Minjar í Ólafsdal
Hjá Landbúnaðarsafni Íslands er komin út skýrsla um ræktunarminjar í Ólafsdal við Gilsfjörð, sem Ragnhildur Helga Jónsdóttir og Bjarni Guðmundsson unnu í samvinnu við Ólafsdalsfélagið og fyrir atbeina þess með styrk frá Alþingi. Skýrslan gefur hugmynd um þær miklu ræktunarminjar, flestar frá fyrri aldamótum, sem er að finna í Ólafsdal og gera staðinn afar verðmætan í ljósi íslenskrar búnaðarsögu.
Um þetta segir á vef Landbúnaðarsafns Íslands:
Unnið er að almennri fornleifaskráningu í Ólafsdal og mun þessi skýrsla nýtast vel til hennar. Með rölti um Ólafsdal má fræðast um ræktunarhætti á fyrstu árum innlendrar búnaðarfræðslu. Með skýrsluna við hendina er hægt að ganga á margar minjanna og fræðast um hlutverk þeirra og samhengi. Ýmislegt er þó enn órannsakað þar vestra frá brautryðjandastarfi Torfa skólastjóra Bjarnasonar. Standa vonir til þess að það megi gera á næstu árum.
Skýrsluna má sækja hér (pdf)