Náði tengingu við fyrra líf í Dýrafirði
Óttarr Proppe, alþingsmaður Bjartar framtíðar og f.v. borgarfulltrúi í Reykjavík, var í ágætu viðtali í helgarblaði Fréttablaðsins um síðustu helgi.
Þar var hann m.a. spurður um æsku sína en Óttarr er afkomandi Ólafs Proppés alþingismanns Vestur-Ísfirðinga 1919 - 1923. Ólafur bjó á Þingeyri og var forstjóri Þingeyrarverslunar 1914—1920.
Óttarr var m.a. spurður:
Hvaðan ertu og hvernig var æska þín?
"Ég var alinn upp í Hafnarfirði og Bandaríkjunum til skiptis þegar foreldrar mínir voru þar við nám. Síðan var ég langdvölum í sveit á sumrin á Fellsströnd í Dölum og um leið og ég kem inn í gamla Fellsstrandarhreppinn lifnar í mér heimamaður. Þegar ég kom fyrst í Dýrafjörðinn náði ég líka tengingu við eitthvert fyrra líf. Finnst ég hvergi eiga eins mikið heima eins og undir vestfirskum fjöllum, nema ef vera skyldi á Manhattan.
Eftir á séð var æskan fjölbreytt og spennandi. Ég upplifði bæði að kynnast og vinna með gömlu fólki sem mundi nítjándu öldina og líka fólki héðan og þaðan úr heiminum. Þegar byltingin í Íran stóð yfir var besti vinur minn í bekknum í Ameríku frá Teheran svo maður tengdi ungur við heimsmálin beint. Mestalla æskuna beið ég óþreyjufullur eftir að henni lyki svo ég gæti farið að "gera eitthvað". Ég bý eiginlega við þá óþreyju ennþá."
Hvað gerir þú helst um helgar?
"Oftar en ekki reyni ég að bæta mér upp tapaðan svefn og lesa eitthvað ólesið. Velheppnuð helgi er þegar maður kemst eitthvað í músík. Spilerí eða góð æfing yngir mann um nokkur ár."
Býrðu yfir lífsreynslusögu?
"Ég er þeirri náttúru gæddur að vera alltaf að bíða eftir lífsreynslu og velti mér ekki mikið upp úr því sem er liðið. En undanfarið hef ég mikið hlustað á svokallað iðnaðarrokk, prog-skotið gæða-popprokk sem var áberandi í Bandaríkjunum og Kanada á árunum fyrir og eftir 1980. Þegar ég var um tvítugt var ég með foreldrum mínum í Urbana Illinois í Bandaríkjunum að heimsækja gamla prófessora föður míns. Einn þeirra hélt garðveislu og þar hitti ég uppkominn prófessorsson sem hafði heyrt af hljómsveitabralli mínu og við tókum tal saman. Þá kom í ljós að hann var snartengdur REO Speedwagon og hafði pródúserað með þeim plötur. Hann dró mig ofan í kjallara hjá foreldrum sínum og fann þar gullplötur og þvíumlíkt dót sem hann hafði sett þar í geymslu og fannst ekkert merkilegt. Þetta þótti ungum bílskúrspönkara stórmerkilegt og til eftirbreytni. Þessi lífsreynsla hefur leitað á mig undanfarið þó hún sé í sjálfu sér ekkert merkileg. Ómerkilegasta reynslan hefur oft mest áhrif á lífið og það er það sem er svo gaman."
Fréttablaðið.
Óttarr Proppé
Fæddur í Reykjavík 7. nóvember 1968. Foreldrar: Ólafur J. Proppé (fæddur 9. janúar 1942) fyrrverandi rektor Kennaraháskóla Íslands og Pétrún Pétursdóttir (fædd 26. ágúst 1942) fyrrverandi forstöðumaður Hafnarborgar, menningar- og listamiðstöðvar, Hafnarfirði. Óttarr er afkomandi Ólafs Proppés alþingismanns. Maki: Svanborg Þórdís Sigurðardóttir (fædd 5. febrúar 1967) bóksali. Foreldrar: Sigurður Guðni Sigurðsson og Elfa Ólafsdóttir.
Lokapróf frá Pennridge High School, Perkasie, Pennsylvania, Bandaríkjunum, 1986.
Starfaði við bóksölu hjá Almenna bókafélaginu, Eymundsson og Máli og menningu 1987-2010. Tónlistarmaður og lagahöfundur með hljómsveitunum HAM, Dr. Spock, Rass og fleiri frá 1988. Leikari, handritshöfundur, hljóðmaður og framleiðandi við kvikmynda- og heimildarmyndagerð af og til frá 1991.
Í stjórn STEF, Sambands tónskálda og eigenda flutningsréttar, frá 2008. Í stjórn Besta flokksins í Reykjavík frá 2010. Í borgarstjórn Reykjavíkur 2010-2013. Í borgarráði 2010-2013. Í stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga 2010-2013. Fulltrúi á sveitarstjórnarvettvangi EFTA 2010-2013. Í stjórn Bjartrar framtíðar frá 2012.
Alþingismaður Reykjavíkurkjördæmis suður síðan 2013 (Björt framtíð).
6. varaforseti síðan 2013.
Utanríkismálanefnd 2013-.
Ólafur Proppé
F. í Hafnarfirði 12. maí 1886, d. 18. des. 1949. For.: Claus Eggert Dietrich Proppé (f. 24. júlí 1839, d. 14. sept. 1898) bakari þar og k. h. Helga Jónsdóttir Proppé (f. 23. sept. 1848, d. 17. okt. 1925) húsmóðir. K. (2. júní 1910) Áslaug Jónasdóttir Proppé (f. 19. maí 1887, d. 4. sept. 1952) húsmóðir. For.: Jónas Thorsteinsson Hall og k. h. Jóna Ingibjörg Örnólfsdóttir. Börn: Nanna (1912), Claus Eggert Dietrich (1914), Óttarr (1916), Styrmir (1918), Camilla Elín (1923), Kolbrún (1925).
Gagnfræðapróf Flensborg 1900. Verslunarnám í Edinborg.
Verslunarmaður í Reykjavík og Ólafsvík til 1906. Verslunarstjóri á Hellissandi 1906—1914. Meðstofnandi firmans Bræðurnir Proppé 1914, forstjóri Þingeyrarverslunar þess 1914—1920, útflutningsstjóri firmans í Reykjavík 1920—1926. Hóf þá eigin kaupsýslu þar og rak fiskútflutningsverslun til 1932. Meðstofnandi Sölusambands íslenskra fiskframleiðenda 1932, varð þá einn af forstjórum þess og gegndi því starfi til æviloka. Fór árlega verslunarferðir til Suðurlanda og Bandaríkjanna 1920—1946. Aðstoðarmaður Sveins Björnssonar sendiherra 1936 í milliríkjasamningum við Ítali og Grikki.
Alþm. Vestur-Ísfirðinga 1919—1923 (utan flokka, (Heimastjórnarflokkurinn), Utanflokkabandalagið, Sparnaðarbandalagið).