NOKKUR FRÓÐLEIKSKORN AÐ VESTAN
Bílfært vegasamband komst á milli Önundarfjarðar og Dýrafjarðar 18. september 1934. Að vegagerð höfðu unnið 30-40 manns um sumarið. Dýrasti vegarkaflinn var frá Vífilsmýrum að Bjarnardalsá í Önundarfirði, kostaði hver metri 5-6 krónur en annars staðar 3 kr. Unnið var fyrir kr. 40.000.-. Héraðsbúar keyptu ríkisskuldabréf fyrir nærri helming þeirrarupphæðar og er áhugi þeirra sagður lofsverður og ætti að vera öðrum til eftirbreytni. "Eru bifreiðar teknar að þjóta milli fjarðanna" segir í Ísafjarðarblöðum.
Næsta sumar er akvegur kominn upp fyrir Kerlingarhól áleiðis til Ísafjarðar. Tímakaup í vegagerðinni var 90 aurar og sóttu miklu fleiri um vinnu en hægt var að koma að, einkum fyrir slátt.
Lýður verkstjóri telur að vegasambaand yfir Breiðadalsheiði fáist næsta sumar ef til verksins fáist þrjátíuþúsund krónur. Þetta varð. Akfært orðið til Ísafjarðar 7. september 1936.
Lýður var yfirverkstjóri vegagerðar í Ísafjarðarsýslum mörg ár. Hann hafði umsjón með vegagerð allt frá Ísafjarðardjúpi og suður yfir Dynjandisheiði að sýslumörkum Barðastrandarsýslu.
Ég var einn af " strákunum hans Lýðs" Okkur þótti öllum vænt um hann, alúðlegur sem hann var og gamansamur. Margt er minnisstætt. Til dæmir þegar hann sendi okkur tipparana inn að Hesti í Önundarfirði til að hjálpa fólkinu þar sem mikið hey lá flatt og rigning í aðsigi. Þetta var sumarið 1955 " Óþurkasumarið mikla" --"Það verður ekki dregið af kaupinu ykkar "
Að lokum gamansaga af Lýð. Lýður og pabbi (Hjörtur Hjálmarsson, skólastjóri á Flateyri) voru miklir mátar og var upphaf vináttunnar atvik sem varð í Reykhólasveit þegar pabbi átti heima á Miðhúsum. Einu sinni kom Lýður í heimsókn, drepur á dyr en ekki er svarað Stóð þá þannig á að enginn var heima nema afasystir mín, gestkomaandi. Hún fór loks til dyra og þar stendur maður sem segir; "Ég ætlaði að fara að snúa frá, hélt að enginn væri heima" -- Afasystir svarar; " Ég var ekkert að flýta mér til dyra, maður veit aldrei hvaða lýður er á ferðinni "--" Það er nú Lýður Jónsson í þetta sinn" sagði gesturinn, kímdi og sáust broshrukkur um augu.
Af Facebook-síðu Emils Ragnars Hjartarsonar.