Mikil áhrif á íslenskt samfélag
Ný bók um hvalveiðar við Ísland til 1915 eftir Smára Geirsson komin út Upphaf vélvæðingar á Íslandi rakið til veiðanna Umræða um hvalveiðar jafn tilfinningarík fyrir hundrað árum og nú.
»Það er hægt að heimfæra svo margt sem er að gerast á þessum tíma upp á nútímann,« segir Smári Geirsson, höfundur bókarinnar <ská>Stórhvalaveiðar við Ísland til 1915 sem kom út í byrjun mánaðarins, en þá voru liðin hundrað ár frá því að hvalveiðar voru bannaðar við Ísland í fyrra sinn. Smári segir athyglisvert að bera saman umræðuna um hvalveiðar þá og nú. »Það er til dæmis athyglisvert hvað umræðan um hvalveiðar var hörð, óvægin og svarthvít, og minnir um margt á umræðurnar um veiðarnar í dag þrátt fyrir að forsendur deilnanna í dag séu aðrar en þá. Þetta er óskaplega tilfinningarík og óvægin umræða.«
Heillaðist ungur af hvalstöðvunum
Smári segir áhuga sinn á hvalveiðum hafa byrjað snemma. »Ég er fæddur og alinn upp í Neskaupstað og sem ungur strákur fór ég til dæmis til Hellisfjarðar og Mjóafjarðar, þar sem enn voru leifar hvalstöðva. Mér þótti þetta heillandi og spurði margra spurninga en það var lítið um svör,« segir Smári.
»Í reyndinni hefur þetta aldrei látið mig almennilega í friði. Mér hefur fundist ég þurfa að vita meira,« segir Smári og bætir við að mjög lítið hafi verið skrifað á íslensku um þetta efni. »Það var ekki fyrr en sagnfræðingurinn Trausti Einarsson gaf út bók sína árið 1987, <ská>Hvalveiðar við Ísland 1600-1939, að unnt var að fá yfirsýn yfir þetta efni og það var mikill fengur að þeirri bók, en ég vildi halda áfram og gera meira.« Þegar Smári fór til náms í Noregi árið 1978 kannaði hann hvaða prentuðu heimildir væru til um hvalveiðar við Ísland, en varð fyrir talsverðum vonbrigðum.
»Það var ekki mikið til. Ég fór að skrifa greinar um hvalveiðar í blöð hér heima og ég gerði útvarpsþætti líka, en ég var upptekinn, kennari í föstu starfi og af fullum krafti í bæjarmálum og það gafst aldrei almennilegur tími til að sinna þessu vel.«
Þegar tækifærið kom fór Smári til Noregs og helgaði sig hvalveiðirannsóknum. Hann lætur vel af móttökunum, enda hafi Norðmenn mikinn áhuga á hvalveiðisögu sinni. »Ég fékk aðstöðu á hvalveiðisafninu í Sandefjord, og vann mikið þar.« Smári segir að þar sé líklega besta bókasafn í veröldinni um hvalveiðar og á hvalveiðisafninu var jafnframt samkomustaður hvalveiðisagnfræðinga sem komu þangað víða að úr heiminum. Þá fékk Smári dagblöð í Vestfold til þess að segja frá verkefninu og kom þar fram að hann sæktist eftir heimildum frá Íslandsveiðum Norðmanna. Í kjölfarið hafi afkomendur hvalveiðimannanna haft samband og látið Smára í té mikið af ómetanlegum heimildum, til dæmis ljósmyndum sem aldrei áður hafa sést á Íslandi.
»Ég fékk þarna bréfasöfn frá hvalveiðitímanum, endurminningaskrif og dagbækur. Þetta eru stórkostlegar heimildir til að varpa ljósi á það við hvaða aðstæður þessar veiðar fóru fram.«
Fyrsta vélvædda hvalstöðin
Bókin er mjög yfirgripsmikil og í henni birtast myndir sem ekki hafa komið fyrir augu Íslendinga áður. Þar rekur Smári meðal annars hvalveiðar Baska á 17. öld, sem og tilraunir Bandaríkjamanna til þess að hasla sér völl hér upp úr miðri 19. öld. Smári nefnir sem dæmi að þeir hafi reist fyrstu vélvæddu hvalstöð heimsins hér á landi árið 1865, sem jafnframt væri þá líklega fyrsta vélvædda verksmiðja á Íslandi. Veiðarnar gengu hins vegar ekki sem skyldi, og tilraunir Dana og Hollendinga til veiða hér við land fóru einnig sömu leið.
