A A A
  • 2009 - Sigmundur Logi Þórðarsson
15.03.2017 - 16:59 | Vestfirska forlagið,Hallgrímur Sveinsson

Nú falla vötn öll til Dýrafjarðar: - Sjónvarpsmynd varð ekki að veruleika

Hemmi með Unni fóstru sinni og Lubbu litlu. Ljósm. :H. S.
Hemmi með Unni fóstru sinni og Lubbu litlu. Ljósm. :H. S.

Það er líklega óhætt að segja frá því núna, að árið 2008 vorum við Hemmi Gunn komnir á fremsta hlunn með að hleypa af stokkunum heimildarmynd fyrir sjónvarp um Dýrafjörð. Vinnuheiti hennar var: Nú falla vötn öll til Dýrafjarðar. Fyrstu drög að handriti lágu fyrir um haustið og kostnaðaráætlun klár. Búið að ræða við toppmenn í faginu og byrjað skrapa saman pening í djammið. Þetta var korteri fyrir hrun, þegar við Íslendingar ætluðum að gleypa allt og eitt stykki sól með. Og þar með lauk þessum spekúlasjónum okkar Hemma. Sem kannski voru loftkastalar!

   Hvað sem um það má segja núna, þá er út af fyrir sig gaman að rifja þetta upp. Þó ekki sé til annars en heiðra nafn okkar góða vinar sem hvarf alltof fljótt af vettvangi. Munum við birta hér á Þingeyrarvefnum nokkra valda kafla úr handritinu, ef einhver skyldi hafa gaman af að skoða slíkt.

Og hefst nú birtingin:  

 

Nú falla vötn öll til Dýrafjarðar 

 Mannlíf og saga fyrir vestan

 

       Hemmi Gunn kynnir slóðir æsku

                   sinnar og forfeðra

 

 

Sjónvarps- og kynningarmynd í tveimur hlutum um Dýrafjörð í fortíð, nútíð og framtíð,  40 – 50 mín hvor hluti.

   Áætlaður undirbúnings- og framleiðslutími apríl 2008-okt. 2009.

                  Fyrri hluti

        Fyrstu drög að handriti

 

 

Kynning á handriti og innleiðing:

 

Mynd þessi er í tveimur hlutum. Hvor hluti verði 40 - 50 mínútna langur. Er hún jafnvel hugsuð sem upphaf að myndaseríu um Vestfirði í hnotskurn. Tilgangur seríunnar er að kynna Vestfirði fyrr og nú frá sem flestum sjónarhornum.

   Reiknað verður með að myndin gangi til sýningar í sjónvarpi hvar sem er hvað gæði snertir. Efnistök, mynd- og hljóðgæði verði 1. flokks.

   Enskur texti og e.t.v. á Norðurlandamálunum verði settur við kvikmyndina til sýningar erlendis. Seld á almennum markaði.

   Lögð verði höfuð áhersla á að myndin hafi eitthvað að segja og skilji sitthvað eftir í huga áhorfandans, en húmor og léttleiki verði undirtónninn og svífi hvarvetna yfir vötnum þar sem því verður við komið. Gamansögur, bæði gamlar og nýjar úr Dýrafirði, hafðar á takteinum og reynt að láta viðmælendur fara með slíkt. En öllu gamni fylgir nokkur alvara í lífinu almennt og verður það að koma fram í myndinni. Semsagt: Landafræði og saga frá sem flestum sjónarhornum. Lögð verði áhersla á að bæði verði teknar vetrar-og sumarmyndir af landslagi og staðháttum. (Stytt)

 

Framleiðandi: Vestfirska forlagið

Fararstjóri og sögumaður: Hemmi Gunn

Handrit: Hallgr. Sveinsson.

 

 

« Janúar »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31