við sjálfa sólina og hann kallaður ókrýndur konungur landsins, besti sonur þjóðarinnar og frelsari manna. Dæmi um slíkt eru orð sem Matthías Ólafsson, alþingismaður og kaupmaður í Haukadal, lét falla í hátíðarræðu á Hrafnseyri 17. júní 1911. Hann sagði m.a.: „Allar þjóðir leggja rækt við staði þá, sem ágætismenn þeirra eru bornir. Það á að vera helgur minningarvöllur. Ítalir segja: Sjáið Neapel og deyið síðan! Orðtak Íslendinga á að vera hið sama: Sjáið Hrafnseyri og deyið svo! Takið yður dæmi Jóns Sigurðssonar til eftirbreytni, hvað fádæma ósérplægni og óeigingirni snertir, af því að það er að verða fágætara nú á tímum. Minning Jóns Sigurðssonar veri oss öllum sá eldstólpi, er lýsi oss úr ómennsku og dáðleysi inn á land farsældar og menningar." Í bókinni er greint frá því hvernig Hrafnseyri var byggð upp sem minningarreitur, t.d. með nýrri skólabyggingu sem vígð var 1961, minningarkapellu sem tekin var í notkun 1980 og með fæðingarbæ Jóns Sigurðssonar sem lokið var við 1997. Hér koma margir við sögu, t.a.m. fjölskylda Ásgeirs Ásgeirssonar forseta.

Í bókinni er sýnt fram á með hve fjölbreyttum hætti Jón forseti hefur verið notaður sem sameiningartákn á landsvísu, hvernig minningarnar um hann hafa gengið í endurnýjun lífdaga með hátíðahöldum, sögusýningum, kveðskap, bókaútgáfu, minjagripum og myndverkum. Því er t.d. lýst hvernig 17. júní varð að hátíðisdegi, nýjum þjóðhátíðardegi Íslendinga, löngu áður en lýðveldi var stofnað 1944. Þá er fjallað um það á hvern hátt stjórnmálamenn, félagasamtök, fjölmiðlar, fyrirtæki og almenningur hafa nýtt sér táknmynd Jóns, hver með sínum hætti. Stjórnmálaflokkarnir hafa nánast allir, svo dæmi sé tekið, talið sig vera arftaka Jóns Sigurðssonar. Þá hefur Jón verið notaður í ýmis konar baráttumálum meðal þjóðarinnar, t.d. bæði með og á móti inngöngu Íslands í Evrópusambandið.

Fjölmörg minnismerki hafa verið reist um Jón, flest í Reykjavík. Í bókinni er uppbygging þeirra rakin, en stundum varð sú atburðarás óvænt. Mætti í því sambandi nefna fyrsta minnismerkið sem reist var á gröf Jóns í kirkjugarðinum við Suðurgötu 1881. Það reyndist vera miklu þyngra en nokkurn hafði órað fyrir og þurfti því að taka líkkistur Jóns og Ingibjargar upp og geyma í líkhúsi bæjarins um skeið, á meðan gröfin var hlaðin upp á nýtt.

Loks má geta að í bókinni eru birtar niðurstöður spurningakönnunar sem höfundur lét gera árið 2009. Þar kom fram að yfirgnæfandi meirihluti landsmanna taldi mikilvægt að halda minningu Jóns Sigurðssonar á lofti. Hins vegar reyndist þekkingin á Jóni misgóð. Rúmur helmingur landsmanna taldi hann vera þekktastan fyrir þátt sinn í sjálfstæðisbaráttunni en aðeins örfá prósent vissu hins vegar af hverju hann hafi fengið viðurnefndið „forseti". Nærri fimmtungur landsmanna taldi það koma til af því að hann hafi verið fyrsti forseti lýðveldisins.

Bókin er gefin út með styrk frá Afmælisnefnd Jóns Sigurðssonar. Við vinnslu hennar átti höfundur gott samstarf við núverandi og fyrrverandi staðarhaldara á Hrafnseyri og Héraðsskjala- og Ljósmyndasafnið á Ísafirði.
« Desember »
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31