A A A
  • 1950 - Árni Ásbjörn Jónsson
  • 1962 - Siggeir Stefánsson
12.06.2016 - 06:50 | Vestfirska forlagið,Land og saga

Núpur í Dýrafirði

Núpur í Dýrafirði þann 6. júní 2016. Ljósm.: BIB
Núpur í Dýrafirði þann 6. júní 2016. Ljósm.: BIB
« 1 af 5 »

Núpur við Dýrafjörð er fornt höfuðból og höfðingjasetur í aldaraðir. Á bænum sátu löngum auðugir valdamenn og voru margir þeirra mikilsmetnir höfðingjar. Einn frægasti ábúandinn var Eggert Hannesson (1550-1583), hirðstjóri og síðar lögmaður. Hann var einn valdamesti og ríkasti maður á landinu, þar til hann flutti alfarinn til Hamborgar í Þýskalandi.

 

Undir lok 16. aldar bjó Gissur Þorláksson á Núpi, bróðursonur Gissurar Einarssonar Skálholtsbiskups. Hann var giftur Ragnheiði, dóttur Staðarhóls-Páls. Gissur fórst ungur í snjófljóði á Hrafnseyrarheiði og bar séra Sveinn Símonarson, prestur í Holti, ekkjunni andlátsfregnina. Er hann hafði sagt henni tíðindin á hún að hafa spurt hvort hann gæti í engu glatt sig. Þá mun séra Sveinn hafa beðið hana um að verða konan sín, sem hún og gerði. Sonur þeirra, Brynjólfur, varð seinna biskup í Skálholti.

 

Sonur Gissurar Þorlákssonar, Jón að nafni, fluttist að Núpi eftir að hafa lært gullsmíði í Hamborg. Jón var mikill fræðimaður og skrifaði upp fjölda sögubóka sem hafa varðveist í handritum.

 

Á Núpi er kirkjustaður og er fært í annála að aftakaveður sem gekk yfir meginhluta landsins í ársbyrjun 1881 hafi tekið þá nýsmíðaða kirkju á Núpi af grunni og feykt hátt í loft upp. Við það hafi hún brotnað svo verklega í spón að varla hafi fundist úr henni heil spýta.

 

Á Núpi tók til starfa unglingaskóli í janúar 1907 að frumkvæði bræðranna Kristins og séra Sigtryggs Guðlaugssona. Honum var síðan breytt í héraðsskóla 1927 er lög um slíkar stofnanir tóku gildi. Starfaði hann allt til 1992. Séra Sigtryggur var mikill framkvæmdamaður. Hann kom m.a. upp fallegum garði á Núpi sem heitir Skrúður og þar hefur verið reist stytta til minningar um hann og konu hans.

 

Á Núpi er hótel og góð gistiaðstaða fyrir ferðamenn auk veitingaþjónustu.

Til Þingeyrar við Dýrafjörð og Flateyrar við Önundarfjörð er um 20 mínútna akstur og það tekur innan við hálftíma að keyra til Ísafjarðar um Vestfjarðargöngin.

« Desember »
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31