Núpsskóli til sölu eftir sex ára bið
• Hlé gert á söluferli í árslok 2010 og nefnd skipuð um aðkomu ríkisins að eignunum • Nefndin virðist ekki hafa skilað niðurstöðu • Engin skilyrði af hálfu ríkisins um framtíðarhlutverk skólahúsnæðisins
Þrjár byggingar ríkisins, sem áður hýstu héraðsskólann að Núpi í Dýrafirði, eru nú auglýstar til sölu. Söluferli eignanna hefur verið í biðstöðu síðan árið 2010. Þá skipaði þáverandi mennta- og menningarmálaráðherra, Katrín Jakobsdóttir, nefnd sem gert var að setja fram hugmyndir um framtíð eigna og aðstöðu ríkisins á staðnum.
Fjármálaráðuneytið fól Ríkiskaupum að annast sölu eignanna í febrúar í fyrra. „Við höfum verið að vinna í undirbúningi síðan þá, það hefur tekið heilt ár,“ segir Halldór Ó. Sigurðsson, forstjóri Ríkiskaupa.
Hann segir tímafrekt að ganga frá ýmsum formsatriðum er snúa að sölu ríkiseigna sem þessara. Enn eru ekki öll smáatriði frágengin og enn á eftir að þinglýsa lóð undir eitt húsanna. „Þetta tekur oft bara svo gríðarlega langan tíma,“ segir Halldór ennfremur.
Engin skilyrði um starfsemi
Ríkið setur engin skilyrði um það hverskonar starfsemi væntanlegir kaupendur gömlu skólabygginganna muni stunda, en gistiheimili og veitingarekstur er í hluta húsnæðisins að Núpi í dag.
Að sögn Halldórs eru stundum sett slík skilyrði þegar álíka ríkiseignir eru seldar. „Til dæmis þegar við vorum að selja Héraðsskólann á Laugarvatni. Þá voru sett ákveðin skilyrði, en það hefur ekki verið gert varðandi þessa sölu.“
Hann þekkir ekki störf nefndarinnar sem falið var að gera úttekt á mögulegri framtíðaraðkomu ríkisins á Núpi. „Það er svo oft þannig að það koma upp einhverjar hugmyndir um hvað hægt sé að gera og mál fara í bið út af því, en svo er kannski ekki neinn grundvöllur fyrir hugmyndinni,“ segir Halldór.
Störf nefndarinnar óljós
Katrín Jakobsdóttir var mennta- og menningarmálaráðherra er söluferlið var sett í biðstöðu fyrir tæpum sjö árum síðan. Hún segir Núp vera merkan stað í skólasögu Íslendinga.
„Það var mikill áhugi fyrir því hjá heimamönnum að þeirri sögu yrðu gerð skil á þessum stað,“ segir Katrín í samtali við Morgunblaðið.
Hún segir að hún teldi eðlilegt að hið opinbera skoðaði hvað það gæti gert til að styðja með öflugri hætti við menningu og sögu, ekki síst á svæðum sem eiga undir högg að sækja varðandi mannfjöldaþróun.
„Það var sýn Vestfirðinga að þarna mætti byggja upp einhverskonar aukarekstur sem yrði til leigu, en einnig að sögunni og menningararfleifðinni yrðu gerð skil, sem mér fannst mjög góð sýn fyrir þennan stað,“ segir hún.
Katrín segir að hún muni ekki hvort nefndin, sem skipuð var árið 2010, hafi skilað tillögum um framtíðaraðkomu hins opinbera að fasteignunum að Núpi. Samkvæmt fyrirspurn Morgunblaðsins til mennta- og menningarmálaráðuneytisins virðist svo ekki vera. Ekkert í skjalasafni ráðuneytisins bendi til þess að nefndin hafi skilað niðurstöðu.
Guðmundur Ástvaldsson, umsjónarmaður fasteigna ríkisins að Núpi, segir engan hafa haft samband við sig enn til að fá að skoða eignirnar. Þó viti hann til þess að Hollvinir Núpsskóla hafi lengi haft hug á því að eignast elsta húsnæði héraðsskólans fyrrverandi, sem byggt var árið 1931.
Morgunblaðið þriðjudaginn 18. júlí 2017.