Merkir Íslendingar - Vilmundur Jónsson
Eiginkona Vilmundar var Kristín Ólafsdóttir læknir og voru börn þeirra Guðrún, húsfreyja, stúdent og prófarkalesari, móðir Þorsteins heimspekings, Vilmundar ráðherra og Þorvalds prófessors Gylfasona; Ólöf, tannsmiður í Reykjavík, móðir Ólafs viðskipafræðings og Kristínar, ritstjóra Fréttablaðsins Þorsteinsbarna, og Þórhallur, prófessor, faðir Guðrúnar dósents,Torfa verkfræðings og Helgu verkfræðings.
Vilmundur lauk stúdentsprófi frá MR 1911, embættisprófi í læknisfræði frá HÍ 1916 og stundaði framhaldsnám m.a. við Rigshospitalet í Kaupmannahöfn og Ullevål Sykehus í Ósló.
Vilmundur var héraðslæknir í Ísafjarðarhéraði 1917-31 og var jafnframt sjúkrahúslæknir á Ísafirði og var landlæknir 1931-59.
Vilmundur sat í bæjarstjórn Ísafjarðar 1922-31 og gegndi fjölda trúnaðarstarfa fyrir bæjarfélagið, var skólalæknir MR 1931-38, alþingismaður Ísafjarðarkaupstaðar fyrir Alþýðuflokkinn 1931-33 og í Norður-Ísfjarðarsýslu 1933-34 og frá 1937-41 er hann sagði af sér þingmennsku.
Vilmundur var stjórnarformaður Landspítalans 1931-33 og síðar Ríkisspítalanna 1933-59, sat í landskjörstjórn 1933-56, var formaður Manneldisráðs frá stofnun 1939-59, formaður skólanefndar Hjúkrunarskóla Íslands 1945-59 og forseti Læknaráðs frá stofnun 1942-59.
Vilmundur var mikill vinur Þórbergs Þórðarsonar rithöfundar og kemur Vilmundur víða við sögu hjá Þórbergi. Vilmundur var auk þess með áhrifamestu jafnaðarmönnum á sinni tíð og átti m.a. stóran þátt í því að þeir höfnuðu Jónasi frá Hriflu sem ráðherraefni í Stjórn hinna vinnandi stétta 1934.
Vilmundur var víðlesinn, þótti afburðagreindur og skemmtilegur í viðkynningu. Hann lést 28. mars 1972.
Morgunblaðið 28. maí 2015 - Merkir Íslendingar