Merkir Íslendingar - tólfti september - Freymóður Jóhannsson
Freymóður Jóhannsson, málarameistari, listmálari og tónskáld, fæddist 12. september 1895, enda notaði hann höfundarnafnið -Tólfti september- á lög sín. Freymóður fæddist í Stærra-Árskógi, sonur Jóhanns T. Þorvaldssonar og Hallfríðar Jóhannsdóttur.
Freymóður lauk gagnfræðaprófi á Akureyri, stundaði málaranám hjá Ástu málara, framhaldsnám í Kaupmannahöfn, nám við Teknisk Selskabs Skole og í Kunstakademiet, listmálaranám á Ítalíu og í Danmörku og nám í leiktjaldagerð við Konunglega leikhúsið i Kaupmannahöfn. Hann var málarameistari á Akureyri, listmálari í Óðinsvéum 1936-39 og vann síðan við Hagstofuna í Reykjavík.
Málverk Freymóðs voru yfirleitt landslagsmyndir í súper-realískum stíl enda var honum meinilla við aðrar stefnur, einkum abstraktverk. Sem fyrsti sérmenntaði leiktjaldamálari Leikfélags Reykjavíkur vann hann mjög raunsæjar útimyndir á sviði. Margir lofuðu Freymóð fyrir vikið, en aðrir gagnrýndu hann fyrir glansmyndir sem drægju athygli frá leiknum. Deilur um leiktjöld LR hörðnuðu síðan er Lárus Ingólfsson kom heim frá leiktjaldanámi með nýjar hugmyndir árið 1933.
Freymóður var bindindismaður (límonaðidrengur) og frumkvöðull að hinum frægu dægurlagakeppnum SKT sem haldnar voru í Gúttó og Austurbæjarbíói á sjötta áratugnum.
Freymóður samdi texta og melódísk og grípandi dægurlög sem sum hver urðu afar vinsæl. Meðal þekktustu laga hans eru Frostrósir; Draumur fangans; Litla stúlkan við hliðið og Litli tónlistarmaðurinn.
Freymóður og Kristján Albertsson gagnrýndu harkalega sænsku kynlífsfræðslumyndina Táknmál ástarinnar, sem sýnd var í Hafnarbíói um 1970. 68-kynslóðin kunni ekki að meta þessa siðvendni og hafði skoðanir þessara öldnu menningarforkólfa í flimtingum. En þeir voru hins vegar ýmsu vanir á langri og stormasamri ævi.
Freymóður lést 6.mars 1973.
Draumur fangans eftir Freymóð Jóhannsson - http://www.youtube.com/watch?v=z899zGn_R1c
Litli tónlistarmaðurin eftir FreymóðJóhannsson - http://www.youtube.com/watch?v=R-zi21ibN0g
Morgunblaðið fimmtudagurinn 12. september 2013 - Merkir Íslendingar
Skráð af Menningar-Stður