Mikil aðsókn í hlaupahátíð
„Það er auðvitað frábært að hlaupa þessa leið. Maður áttar sig ekki á því hvað þetta er ótrúleg leið að fara, enda keyrir maður aldrei þarna um", segir Guðbjörg. Óshlíðin verður hlaupin á föstudag en Vesturgatan á sunnudag. Ekki veitir af hvíldinni enda eru margir skráðir til leiks í bæði hlaupin. Á laugardag er svo fjögurra kílómetra leið Óshlíðarinnar hlaupin en vinsælt er meðal hlaupara að fara þessa styttri vegalengd með börnum sínum. Í hádeginu á laugardag verður svo boðið upp á fyrirlestra frá reyndum hlaupurum um allt sem snýr að hlaupi. Fyrirlestrar hlauparanna þriggja nýtist bæði reyndum og óreyndum hlaupurum, en meðal ræðumanna verður Gunnar Páll Jóakimsson, einn reyndasti hlaupþjálfari Ísland. Einnig verður boðið upp á léttan hádegisverð á meðan á fræðslunni stendur.
Hið árlega Vesturgötuhlaup er nú haldið í fjórða sinn. Í því er hlaupin hin stórbrotna leið fyrir Svalvoga, á milli Arnarfjarðar og Dýrafjarðar. Í heilli Vesturgötu er hlaupin 24 km leið frá Stapadal í Arnarfirði að Sveinseyri í Dýrafirði, en í hálfri Vesturgötu er hlaupin um 12 km leið frá Svalvogavita að Sveinseyri.
Óshlíðarhlaupið fer fram í 17. sinn á föstudag en það hefur verið haldið samfellt frá árinu 1993. Hlaupnar verða þrjár vegalengdir eftir þolmörkum manna. Þeir sem hlaupa fjóra kílómetra leggja af stað frá miðbæ Ísafjarðar og hlaupa inn Skutulsfjörð að Grænagarði og til baka. Þeir sem hlaupa tíu kílómetra leggja af stað frá Hnífsdal og hlaupa að Skeiði og enda á Silfurtorgi og þeir sem hlaupa hálfmaraþon leggja af stað frá Bolungarvík að Skeiði og enda á Silfurtorgi. Hlaupið hefur fyrir löngu skapað sér fastan sess hjá hlaupurum á Vestfjörðum en það nýtur einnig vinsælda hjá fólki víðsvegar um land. Það er ekki að ástæðulausu en Óshlíðin er ein fallegasta og jafnframt hrikalegasta almenningshlaupaleið sem boðið er upp á hér á landi.