A A A
  • 1954 - Fríður Jónsdóttir
  • 1957 - Sigurður Rúnar Jónsson
17.05.2011 - 21:28 | bb.is

Norrænt sagnaþing að Núpi

Núpur í Dýrafirði.
Núpur í Dýrafirði.
Norrænt sagnaþing verður haldið að Núpi í Dýrafirði í sumar. „Í heila viku í lok júlí ætla norrænir sagnaþulir að sitja saman í vestfirskri náttúrufegurð og ræða um listina að segja sögu. Þetta er í nítjánda sinn sem norrænt sagnaþing er haldið og í annað sinn hér á landi. Núpur í Dýrafirði hentar einkar vel til þessa, á miðju sögusviði Gísla sögu Súrssonar. Þar verða haldin námskeið og sagðar sögur á norrænum tungum og reyndar líka ensku því meðal leiðbeinenda eru reyndir sagnamenn, rithöfundar og leikarar frá Noregi, Svíþjóð, Danmörku, Íslandi og Bretlandseyjum," segir í tilkynningu.

 

Sagnalistin hefur fylgt manninum lengi en á undanförnum árum hefur hún notið æ meiri athygli. Það stafar ekki síst af því að menn komust að þeirri niðurstöðu að listin að segja sögu er grunnur allra bókmennta. Íslendingasögurnar eru fyrst og fremst tilraun til að festa á blað þær sögur sem þjóðin hafði verið að segja allt frá landnámi.

 

„Sagnamannakvöld hafa notið vaxandi vinsælda og þar hafa sprottið upp góðir sagnamenn sem áður létu sér nægja eldhúsborð eða lúkar sem vettvang. Svo hafa menn komist að því að sagan er til ýmissa hluta nytsamleg. Hana má nota sem miðlun á reynslu og þekkingu til nýrra kynslóða, hún er listform sem nýta má við uppeldi og í atferlismeðferð og síðast en ekki síst er hún skemmtileg," segir í tilkynningu.

 

„Sagnaþulur/þula les ekki sögu heldur er sagan eigin upplifun, lærð af bók eða munnmælum og síðan túlkuð og gefin áfram. Saga sagnaþular er því aldrei eins. Hún getur breyst eftir því hverjum hún er sögð, hverjar aðstæður eru þegar hún er sögð, og jafnvel hvernig liggur á þeim sem segir söguna í það og það skiptið."

 

Á norrænu sagnaþingunum sitja menn á námskeiðum á daginn og njóta leiðsagnar kennara en á kvöldin eru sagðar sögur, hlustað á sögur, sungið og glaðst í góðum hópi. Þingið fer fram dagana 24.-30. júlí. Það er sett á sunnudegi, námskeið hefjast á mánudegi og þeim lýkur á föstudagskvöldi með hátíðarkvöldverði. Haldið er heim eftir morgunverð á laugardegi. Um miðja vikuna verður farið í skemmtiferð með leiðsögn á söguslóðir Gísla Súrssonar.

 

Námskeið, kvöldvökur, fullt fæði og gisting í tveggja manna herbergjum er innifalið í þátttökugjaldinu. Umsókn og greiðsla þarf að hafa borist fyrir 24. júní. Athugið að takmarkaður fjöldi þátttakenda er á hvert námskeið. Þing norrænna sagnaþula er styrkt af Menningarráði Vestfjarða og Nordisk kulturfond.

« Desember »
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31