A A A
  • 1958 - Helga Sigurrós Bergsdóttir
  • 1976 - Gunnar Ragnar Hjartarson
  • 1993 - Karín Mist Kjerúlf
30.06.2014 - 07:42 | Vestfirska forlagið

Ný bók að vestan: Hornstrandir og Jökulfirðir 3. bók

« 1 af 3 »

Vestfirska forlagið hefur nú gefið út 3. bókina í ritröðinni Hornstrandir og Jökulfirðir, ýmsar frásagnir af horfnu mannlífi. Mikið er um gömul viðtöl við Hornstrendinga í þessari bók, einkum konurnar. Margt er dregið fram sem löngu er fallið í gleymsku og dá, en allir hafa gott af að rifja upp. Hallgrímur Sveinsson tók saman.

  
Meðal efnis má nefna hressilegt og viðamikið viðtal Finnboga Hermannssonar við Huldu Margréti Eggertsdóttur í Bolungarvík. Stefanía Guðnadóttir segir frá nærri óyfirstíganlegum erfiðleikum sem var við að eiga þegar unga fólkið vildi gera sér glaðan dag og hittast á vetrum. Jóhanna Hrafnfjörð, ljósmóðir frá Hrafnfjarðareyri, segir frá lífi sínu. Dagbók unglings frá 1889, sem enginn veit hver var, er ótrúleg samtímaheimild. Ekki hefur hann gengið í annan skóla pilturinn sá en hinn harða skóla lífsins á Hornströndum. Viðtal er við Sigmund Guðnason frá Hælavík, Skáldið af Hornströndum, sem Óskar Aðalsteinn vitavörður skráði. Birtur er 1. hluti ferðasögu Þorvaldar Thoroddsen frá Hornströndum 1886-1887, eitthvað það merkilegasta sem um þennan landshluta hefur verið ritað. Svo er meira að segja sagt frá því er Hornstrendingar lærðu skylmingar og loks skal nefna 3. hluta frásagnar um Hall á Horni sem Gísli Konráðsson tók saman.  


   Nú eru ýmsir farnir að tala um að svo kunni að fara að Hornstrandir og Jökulfirðir muni  kannski byggjast aftur. Hver veit. Svo mikið er þó víst að þessi harðbýlasti hluti Íslands er í tísku þessi misserin. Þangað vilja allir komast sem vettlingi geta valdið. En þá er ekki verra að fólk hafi einhverja nasasjón af sögu þeirra sem þarna ólu aldur sinn í gegnum tíðina við yzta haf. Vestfirska forlagið leggur þar hönd á plóg með útgáfu umræddra bóka.

« Janúar »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31