Meginefni bókarinnar er hins vegar norska hvalveiðitímabilið frá 1883 til 1915, en þá voru hvalveiðarnar jafnframt umfangsmestar. »Þegar umsvifin voru mest voru gerðir héðan út yfir 30 hvalveiðibátar frá níu hvalveiðistöðvum,« segir Smári og nefnir að mesta veiðiárið, 1902, hafi rúmlega 1.300 hvalir verið veiddir. Hann segir að umfang veiðanna sjáist á því að í stærstu hvalstöðinni á þessum tíma, á Asknesi í Mjóafirði, hafi um 300 manns unnið, en stöðin gerði út níu hvalveiðibáta og hafði tvö flutningaskip í sinni þjónustu. »Þetta væri eitt stærsta sjávarútvegsfyrirtæki landsins í dag,« segir Smári.
Höfðu mikil áhrif á samfélagið
En hvers vegna tóku Íslendingar ekki þátt í þessu? Smári segir ástæðuna fyrir því hafa fyrst og fremst verið skort á fjármagni. »Það þurfti mikið fjármagn á þeirra tíma mælikvarða til að byggja upp svona fyrirtæki, reisa hvalstöð með öllum tækjum og tólum, kaupa hvalveiðibáta og reka flutningaskip. Íslendingar höfðu engin tök á því á þeim tíma og treystu sér ekki til þess.«
En þrátt fyrir að Íslendingar sjálfir legðu ekki út í hvalveiðar á þessum tíma höfðu hvalstöðvarnar gríðarleg áhrif á samfélagið. »Upphaf vélvæðingar á Íslandi á sér stað þarna. Það er alltaf sagt að vélvæðing bátaflotans hafi markað upphafið, en þetta gerist fyrr, en það hefur ekki farið hátt, sennilega vegna þess að hvalveiðifyrirtækin voru í erlendri eigu,« segir Smári og nefnir sem dæmi að vélsmiðjur hvalstöðvanna hafi verið ómetanlegar þegar farið var að setja vélar í fiskibáta hér við land. »Íslendingar kunnu lítið með vélar að fara, en á hvalstöðvunum voru vélamenn sem sinntu viðgerðum og viðhaldi á vélum í bátum.« Þá hafi vélstjórarnir á fyrstu íslensku togurunum verið menn sem lærðu sína iðn á hvalstöðvunum.
En áhrifin voru ekki bundin við vélvæðingu samfélagsins. »Hvalstöðvarstjórarnir komu sér yfirleitt mjög vel í þeim samfélögum sem hvalstöðvarnar voru starfræktar í, og studdu við góð verkefni,« segir Smári. Hann nefnir þar einkum Hans Ellefsen, sem átti stærstu hvalstöðvarnar á Íslandi, fyrst hvalstöðina í Önundarfirði og síðar á Asknesi í Mjóafirði. »Hann studdi við góð málefni af miklum myndarskap, sinnti vega- og brúargerð, lagði fjármagn til menningarmála og studdi fjölskyldur sem áttu í erfiðleikum.«
Þá gátu menn leitað til hvalstöðvanna til þess að fá ódýran mat. »Menn gátu keypt spik og kjöt mjög ódýrt eða jafnvel fengið það gefins og gerðu út leiðangra til þess að sækja hval,« segir Smári.
Smári segir að lokum að hann telji sögu hvalveiðanna eiga skilið meiri athygli í ljósi þeirra áhrifa sem þær höfðu. »Þetta er mikil og heillandi saga.«
Morgunblaðið mánudagurinn 12. október 2015.