A A A
  • 2009 - Sigmundur Logi Þórðarsson
20.03.2017 - 07:12 | Vestfirska forlagið,Hallgrímur Sveinsson

Nú falla vötn öll til Dýrafjarðar - 6. hluti

« 1 af 3 »

Rétt er að rifja það upp, sem við sögðum frá um daginn, að árið 2008 vorum við Hemmi Gunn komnir á fremsta hlunn með að hleypa af stokkunum heimildarmynd fyrir sjónvarp um Dýrafjörð. Hefur þetta verið hálfgert leyndarmál fram að þessu. Vinnuheiti myndarinnar var: Nú falla vötn öll til Dýrafjarðar. Fyrstu drög að handriti lágu fyrir um haustið og kostnaðaráætlun klár. Búið að ræða við toppmenn í faginu og byrjað að skrapa saman pening í djammið. Þetta var korteri fyrir hrun. Með því lauk þessum spekúlasjónum okkar Hemma. Sem kannski voru bara loftkastalar!

   Hvað sem um það má segja núna, þá er út af fyrir sig gaman að rifja þetta upp. Þó ekki sé til annars en heiðra nafn okkar góða vinar sem hvarf alltof fljótt af vettvangi. Höfum við verið að birta á Þingeyrarvefnum nokkra valda kafla úr handritinu. Margir hafa haft mikla ánægju af þessu uppátæki okkar Hemma og er það vel. Þetta var heilmikil vinna sem sést best á því að við erum ekki komnir lengra í þessari upprifjun en í Keldudal og hefst hér nú 6. hluti:  

 

         12. sena

 

Barnaskólinn í Keldudal.

 

Texti:

 

Þótt ótrúlegt sé voru um skeið reknir sjö barnaskólar í Þingeyrarhreppi. Fyrir utan skólann á Þingeyri voru reknir farskólar, sem kallaðir voru, hér í Keldudal, Haukadal, Hofi, Brekku, Hvammi og Ketilseyri. Skólarnir sérstakt athugunarefni.

   Við erum nú stödd í Barnaskólanum í Keldudal á bökkum Langár.

   Þetta skólahús var byggt árið 1910 og kostaði 2,244, 48 kr. Ekki er vitað hver sá um bygginguna, en talið er að í skólahúsið hafi verið notaður norskur, tilhöggvinn skógarviður, líkt og í margar aðrar byggingar í Dýrafirði á þeim tíma. Börn frá bæjunum í Keldudal, Höfn og Svalvogum sóttu þennan skóla og var viðhöfð svokölluð skiptikennsla. Nemendur voru hálfan mánuð í skólanum og hálfan mánuð heima og var þá sett fyrir ákveðið námsefni, sem kennarinn hlýddi þeim yfir næst þegar komið var í skólann. Kennt var í skólahúsinu fram undir 1950 og mun nemendafjöld hafa verið þetta 10 til 12 að jafnaði, þegar flest var.

   Ekki leynir sér að vel hefur verið vandað til byggingarinnar. Húsið má þó muna sinn fífil fegri, því lengi hefur það verið opið fyrir veðri og vindum.

    (Innskot. Endurbygging skólahússins mun nú vera hafin)

 

Mannlíf og saga, 5. hefti, bls. 43 – 50, kemur svífandi, annaðhvort á borð eða stöðvast í mynd.

 

Sagan:

 

Skarphéðinn Össurarson, faðir Össurar og Magnúsar, skrifar um Keldudalsskólann og veru sína í honum í Mannlíf og saga fyrir vestan. Skarphéðinn segir meðal annars svo frá:

 

„Skarhéðinn, þú ættir að skammast þín“

 

Hann var tiltölulega einfaldur að gerð. Járnklætt timburhús , sem sneri frá norðri til suðurs, með fjóra stóra glugga á austurhliðinni sem snéri að Arnarnúpnum. Hann bar „höfuð og herðar” yfir aðrar byggingar í dalnum; stærri, reisulegri og fegurri heldur en þær. Mér finnst enn, að ekkert hafi vantað í hann, þrátt fyrir einfaldleika hans. Hann stóð á steinsteyptum sökkli, með risi og dálítilli rislaga útbyggingu mót suðri, sem við kölluðum „bíslag” að vestfirskum sið. Smá kjallarahola var undir honum, þar sem kolin voru geymd til upphitunar, því að kolakynntur ofn var í skólastofunni.

   Síðasta veturinn sem ég var í skólanum, fór ég í kynnisferð niður í kjallarann og telpukind með mér. Þegar niður kom, varð hún auðvitað hrædd við myrkrið, svo ég brá á það ráð að halda í hendina á henni, á meðan okkur var að birta fyrir augum, því einhverja skímu lagði þar inn.

   Þá grípur hún allt í einu í handlegginn á mér og segir:

   “Skarphéðinn, þú ættir að skammast þín.”

   „Já”, sagði ég skjálfraddaður og þaut upp. Stundum síðan hef ég oft gælt við það, hvort þetta hafi verið fyrsta ástin.”

 

Ljósmynd af Skarphéðni kemur svífandi. 

Ath. Össur og Magnús.

 

Sagan:

 

                   Prófdómarinn tuggði skro

 

Sigurður Fr. Einarsson, kennari á Þingeyri, var lengi prófdómari við farskólana í sveitinni, þar á meðal í Keldudal. Guðmundur Sören segir svo frá í Mannlífi og sögu:

 

   “Sigurður var stórmyndarlegur og virðulegur karl. Hann tuggði skro. Ég minnist þess, að eitt vorið, þegar hann var að prófa okkur, sat hann við kennarapúltið, eins og hann var vanur. Í enda stofunnar var kolaofn, vel heitur. Allt í einu stendur prófdómarinn upp og spýtir út úr sér stórum slump af munntóbakslegi, eftir endilangri stofunni. Lögurinn lenti beint á belgnum á ofninum þar sem hann var heitastur og þar snarkaði og sauð í honum, þar til hann brann upp.

   Óttablandin virðing okkar fyrir prófdómaranum varð ekki minni eftir þetta afrek hans, sem framkvæmt var á meistaralegan hátt.”

 

Ljósmynd af Sigurði.

 

Göngubrú yfir Langá:

 

Vélin gengur

 

Texti:

 

Upp úr 1940 var byggð mjög vönduð göngubrú á Langá fyrir nemendur Keldudalsskóla. Það sýna steyptir brúarstöplar sem enn standa og leyfarnar af brúarhandriðinu.

« Janúar »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31