A A A
  • 1920 - Jón Þ Sigurðsson
  • 1940 - Edda Arnholtz
  • 1992 - Ólöf Guðbjörg Jónasdóttir
  • 2006 - Jóhann Króknes Torfason
  • 2006 - Sigríður Króknes Torfadóttir
31.05.2011 - 11:26 | bb.is

Mikil gleði á skólamóti að Núpi

Fyrrum nemendur, kennarar og starfsfólk Núpsskóla komu saman um helgina. Myndir: Páll Önundarson.
Fyrrum nemendur, kennarar og starfsfólk Núpsskóla komu saman um helgina. Myndir: Páll Önundarson.
« 1 af 3 »
Nemendur, kennarar og starfsmenn Héraðsskólans að Núpi í Dýrafirði komu saman um helgina á fjörutíu ára skólamóti. „Það var gleði alla helgina, mikil ánægja og hlátur út í gegn. Við rifjuðum upp gamlar sögur og atburði sem gerðust á þessum árum og það var ótrúlegt hvað fólk mundi af sögum og skondnum atburðum," segir Benedikt H. Benediktsson elsti nemandinn og veislustjóri á mótinu. Haldin var minningarathöfn um látna nemendur, starfsmenn og kennara sem sr. Kristinn Ágúst Friðfinnsson fyrrum nemi á Núpi stýrði. „Þetta var táknrænn atburður og mjög hátíðleg stund. 31 er látinn úr þessum árgangi og var kveikt á kertum fyrir alla er nöfn þeirra voru lesin upp," segir Benedikt.

Einnig fóru nemendur og skoðuðu Skrúð undir leiðsögn Brynjólfs Jónssonar, fyrrum nemanda við skólann, en hann naut aðstoðar Sæmundar Þorvaldssonar frá Læk.

Hápunktur mótsins var svo sameiginlegt borðhald og skemmtun þar sem tæplega 100 manns voru saman komnir. Bjarni Pálsson fyrrum skólastjóri setti samkomuna og með honum mætti eiginkona hans Vilborg Þorleifsdóttir sem einnig var kennari. Þá lét kennarinn Valdimar Gíslason líka sjá sig. Jóhannes Kristjánsson kom fram og hélt kennarafund þar sem hann lék kennarana við mikla lukku áhorfenda.

Síðan endurvöktu Sigurður Björnsson og Benedikt gömlu skólahljómsveitina. „Við lékum þrjú lög, eitt lag sem var samið um þennan hitting og heitir Gamli skólinn og síðan söng Siggi Björns lagið Helvítis blús sem var samið um veruna í skólanum," segir Benedikt. Að dagskrá lokinni var slegið upp balli þar sem Gunnlaugur Sigfússon stjórnaði tónlistinni sem öll frá þessum árum. Þeir sem lengst héldu út dönsuðu fram á kl. 7 um morguninn.

Benedikt segir alla helgina hafa verið vel heppnaða, allt frá góðu veðri til góðrar þjónustu. „Þeir bræður, Guðmundur og Sigurður Helgasynir, og allt starfsfólkið á Núpi gerðu allt fyrir okkur og allt stóðst 100%," segir hann.

Ákveðið hefur verið að næsta skólamót verði haldið síðustu helgina í maí 2014. „Sigríður J. Valdimarsdóttir frá Núpi og Kristín Jónsdóttir voru driffjaðrirnar í undirbúningsnefndinni fyrir mótið í ár og þær voru báðar kosnar áfram í undirbúningsnefnd fyrir næsta mót," segir Benedikt.

Hann bendir á síðuna nupari.com sem komið hefur verið á koppinn fyrir Núpverja. „Þar eru skráðir um 210 nemendur og skoða má um 700 gamlar myndir og myndbönd. Þessi skemmtun var tekin upp að mestu leiti og til stendur að klippa hana til og setja afurðina á síðuna þegar hún er orðin klár.

« Janúar »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31